24.07.1931
Efri deild: 9. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 371 í C-deild Alþingistíðinda. (2456)

44. mál, virkjun Efra-Sogsins

Bjarni Snæbjörnsson [óyfirl.]:

Umr. í gær um þetta mál fóru nokkuð svipað og umr. í dag um Hafnarfjarðarveginn. Mér kom þá sama spurningin í hug, sú, hvort það gæti verið þjóðnytjamáli nokkur bót, að flokkarnir, sem að því standa, fari að rífast um það, hver þeirra ætti heiðurinn af að hafa komið málinu fram. Sá eini hv. þm., hv. 5. landsk., sem talaði á móti málinu, tók einmitt upp ummæli og bardagaaðferð hv. 2. landsk. til þess að sýna fram á, að málið ætti engan rétt á sér. Annars ætla ég ekki að fjölyrða um þetta atriði.

Það er alrangt hjá hv. andstæðingum þessa máls, að frv. þetta sé sérstaklega borið fram með hagsmuni Rvíkurbæjar fyrir augum. Fullur þriðjungur landsmanna mundi hafa aðstöðu til notkunar á raforku frá Soginu, ef það yrði virkjað. Langmestur hluti þessa fólks utan Rvíkur er í Hafnarfirði og á Reykjanesskaganum, og vildi ég segja nokkur orð um viðhorf þessara manna til málsins.

Allt frá því að ég sat fyrst í bæjarstj. Hafnarfjarðar, eða frá árinu 1923, hefir það verið einróma ósk okkar Hafnfirðinga, að virkjun Sogsins kæmist í framkvæmd. Við höfum þess vegna verið að lappa upp á hitt og þetta hjá okkur, því að við höfum alltaf vonazt eftir, að málinu yrði hrint í framkvæmd, og það sem allra fyrst.

Þetta er líka stórkostlegt hagsmunamál fyrir allar hinar mörgu og fjölmennu verstöðvar á Reykjanesi. Vetrarvertíðin byrjar þar í mesta skammdeginu, 1. jan., og er þá um að gera að hafa nóga birtu, til þess að geta komið aflanum frá sér á kvöldin. Hafa því verstöðvarnar reynt að raflýsa hjá sér, en það hefir orðið sumum þorpunum ofvaxið, t. d. Grindavík, og hefir orðið að hætta við raflýsingu þar. Fiskverkunarhúsin þurfa sérstaklega á rafmagni að halda, en það er ekki hægt að fá nema þessu máli verði hrint í framkvæmd. Þetta er því alls ekki eingöngu hagsmunamál Rvíkur, heldur fulls þriðjungs landsmanna, og það er líka hagsmunamál landsins í heild og ríkissjóðsins, því að því betri sem lífsskilyrði manna verða á þessum stöðum, því meira fé kemur í ríkissjóðinn.

Mér fundust rök hv. 5. landsk. dálítið einkennileg, þegar hann var að tala um, hvílíkt áhættuspil það væri fyrir ríkissjóð að ganga í ábyrgð þá, sem farið er fram á í frv. Og ég held, að þessi sama skoðun hafi líka legið í orðum hv. 2. þm. Eyf., þó að þar væri öðruvísi tekið á málinu og aðeins beðið um upplýsingar viðvíkjandi því. Ég held, að öllum hljóti að vera ljóst, að þetta er ekkert áhættuspil, þar sem virkjuninni er ætlað að bera sig. Og ég get ekki skilið, að það yrði talið ríkinu til skulda, þó að það gengi í þessa ábyrgð. Ég þekki reyndar ekki mikið til fjármálaviðskipta milli ríkja, en ég veit, að þó að maður skrifi upp á víxil og setji tryggingu, þá er það ekki reiknað manninum til skuldar í bönkunum. Ég býst við því, að ríkið hlíti nokkurnveginn sömu lögum í þessu efni. Það var þetta atriði, ásamt því, að Íhaldsflokkurinn hefði verið 16 sinnum á móti málinu, sem var þungamiðjan í röksemdum hv. 5. landsk. á móti þessu máli.

Ég get ekki séð, að þessar mótbárur séu á neinum rökum reistar, heldur séu þær sprottnar af einhverri hreppa- eða flokkspólitík, sem ekki á heima hér á hv. Alþingi, þegar um er að ræða slíkt þjóðnytjamál sem þetta er.