27.07.1931
Neðri deild: 13. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 100 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

1. mál, fjárlög 1932

Ólafur Thors [óyfirl.]:

Ég hefi leyft mér að flytja eina brtt., X., á þskj. 118, um það, að útgerðarfélaginu á Vatnsleysuströnd verði veittar 8500 kr. til lendingarbóta gegn jafnmiklu framlagi annarsstaðar frá. Þetta félag var stofnað í júní 1930 og er samvinnufélag. Eigendur félagsins eru allir þeir sjómenn, sem vinna við það, og einnig þeir menn, sem vinna í þágu þess á landi. Félagið á vélbát, sem er 20 smál. að stærð, og fékk það til þess stuðning Útvegsbankans. Til þess að geta starfrækt þenna bát hefir félagið orðið að láta byggja stóra bryggju, sem er að lengd 100 m. En auk þess er fyrirsjáanlegt, að það þarf að byggja varnargarð, sem áætlað er, að þurfi að vera 27 m. að lengd. Félagið getur ekki af eigin rammleik staðizt þann kostnað, sem af þessu leiðir og hefir þess vegna leyft sér að leita til Alþingis um það, að því verði veittur þessi lítilmótlegi styrkur til lendingarbóta, sem er 8500 kr. Ég sé ekki, að það hafi mikla þýðingu að skýra hv. d. nánar frá aðdraganda þessa máls og fjárhagsástæðum félagsins. Það er eins og aðrir nýgræðingar, sem hafa mætt yfirstandandi kreppu, illa stætt, og þar sem þetta félag skipa eingöngu fátækir sjómenn og daglaunamenn, er því lífsskilyrði að fá þenna styrk.

Ég skal geta þess, að félagið hefir þegar látið byggja bryggjuna, sem kostað hefir nokkuð yfir 14 þús. kr. Bryggjan hefir verið metin af 2 óvilhöllum mönnum, þeim Sigurgeiri Gíslasyni verkstjóra og Ásgeiri byggingarmeistara í Hafnarfirði, á 12800 kr. Jafnvel þó að þetta mat sé lagt til grundvallar, þá er fyrirsjáanlegt, að styrkurinn, sem farið er fram á, nemur ekki hálfu kostnaðarverði þeirra mannvirkja, sem félagið þarf að láta vinna. Ég vona, að hv. d. líti með sanngirni á aðstöðu þessa máls, og sjái sér fært að samþ. till, og í því trausti læt ég lokið máli mínu.