19.08.1931
Efri deild: 33. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 487 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

1. mál, fjárlög 1932

Jón Jónsson:

Það vill nú svo illa til, að hv. frsm. fjvn. er veikur sem stendur og getur því ekki mætt á þessum fundi, og ég verð því að leyfa mér fyrir hönd n. að fara nokkrum orðum um þær till., sem hún ber fram við þessa umr. En að sjálfsögðu verður það styttra og ómerkilegra en ef hv. frsm. væri við, en það vill til, að till. n. eru mjög fáar.

Fyrsta till. er á þskj. 346II, við 13. gr. C.I.4, nýr liður: Til aðstoðarmanna og mælinga við vitamál, allt að 3000 kr. N. barst erindi frá vitamálastjóra, sem kom sjálfur til viðtals, þar sem hann vakti athygli n. á því, að enginn liður væri í fjárl. til þess arna, eins og verið hefði undanfarið; í núg. fjárl. eru veittar til þess 7000 kr. En þetta hafði verið fellt niður af stjfrv. af þeirri ástæðu, að þá var ekki gert ráð fyrir neinum fjárframlögum til nýbygginga, hvorki vita né hafna. En þar sem nú hefir bætzt allmikil upphæð í fjárl. í þessu skyni, virtist ekki hægt að komast hjá því að veita eitthvað til þessara mælinga og aðstoðar. Vitamálastjóri fór fram á nokkru hærri upphæð en hér er lagt til, en við sáum okkur ekki fært að leggja til meira en 3000 kr. að svo vöxnu máli. En ég geri ráð fyrir, að ef ráðizt verður í þessar framkvæmdir og nauðsynlegt er að fá meiri aðstoð, þá muni hún verða veitt eins og að undanförnu.

Ég skal geta þess í þessu sambandi, að vegamálastjóri kom líka á fund n. og fór fram á, að samskonar liður undir vegamálunum væri hækkaður. Í þessu frv. er hann aðeins 10 þús. kr., en í núg. fjárl. mun hann vera 24 þús. kr. Þetta er geysileg lækkun, sem upphaflega mun hafa verið byggð á því, að stj. lagði ekki til í sínu frv., að neitt væri unnið að nýbyggingum vega.

N. sá ekki beina ástæðu til þess að taka upp hækkun á þessum lið, vegna þess að allt er svo óvíst og á hverfanda hveli um framtíðina og hvað hægt verður að gera á næstunni. En það er eins um þenna lið og hinn liðinn, að ef reynslan leiðir í ljós, að þarna verði um miklar framkvæmdir að ræða, þá verður þetta að sjálfsögðu athugað um næstu áramót og hækkað eins og ástæður þykja til, og ef nauðsyn virðist til þess.

Þá er næsti liður á sama þskj., IV. Það er um að hækka liðinn til aukakennara og stundakennslu við menntaskólann á Akureyri um 1000 kr. Þannig stendur á því, að undanfarin ár hefir, þótt leitt sé til að vita, fallið niður söngkennsla við skólann, vegna þess að ekki hefir verið kostur á hæfum manni að dómi skólameistara. En vitanlega er gert ráð fyrir þessari kennslu í lögum og skólareglugerð, og nú hefir skólameistari komizt að samningum við Akureyrarbæ um að skólinn og bærinn réði í félagi mjög efnilegan mann til söngkennslu þar. Með tilliti til þess færði hann rök fyrir því, að þessi liður yrði hækkaður um 1000 kr., og leyfir n. sér að leggja til, að svo verði gert.

Næsti liður frá n. er VIII. liður, til starfrækslu háfjallastöðvar. Eins og menn vita, er nú ráðgert að byrja hið svokallaða pólarár 1. ág. 1932, og í þeim rannsóknum, sem þá fara fram, taka þátt flest menningarríki, til þess að rannsaka veðurfar við heimskautin. Þess vegna hefir verið farið fram á, að Ísland tæki þátt í þessu starfi að nokkru leyti. Það er ráðgert, að hér verði settar upp tvær stöðvar, önnur í Reykjavík og hin á Snæfellsjökli. Fyrst var hugsað um að hafa þá stöð á Austurlandi, en frá því var horfið aftur. Fjvn. sá ekki annað fært en að leggja til, að einhver fjárveiting væri samþ. í þessu skyni. Það er ráðgert, að þessi stöð starfi allt árið, en hér er ekki um að ræða nema eitthvað 5 mán. af árinu 1932, og eftir því sem veðurstofustjóri sagði, gerir hann ráð fyrir, að allur kostnaður Íslendinga yrði ekki nema 12–15000 kr. Samkv. því leggur fjvn. til, að veittar séu 5000 kr. fyrir þeim kostnaði, sem líkur eru til, að verða mundi næsta ár.

Þá leggur n. til, að niður falli tillag til Fiskveiðasjóðs Íslands. Það var talað um þetta við 2. umr., og sé ég því ekki ástæðu til að fara frekar til í það nú. N. hefir aðeins tekið upp þá till., sem hún flutti við 2. umr., en tók þá aftur til 3. umr., fyrir tilmæli hv. 2. landsk.

Þá er brtt. X, 1, um að aths. falli burt. Nú er í fjárl. ráðstafað 1200 kr. til ákveðins sjúklings, en n. áleit, að með þessu, ef það yrði samþ., væri skapað svo alvarlegt fordæmi, að rétt væri að samþ. það ekki, því að annars yrði að taka þar upp fleiri sjúklinga, sem eru ekki á sjúkrahúsum, ef ekki ætti að gera upp á milli þeirra.

Þá er annar liður undir sama tölulið, að veita 450 kr. til Önnu Jónsson, ekkju Klemens Jónssonar. Það er algerlega í samræmi við aðrar ráðherraekkjur, sem nú eru í fjárlögunum, að þessi till. kemur fram.

Þá er hér styrkur til ekkju Gísla Ólafsonar landssímastjóra. N. þótti sjálfsagt, að þessi ekkja kæmi inn í fjárl., til samræmis við aðra landssímastjóraekkju.

Þriðja till. undir þessum sama tölulið er um það, að einni prestsekkju sé bætt við á 18. gr. Það virðist vonum seinna, sem hún sækir um að komast inn í fjárl., því að hún hefir nú verið ekkja í 30 ár.

4. liðurinn er um að ábyrgjast lán til Hjaltastaðahrepps. Eins og mönnum er kunnugt, var í fjárl. 1929 heimild til að lána þessum hreppi 25 þús. kr. úr ríkissjóði vegna sérstakra neyðarástæðna þess hrepps. Fyrir þinginu lá þá ýtarleg skýrsla um hinar afarörðugu ástæður þar, sem nú hafa sízt batnað eftir þeim upplýsingum, sem nú liggja fyrir þessum hreppi hvílir nú mikil skuld, og hefir nú verið leitað nauðasamninga um hana. Eru allar horfur á, að þeir samningar muni takast og því eitthvað rakna úr fyrir þessum hreppi, ef þetta lán getur fengizt. N. taldi því ekki annað gerlegt en að mæla með því, að þessari sveit sé veitt þessi ábyrgð.

Jafnframt þessu lá fyrir fjvn. beiðni frá þremur öðrum hreppum, sem hér eru nefndir, um að veita þeim einhverskonar hallærishjálp. Eftir þeim skýrslum og öðrum gögnum, sem hér liggja fyrir, eru þessir hreppar mjög alvarlega staddir vegna skulda, sem þeir ráða ekki við. Þar eru einnig svo mikil fátækraþyngsli, að engar líkur eru fyrir því, að þeir geti risið undir þeim. Hinsvegar fannst n. ekki liggja fyrir svo ýtarleg skýrsla um þessa hreppa, að hægt væri fyrir þingið að taka ákvörðun um þetta, og leggur því til, að stj. sé falið að kynna sér fjárhagsástæður sveitarsjóðanna og hreppsbúa, og athuga, hve mikið gjaldþol þeir hafi og leggja niðurstöðurnar af þeim rannsóknum fyrir næsta þing. Ástæður þessara hreppa virðast vera svo alvarlegar, að það virðist ekki rétt að skella skollaeyrunum við beiðnum þeirra.

Þá eru ekki fleiri till. frá n., og mér þykir ekki hlýða að svo vöxnu máli að fara út í till. frá einstökum þm., en mun skýra frá afstöðu n. til þeirra, þegar hv. þm. hafa sjálfir talað fyrir þeim, og mun ég þá einnig gera grein fyrir afstöðu n. til fjárlaganna yfirleitt.