24.07.1931
Efri deild: 9. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í C-deild Alþingistíðinda. (2470)

67. mál, vegur milli Hafnarfjarðar og Suðurlandsbrautar

Jón Þorláksson:

Það er óneitanlega fremur skemmtilegt, að formaður Alþýðuflokksins skuli standa hér upp í hverju máli og bera fram staðhæfingar, sem ekki eru fátíðar, en þess eðlis, að maður er vanur að heyra þær frá mönnum, sem sérstaklega stendur á fyrir og sagt er, að komin séu ellimörk á. Man ég sérstaklega eftir einum mætum sagnfræðingi í þessu sambandi, sem hafði mikinn áhuga fyrir öllum landsmálum. Ég kom oft heim til þessa manns, eins og reyndar margir aðrir, og allir höfðu sömu söguna að segja, að þegar eitthvert nytjamálið bar á góma, stóð hann upp, gamli maðurinn, og sagði: „Fyrsta uppástungan um þetta kom frá mér. Ég á hana ennþá í skúffunni minni“. Þetta var góður og mætur maður, en hann eltist fyrir tímann, sem kallað er, og sjúkdómseinkenni ellimarkanna komu fram í þessu, að honum var farið að finnast sem hann hefði átt upptökin að hverju nýtu máli sjálfur.

Nú væni ég ekki hv. 2. landsk. um það, að komin séu á hann ellimörk, þetta er mætur maður og ég óska honum langra lífdaga, en mér finnst það lýsa ellimörkum á flokki hv. þm., að hann skuli rísa hér upp í hverju máli og segja: ,,Þetta mál komum við fyrstir með. Við áttum fyrstu uppástunguna að þessu“. Því að þetta er einmitt það síðasta, sem öldungarnir segja, áður en þeir hverfa ofan í gröfina. Það þýðir auðvitað ekki annað en taka þessu vel, því að enginn getur afneitað sínu eðli, og þetta er nú einu sinni einkenni þeirra manna, sem búnir eru að lifa lífinu og hættir að koma auga á nein lífvænleg verkefni. En að svona sé komið fyrir Alþýðuflokknum, fáum við nú að heyra daglega af vörum sjálfs formanns flokksins.

Mér þykir það annars leitt, hve hv. 2. landsk. er ónákvæmur í meðferð sögulegra heimilda, þegar andstæðingar hans eiga hlut að máli. Ég benti á það í gær, að hann hefði sagt rangt frá afstöðu fyrrv. Íhaldsflokks og núv. Sjálfstæðisflokks til Sogsmálsins, en hv. þm. hefir engu að síður endurtekið sömu rangfærslurnar í dag og tekizt að blanda þeim inn í þetta mál. (PM: Hann er farinn að trúa þessu sjálfur). Það mun vera svo. Þó að ekki sjái nein ellimörk á þessum hv. þm., er komin sú kyrrstaða og tregða í hugsunina, að rangar hugmyndi, sem einu sinni hafa komizt inn hjá honum, sitja þar fastar, eins og í ryðgaðri vél, og verður ekki um þokað.

Annað var það einnig, sem hv. 2. landsk. gat ekki farið rétt með. Hann sagði, að Kristján Albertsson hefði á sínum tíma verið rekinn frá Verði vegna skrifa sinna um kjördæmaskipunina. Þetta er staðleysa ein, eins og líka það, að hann hafi fengið ofanígjöf frá miðstjórn Íhaldsflokksins fyrir þessi skrif, en því hefir nú ósjaldan verið brugðið fram af sumum andstæðingum okkar sjálfstæðismanna. Sá eini ágreiningur, sem varð milli þessa ritstjóra flokksins og miðstjórnarinnar, var að vísu í þessu máli, og ritstjórinn skrifaði grein um málið í Vörð út frá sínu sjónarmiði. Að síðar kom yfirlýsing um það, að það, sem ritstjórinn hafði sagt í þessari grein, væri frá honum sjálfum, en ekki skrifað í umboði flokksstjórnarinnar, var auðvitað ekki nema sjálfsögð ábending staðreyndar.

Það var spaugilegt, þegar hv. 2. landsk. var að eigna Alþýðuflokknum vegarlagningaruppástunguna milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur, en eins og kom fram hjá hv. flm. málsins, var sú vegarlagning fyrst ákveðin 1917. Getur verið, að Alþýðuflokkurinn hafi verið fæddur þá, en víst er, að flokkurinn átti þá engan fulltrúa á þingi og var yfirleitt engu ráðandi. Voru það og allt aðrir en þeir, sem siðar urðu ráðandi í Alþýðuflokknum, er tóku fyrstu ákvörðunina um framkvæmd þessarar vegarlagningar, þó að verkið hinsvegar stöðvaðist, eftir að það var skammt á leið komið. Svo kemur flokkur, sem hefir orðið til síðar, og segir við eldri flokkana: „Við áttum upptökin að þessu. Þið eruð að stela þessari till. frá okkur“. Ég veit ekki, hvað á að kalla þetta fyrirbrigði, en mér finnst það vera það, sem kallað er að ganga í barndómi. Og ég veit, að hv. 2. landsk. sér það, þegar hann íhugar þetta í stillingu heima hjá sér, að hann vinnur ekki flokki sínum greiða með slíkum málflutningi. Það eina, sem hann hefir upp úr þessu, er að gera flokk sinn hlægilegan.