10.08.1931
Neðri deild: 25. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 655 í B-deild Alþingistíðinda. (397)

3. mál, landsreikningar 1929

Jón Auðunn Jónsson [óyfirl.]:

Ég endurtek það til forsrh., að ég skal utan þings standa við allt, sem ég hefi sagt. Ef hann treystir sér til að segja, að ég fari með ósatt mál, þá standi hann við það. Og ég get sagt honum privat, hver það var, sem fræddi mig um málið.

Hann veit það vel sjálfur, í sambandi við hina umræddu embættisveitingu, þótt hann haldi því fram, að maður þessi hafi haft lengsta reynslu allra í verksmiðjum, að hann hafði aðeins um tíma verið við niðursuðuverksmiðju á Ísafirði og hafði þar yfirmann. Reynslan sýndi, að hann kunni ekkert til starfsins og eyðilagði stórfé fyrir ríkissjóði og bönkunum. Enda bendir viðurnefnið til annars en að honum væri sérlega sýnt að líta eftir hollustuháttum. Veitingin var eingöngu af persónulegum ástæðum. Hér er völ á hundruðum manna til aðstoðar þeim, sem hefir hið verklega yfirlit. Og hann hefir sagt, að hann hefði ekkert gagn af þessum manni og vildi vera laus við hann, enda nóg að hafa einn mann. Þetta er bara til þess að veita bitling.

Hv. þm. V.-Húnv. bregður mér um litla kunnáttu í bókfærslu. En svo mikið kann ég í bókfærslu, að ég vil ekkj telja greidda reikninga sem peninga í sjóði. Byrjunin á sjóðþurrð er venjulega skökk reikningsfærsla, — og svo endar það með glæp. Ég vil ekki, að ríkissjóðurinn taki slíkt upp. Þeir, sem lenda í sjóðþurrð, reyna að dylja svo lengi sem þeir geta, segja annað en er og reyna að blekkja með slíku. Að það sé lítilvægt atriði viðvíkjandi reikningum ríkissjóðs, hvort upphæðin er í sjóði eða er ekki í sjóði, það þykir mér næsta undarleg kenning.