05.08.1931
Efri deild: 21. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 764 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

5. mál, verðtollur

Jón Þorláksson:

Út af fyrirspurn hv. 2. landsk. út af samkomulagi því, sem orðið hefir í stjskrn., vil ég geta þess, að nál. mun verða útbýtt á morgun, og hygg ég, að hann muni geta þolað við þangað til.

Hv. þm. hélt svona af gömlum vana dálítinn fyrirlestur um skattamálin og stefnur þær, sem þar væru ríkjandi, og notaði hann þar venjuleg slagorð, eins og „frjálslyndi“. sem hann hengdi á sjálfan sig til gyllingar, en talaði svo aftur um „íhald“ í sambandi við okkur hina. En sannleikurinn er sá, að Alþýðuflokkurinn vill sýna þeim mönnum einum frjálslyndi í skattamálum, sem eru eyðslumenn, nota peninga sína í óþarfa, eignast aldrei neitt og gera aldrei neitt að gagni í þjóðfélaginu. Þessum mönnum vill Alþýðufl. ívilna með því að láta erlendar óþarfavörur vera skattfrjálsar, þannig að þessir menn geti eytt öllum sínum tekjum í slíkan munað, án þess að ríkissjóður fái af því nokkurn eyri. Svo nær frjálslyndið ekki lengra. Hjá þessum flokki er ekki um neitt frjálslyndi að ræða gagnvart mönnunum, sem skapa verðmætin í landinu, sem eyða ekki því fé, sem þeir fá fyrir vinnu sína, heldur leggja það til hliðar og gera það arðbært. Af þessum mönnum á allt að heimta, og þá er gripið til beinu skattanna. Alþýðufl. sýnir þeim mönnum einum frjálslyndi, sem eyða fé sínu, en vill leggja sem hæstan skatt á þá, sem eiga arðberandi eignir, og það má nærri geta, hvort slíkt getur verið heppileg skattastefna, og þá ekki sízt í þjóðfélagi, sem er að brjótast úr örbirgð áleiðis til bjargálna.

Ég hefi sagt þessum hv. þm. það áður, þótt hann sé nú enn með þetta glamur, að það, að Íslendingar hafa eignazt eitthvað, er fyrst og fremst því að þakka, að þeir hafa ekki fylgt þeirri skattastefnu, sem hlífir eyðsluseggjunum, en leggur hina forsjálli menn á skurðarborðið.

Annars verð ég að segja þessum hv. þm. það, að ég er alltaf tilbúinn að bera saman þessar tvær stefnur, þá aðfluttu óheillastefnu, sem hann gyllir á allan hátt, og hina hollu og heilbrigðu stefnu, sem hér hefir verið ríkjandi, því að hvenær sem ég ræði þessi mál við hann, munu allar hans gyllingar verða að engu, því að frjálslyndi hans nær aðeins til hinna eyðslusömu.