11.08.1931
Neðri deild: 26. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 660 í B-deild Alþingistíðinda. (401)

3. mál, landsreikningar 1929

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Það var aðeins örstutt aths., sem ég vildi láta koma fram áður en umr. er lokið. Það hefir láðst að taka fram í nál. fjhn. um landsreikninginn, að ég fyrir mitt leyti stend að till. hv. 2. þm. Skagf. og hafði ætlað að áskilja mér sama fyrirvara og hann gerir í nál. Ég vil svo aðeins segja það, að þó að ég hafi með undirskrift minni látið uppi, að ég myndi samþ. landsreikninginn eins og hann liggur fyrir, ef brtt. hv. 2. þm. Skagf. nær fram að ganga, þá er það ekki af því, að ég sé ánægður með hann, heldur það, að mér er ljóst, að stjórnarliðið hér í þessari d. er nægilega fjölmennt og ákveðið í þeim efnum til þess, að þessir reikningar verði samþ. Og vitandi það, að þessir reikningar verða samþ., legg ég meira upp úr því að fá þessa höfuðskekkju leiðrétta heldur en að láta í ljós óánægju, eins og svo margir aðrir hafa gert. Það hefir verið minnzt á margt af því, sem miður hefir farið í greiðslum ríkissjóðs. Það hefir ekki verið minnzt á margt af því, sem hefir verið greitt, en sem ég tel, að ekki hefði átt að greiða. Ég sé ekki ástæðu til að fara að rifja þetta upp, enda er það þýðingarlítið. Ég mun sýna afstöðu mína til málsins með því að greiða atkv. með till. hv. 2. þm. Skagf., en verði hún felld, greiði ég atkv. móti landsreikningnum. Ég ætla ekki að trúa því fyrr en ég tek á, að hv. þm. leggi á móti þeirri till., þar sem hún fer fram á, að ríkið færi reikninga sína eins og hvert einasta fyrirtæki á landinu gerir. Ef ég færði reikninga þess fyrirtækis, sem ég veiti forstöðu, á sama hátt og ríkið færir sína reikninga. og færi niður í Landsbanka og fengi lán í því trausti, að hagur minn væri eins og reikningarnir gefa til kynna. og ef svo illa færa, að ég yrði gjaldþrota, þá er enginn vafi á því, að ég yrði dæmdur í tugthús fyrir sviksamlegt athæfi fyrir það að hafa ginnt lán út úr lánsstofnunum á grundvelli falskra reikninga. Slík hefir reikningsfærsla ríkisins verið. Ég álít það ekki gert í sviksamlegum tilgangi, en til þess að leyna þeirri staðreynd, að ríkisbúskapurinn var með öðrum hætti en fjmrh. þáverandi (EÁrna) hafði gefið til kynna með fjármálaræðu sinni, sem hann flutti á þingi 1930. — Ég get lokið mínu máli með því að endurtaka það, að ég ætla ekki að trúa því fyrr en ég tek á, að hv. þm. leggist á móti því, að þessu verði kippt í lag og láti þá umsögn sína í ljós, að þetta megi ekki koma fyrir aftur.