23.07.1931
Efri deild: 8. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 358 í C-deild Alþingistíðinda. (2452)

44. mál, virkjun Efra-Sogsins

Jónas Jónsson:

Mig furðar, hvað hv. 1. þm. Reykv. er lítið trúaður nú á frumkvæði einstaklinganna, ef það er rétt, að hans flokksbræður hafi tekið með miklum kulda þessum tillögum Sig. Jónassonar um samningsbundið verð á rafmagni. Þar sem hv. þm. játar nú, að flokksbræður hans hafa lagzt á móti þessari uppástungu, þá held ég, að ekki sé mikil alvara þeirra í málinu, enda er það vitanlegt, að sá flokkur, sem hann er nú í, hefir staðið fast á móti virkjun Sogsins um mörg ár, og aðalforgöngumaður þessa máls hefir orðið fyrir árásum fyrir að beita sér fyrir því. Þetta vita allir, að er rétt.

Ég býst við að geta sparað þangað til við 2. umr. að knýja meðmælendur málsins til þess að gera nánari grein fyrir ýmsu því, sem síðasti ræðumaður gat ekki svarað. En eitt atriði reyndi hann þó að verja í aðstöðu síns flokks, að erfiðleikar bæjarins kæmu aðeins af því, að þessi eini lánveitandi væri hræddur við pólitík í málinu. En hefir honum ekki dottið í hug, að hægt sé að láta bæinn fá concession á þessu fyrirtæki? Eðlilegast væri, að gerð væru um þetta lög, og mætti þá fá fulla tryggingu fyrir því, að fyrirtækið yrði ekki fyrir misvindi af pólitískum deilum. Þetta er hlutur, sem mjög auðvelt er að taka til athugunar, og mætti t. d. breyta þessu frv. í heimild fyrir ríkisstj. til að tryggja málið á þennan hátt eða annan.

En það, sem ég ætlaði þó einkum að minnast á nú, og sem hvorki hv. 1. né 2. landsk. vilja taka trúanlegt, er það, að ef landið tekur á sig þessa ábyrgð, getur vel farið svo, að hér við þurfi að bæta nokkrum millj., ef þessi fjárhæð nægir ekki. Og ef svo Vestmannaeyingar koma á eftir og vilja fá rafmagn til sín, hvernig ætti þá að neita þeim um þetta? Leiðslan ein þangað kostar fram undir 2 millj. Síðan kæmu Rangæingar og Árnesingar og öll önnur sveitar- og bæjarfélög, sem oft og tíðum myndu hafa mikla þörf fyrir slíka ábyrgð. En það er á vitund allra, að þessar ábyrgðir, sem Alþingi hefir takmarkað hingað til, eru hættulegar fyrir landið. Hver slík ábyrgð er talin á skuldalista; þessi ábyrgð þýðir 7 millj. kr. minna lánstraust. Ef í einu er skapað fordæmi, þannig að ekki sé hægt fyrir þingið að neita síðari ábyrgðum, þá er komin tvöföld hætta, bæði lánstrausts spjöll og fordæmi fyrir því, sem þingið vildi í raun og veru ekki á sig taka. Þetta er aðalástæðan fyrir því, að við framsóknarmenn viljum, að hægt sé að finna skipulag, sem hjálpi sveitarfélögunum til þess að fá lán til slíkra framkvæmda, því að þær eru utan við verksvið ríkisvaldsins, og það er hættulegt fyrir ríkið að bæta við sig verkefnum, sem önnur ríki ekki hafa. Þetta er ekkert einkennilegt hjá hv. 2. landsk., þar sem hans flokksmenn vilja blanda ríkinu í allt. En það er óeðlilegt frá sjónarmiði hinna fylgismanna málsins, sem vilja halda ríkinu frá öllu. a. m. k. því, sem hægt er að græða á.

Ég vil skjóta því til hv. 1. þm. Reykv., sem er bankaeftirlitsmaður og ætti því að vera kunnugur fjármálum, að hann hjálpaði til þess að reyna að finna og byggja upp skipulag, t. d. lánsfélög fyrir kaupstaðina, þannig að ábyrgð þeirra sameiginlega yrði tekin gild fyrir lán. Um þetta er ég samdóma hv. 1. landsk., sem beitti sér á móti ábyrgðum, þótt minni væru en þessi, meðan hann var fjmrh., og með svipuðum röksemdum og ég hefi fært fram.