15.07.1931
Sameinað þing: 1. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 11 í B-deild Alþingistíðinda. (2515)

Rannsókn kjörbréfa

Ólafur Thors:

Ég hjó eftir því sama og hv. 3. þm. Reykv., að Bergur Jónsson var að lýsa yfir því í annari andránni, að ef um nokkuð aðfinningavert væri að ræða samkv. þessari kæru, þá væri það glæpsamlegt athæfi; en hann kvaðst ekki álíta þingið réttan vettvang og vildi áfrýja til ákæruvaldsins í landinu.

Við munum nú allir, að þegar Jónas Jónsson var í stjórn, þá var ekkert ákæruvald til þegar um hans flokksmenn var að ræða. Og þó að máske sé lélegur sá dómur, sem skipaður er af Alþingi í þessu máli, þá er þó miklu verra að skjóta þessu til ákæruvaldsins í þessa manns höndum, ef hann á enn að eiga sæti í æðstu stjórn landsins.

Ekki þekki ég þann mann neitt, sem hér á hlut að máli, og hefi enga ástæðu til að ætla hann líklegan til sviksamlegs athæfis, — nema að hann sjálfur sagði: „Ég þurfti ekki að beita slíku atferli, af því að ég taldi mína kosningu vissa“. Ef á annað borð þykir taka því að vera með heimspekilegar hugleiðingar um það, hvort eigi að fremja glæpsamlegt athæfi eða ekki, og komast svo að þeirri niðurstöðu, að þess hafi ekki þurft, þá leyfi ég mér að segja, að þessi litla viðkynning af innræti bendir heldur til að óska rannsóknar.