21.08.1931
Efri deild: 35. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 679 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

3. mál, landsreikningar 1929

Einar Árnason [óyfirl.]:

Ég vildi gera örstutta aths. út af því, sem hv. 1. landsk. sagði um 2 aths. yfirskoðenda, 33. og 34. 33. aths. er út af því, að þeir telja, að í lögum um bifreiðar sé það ekki meiningin, að af þeim lendi nokkur sérstakur kostnaður á ríkissjóði. Ég geri ráð fyrir, að þetta sé rétt. En af þessu er heldur ekki neinn kostnaður, sem ekki verður endurgreiddur. Kostnað þann, sem af lögunum leiddi 1927 og var nokkrar þúsundir og ríkissjóður lagði þá út, hefir hann fengið uppborið. Það er hægt að sýna það, að tekjur ríkissjóðs vegna þessara laga voru meiri en kostnaðurinn. Hér er aðeins um fyrirkomulagsatriði að ræða, en ríkissjóður hefir engu tapað. Þess vegna getur það ekki komið til mála, að þetta verði því til fyrirstöðu, að LR. verði samþ. Þótt þetta komi ekki inn fyrr en eftir á, þá er það ekkert aðalatriði. Aðalatriðið er það, að ríkissjóður hefir engan kostnað af þessu. Ef hv. 1. landsk. trúir þessu ekki, þá vil ég benda honum á að fara í fjmrn. og atvmrn. og fá þar að sjá útgjöld og tekjur vegna þessara laga og bera saman.

Um 34. aths. er sama að segja. Kostnaðurinn er laun eftirlitsmanna með verksmiðjum og vélum. Ríkissjóður greiðir föst laun, en tekur tekjurnar af stofnununum, sem skoðað er hjá. Í lögunum er ekki ætlazt til, að ríkissjóður beri neinn kostnað. En útkoman verður auðvitað sú, að tekjurnar, sem ríkissjóður fær, koma ári seinna, því að ekki er hægt að krefja stofnanirnar um greiðslu fyrr en eftir á. Þess vegna eru engar tekjur á 1. ári, en næsta ár koma tekjurnar og greiða kostnaðinn. Þessi aths. er byggð á því, að yfirskoðunarmönnum hefir ekki verið kunnugt um, að þessu var þannig varið. Þeir gátu ekki séð, að ríkissjóður hefði fengið neinar tekjur. En tekjurnar koma inn 1930, og LR. 1930 mun sýna, að tekjurnar koma.

Þetta hefi ég viljað taka fram, til þess að koma í veg fyrir, að þessi 2 atriði valdi misskilningi.