24.07.1931
Efri deild: 9. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í C-deild Alþingistíðinda. (2468)

67. mál, vegur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar

Flm. (Bjarni Snæbjörnsson) [óyfirl.]:

Ég get ekki neitað því, að mér finnst það hálfóviðfelldið, að svo skuli alltaf vilja til, þegar um góð mál er að ræða, sem jafnaðarmenn og sjálfstæðismenn eru sammála um, að einhver úr flokki jafnaðarmanna verður til þess að standa upp og segja: „Þetta mál er nú eitt þeirra mála, sem við jafnaðarmenn alltaf höfum barizt fyrir, en sjálfstæðismenn alltaf verið á móti“. — Ef um gott mál er að ræða, stendur á sama, hvernig flokkarnir kunna að hafa litið á það einhverntíma í fyrndinni, ef þeir eru orðnir sammála um það á annað borð. — Hvað það mál snertir, sem hér er um að ræða, þá fer því fjarri, að ég hafi tekið það eftir Alþýðublaðinu. Miklu fremur mætti segja, að Alþýðublaðið hefði tekið málið upp eftir mér. Á kosningafundum þeim, sem ég var á með Stefáni Jóh. Stefánssyni, frambjóðanda Alþýðuflokksins í Hafnarfirði, lýsti ég þessu máli einmitt sem einu af mínum málum, en hann minntist alls ekki á það. Og frv. skrifaði ég hér í d. á laugardaginn var, og býst ég við, að annar sessunautur minn a. m. k. hafi séð það hjá mér. Og víst er um það, að hv. l. þm. Reykv. sá það. Klukkan var um eitt, þegar ég skrifaði frv., og hefir Alþýðublaðið því haft málið frá mér, en ég ekki frá því, því að það kom fyrst út um eftirmiðdaginn. Annars er það náttúrlega eins og hver annar barnaskapur að vera að togast á um annað eins og þetta hér á Alþingi, eins og hv. 2. landsk. hlýtur að sjá, og því fer fjarri, að ég hefði álitið mig neitt minni mann, þó að jafnaðarmenn hefðu orðið til að hreyfa þessu máli fyrst. En það hefir bara ekki við nein rök að styðjast, eins og ég hefi sýnt fram á.

Það var með vilja gert, að ég setti það ekki í frv., að byrjað skyldi á þessum vegi strax. Sá ég fram á, að það mundi enga þýðingu hafa, ef hv. d. liti svo á, að slíks væri enginn kostur. Hinsvegar er hægurinn á með að bæta ákvæði inn í frv., ef hv. d. sér sér það fært, eins og ég vona, að verði, og fáum við hv. 2. landsk. þá framgengt þessu sameiginlega áhugamáli okkar.

Vegurinn, sem stikaður var 1917, var gerður með það fyrir augum að vera þrennt í senn: járnbrautarvegur, bílvegur og gangvegur. Var og áætlað, að vegurinn yrði 8 m. á breidd. Er að sjálfsögðu ætlazt til þess að þessi vegur, sem frv. gerir ráð fyrir, verði í samræmi við kröfur þær, sem nú eru gerðar í þessum efnum, og kemur ekki annað til mála en að vegurinn verði a. m. k. 6½ m. á breidd og malbikaður, enda mun vegamálastjóri líta svo á. Annars býst ég við, að n muni fá um þetta frekari upplýsingar hjá vegamálastjóra, og hans er það að gefa þær en ekki mitt, þó að ég hinsvegar hafi tekið þetta fram, til þess að koma í veg fyrir, að sagt yrði, að ég hefði ekkert um þetta vitað, eins og mér er ekki ósjaldan borið á brýn í blöðum andstæðinganna í hinu og öðru efni.

Ég vænti þess, að þetta mál nái sem fyrst fram að ganga, því að það er atvinnubót um leið og það er samgöngubót, en atvinnuleysi er nú fram undan í báðum þessum bæjum, Reykjavík og Hafnarfirði, meira en nokkru sinni áður.