14.08.1931
Neðri deild: 29. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 780 í B-deild Alþingistíðinda. (546)

5. mál, verðtollur

Forsrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Hv. þm. Seyðf. hóf mál sitt á því, sem hann hefir svo oft áður minnzt á, hvenær stj. mundi koma, og hefir hann viljað lofa landsmönnum að heyra þessa fyrirspurn sína. Ég vil leyfa mér að spyrja hv. þm. Seyðf. að því, hvort hann ætli að taka þátt í þessari stjórnarmyndun, — ekki af því, að við séum ekki einfærir um það. Ef hann ætlar sér það ekki, hefir hann ekkert meiri rétt til að vita þetta en aðrir menn. Um það þarf ég svo ekkert frekara að segja.

Hv. jafnaðarmenn hafa óskað eftir, að útvarpað yrði umr. um verðtollinn. Þetta eru fyrstu útvarpsumr., sem fram hafa farið hér í þinginu. Af líkum má ráða, að þeir hafi sérstakar ástæður til að telja það æskilegt fyrir sig að ræða þetta mál í áheyrn allra útvarpshlustenda landsins. Ég fyrir mitt leyti er ánægður yfir að taka þátt í slíkum umr. og tel æskilegt, að þær fari fram, svo að landslýður geti hlustað á umr. um fjárhagsmál og framtíðarmál þjóðarinnar, en í slíkum umr. sem þessum er hægt að koma inn á slíka hluti.

Við umr. um verðtollsfrv. koma fram tvær hliðar. Önnur hliðin er sú, sem hv. þm. Seyðf. gerði að umtalsefni. Af ræðu hans varð það bert, að jafnaðarmenn hafa viljað ræða þetta mál svo að alþjóð heyrði, til þess að fá almenning til að trúa því, að afgreiðsla þessa frv. nú væri prófsteinn á skoðanir flokkanna í skattamálum. Þeir hafa viljað fá tækifæri til að telja sig þá einu réttlátu, sem vildu halda fast með beinum sköttum. Út frá þessu efni og ræðu hv. þm. Seyðf. vil ég benda á nokkur atriði.

Ég vil þá fyrst koma að því, hvort sá tími, sem nú stendur yfir, sé heppilegur til að ganga frá skattamálunum á þeim grundvelli, sem hv. þm. Seyðf. bendir á. Nú er sumarþing, og stj. hefir lýst því yfir, að hún vilji hafa það sem allra stytzt, og það er farið að síga á seinni hluta þess. Geta þá allir séð, hvort þessi tími er heppilegur til að fara að leggja nýjan grundvöll í skattamálunum, þegar svona stendur á.

Þá er annað atriði. Er hér um nýmæli að ræða, sem mundi marka nýja stefnu? Er hér á ferðinni ný stefna, sem landslýðurinn þarf að kynnast til að geta tekið afstöðu til? Nei, þvert á móti. Hér er ekkert nýtt, um enga breytingu að ræða, og er því engin ástæða til að draga almenn atriði um skattamál inn í umr. nú.

Þá er þriðja atriðið. Er hér að ræða um lagasetningu, sem búast mætti við, að landsmenn ættu að búa við um langan aldur? Nei, þvert á móti. Hér er að ræða um framlengingu á gildi laga um eitt einasta ár. Þar af leiðandi vil ég segja það, að allar ályktanir hv. þm. Seyðf. í þessari fyrstu þingræðu, sem hann flytur fyrir útvarpshlustendum, voru út í bláinn og óviðeigandi nú.

Þessi ræða hv. þm. var það, sem kallað er „tekin upp úr súru“, því að hann hefir margsinnis lesið þennan lestur yfir okkur í þinginu, og allt, sem hann sagði í sambandi við þetta mál, var reykur út í loftið. Öll þessi orð, sem eiga að sýna, að jafnaðarmenn séu þeir einu hreinu og réttlátu Farísear, voru sögð út í loftið.

Svo er enn eitt atriði, sem undirstrikar allra greinilegast það, sem ég hefi sagt, og það er ýmislegt í forsögu þessa máls. Það er fróðlegt að minnast á fortíð jafnaðarmanna í þessu máli, þegar þeir eru að kasta steini að framsóknarmönnum og öðrum í sambandi við þessa bráðabirgðaafgreiðslu þessa máls.

Þessi verðtollur var settur á þingi 1928 í þeirri mynd, sem hann hefir nú. Þá stóð svo á, að kosningar. höfðu nýlega farið fram og voru 5 jafnaðarmenn á þingi, 3 þeirra áttu sæti í þessari hv. deild, tveir, sem eiga hér sæti nú, hv. þm. Seyðf. og hv. 3. þm. Reykv., og svo þriðji flokksbróðir þeirra. Í Ed. voru 2, annar er formaður jafnaðarmannaflokksins, sem á sæti þar enn, og svo hv. þáv. fulltrúi Akureyrar. Hver var þá afstaða þessara manna, þegar þá var til umr. þetta mikla stefnumál flokkanna, sem þeir kalla svo? Hvað gerðu þeir, þegar átti að framlengja verðtollinn 1928? Ég skal taka það fram, að þá var farið fram á framlengingu til helmingi lengra tíma en nú, og þar að auki var um að ræða hækkun á tollinum frá því, sem áður var. Ég hefi athugað gaumgæfilega í þingtíðindunum, hver þá var afgreiðsla jafnaðarmanna á þessu frv. Útvarpshlustendum þykir ef til vill undarlegt að heyra, hvernig sú afgreiðsla var, þegar hv. þm. Seyðf. er nú að enda við að fordæma verðtollinn. Afgreiðsla jafnaðarmanna á framlengingunni 1928 var þannig, að enginn þeirra tók til máls, hvorki í þessari deild né Ed. Hv. þm. Seyðf. var þá ungur og óspilltur maður hér í þinginu, óflekkaður af hrossakaupum, jafnmælskur og nú og skörulegur eins og nú. Hvers vegna þagði hann 1928? Var hann að gabba kjósendur sína eins og hann segir, að við höfum gert? Frv. var samþ. í Nd. við 2. umr. mótatkvæðalaust. Við 3. umr. tók ekki heldur neinn til máls á móti frv. Við atkvgr. voru einhverjir þrír á móti. Ég veit ekki, hverjir þeir voru, getur verið, að það hafi verið einhverjir jafnaðarmanna, sem hafa þá til málamynda greitt atkv. á móti, þegar þeir sáu, að málið var komið í höfn, en ekki er að sjá, að þeir væru eindregið á móti verðtollinum, fyrst enginn þeirra talaði eitt orð á móti honum.

Í Ed. var alveg það sama uppi á teningnum. Hvorugur jafnaðarmannanna fann ástæðu til að taka til máls við 2. umr., hvorki formaður flokksins né hans flokksbróðir. Hver einstök grein var þá samþ. mótatkvæðalaust. Frv. var vísað til 3. umr. með 13. shlj. atkv. Í deildinni eru 14 menn, svo að annar jafnaðarmaðurinn a. m. k. hefir hlotið að greiða atkv. með frv. Við 3. umr. var einn á móti frv., og það getur auðvitað verið, að það hafi verið annar jafnaðarmaðurinn.

Það eru ekki nema 3 ár síðan þetta gerðist. Á ég nú að áfellast hv. jafnaðarmenn fyrir þessa afgreiðslu þeirra eins og þeir áfellast sjálfstæðismenn og framsóknarmenn fyrir þeirra afgreiðslu. Ég hefði fulla ástæðu til þess. Alveg eins og hv. þm. sagði, að við hefðum svikið okkar kjósendur, hefði ég ástæðu til að segja, að þeir hefðu svikið sína stefnu. En ég ætla ekki að gera það. Ég ætla ekki heldur að segja, að þeir hafi þarna markað ný spor í skattasögu Alþýðuflokksins í heild. Ég vil ekki halda því fram, af því hér var eingöngu um bráðabirgðaráðstöfun að ræða, og hana samþ. þeir sumpart með þögninni og sumpart með atkv. sínum. Nú er hér aftur um bráðabirgðatill. að ræða. Nú á að framlengja verðtollinn um helmingi styttri tíma en gert var 1928, og nú á í engu að breyta lögunum, eins og gert var þá.

Það þarf ekki að dæma jafnaðarmenn fyrir árásir þeirra á framsóknarmenn. Jafnaðarmenn hafa þar sjálfir dæmt sig. Sannleikurinn er sá, að þeir sviku ekki stefnu sína árið 1928 og mörkuðu engin ný spor í stefnu jafnaðarmanna, af því að þetta var bráðabirgðaráðstöfun. Við framsóknarmenn teljum ekki heldur, að við höfum markað neina nýja stefnu eins og nú stendur á, því að þessi framlenging er bráðabirgðaráðstöfun.

Þá vil ég segja nokkur orð um afstöðuna á okkar landi til skattamála. Úti í heimi eru þessi mál í föstum skorðum og búið að mynda þar skarpar línur. Hér á landi stendur öðruvísi á. Það eru tiltölulega fá ár síðan við fengum sjálfir fjármálastjórnina í okkar hendur. Þess vegna liggja fyrir fjöldamörg óunnin, nauðsynleg verk. Þess vegna er þörf á fjármunum til þess að leysa þau verkefni af hendi. Við verðum þess vegna að neyðast til að taka peninga þar, sem við getum fengið þá. Ég segi því, að framsóknarmenn og jafnaðarmenn þurfi hvorugir að iðrast þessarar bráðabirgðaráðstöfunar, sem gerð var 1928, þegar litið er á, hvað gert hefir verið til að bæta aðstöðu vinnandi fólksins til sjávar og sveita á þessu tímabili.

Þetta er það, sem snýr að þeirri hlið, þar sem talað er um skattamálin almennt í sambandi við afgreiðslu verðtollsins. En ég vil bæta því við í sambandi við jafnaðarmenn, að þar sem þeir greiða atkv. á móti verðtollinum, þá mundu þeir fella hann, ef þeir gætu. Afleiðingin af því yrði sú, að ríkið mundi missa um 3 millj. kr. tekjur. Verið getur, að vegna kreppunnar verði hann minni nú en áður, en það yrði þó alltaf mjög tilfinnanlegur tekjumissir fyrir ríkissjóð. Og það væri alvarlegur hlutur, ef ríkið ætti nú allt í einu að missa slíkan tekjustofn. Það er því mikill ábyrgðarhluti fyrir jafnaðarmenn að bera slíkt fram, því að enginn er eins harður í fjárbeiðnum frá ríkissjóði og þeir, bæði með laun til þeirra manna, sem vinna hjá því opinbera, og eins með framkvæmdir af hálfu þess opinbera. Það kemur því ekki vel heim hjá þeim hvort við annað, að heimta svo mikil fjárframlög frá ríkissjóði og vilja fella niður þennan mikla tekjustofn ríkisins. Það hefði verið annað mál, ef lagt væri til, að stórkostleg verðlækkun yrði á sumum mestu óhófsvörum, sem hingað flytjast, en þær eru tollaðar um 30%, eða í raun og veru meira, því að það er rétt, sem hv. þm. sagði, að það er lagt á tollinn líka. Ef verðtollurinn yrði afnuminn, mundi verðlækkunin vitanlega verða mest á þeim vörum, sem nú eru mest tollaðar, en það er ýmiskonar óþarfavarningur, svo sem flugeldar, gimsteinar, leikföng, loðskinn, silki og silkihattar, skrautfjaðrir, sólhlífar o. s. frv., og þá eru menn beinlínis hvattir til að kaupa þær vörur. Hvílík ráðstöfun í kreppunni að ýta undir það, að þjóðin kaupi slíkan varning.

Þriðja atriðið er það, að kaupsýslumenn vita, að þótt verðtollurinn yrði lagður niður í bili, þá væri ómögulegt að hugsa sér, að slíkar óhófsvörur sem þar eru, væru lengi ótollaðar. Afleiðingin yrði því tvímælalaust sú, að allir þeir kaupmenn, sem hefðu fjármagn eða lánstraust til þess, mundu reyna að draga sem allra mest að sér af þessum óþarfavörum, á meðan þær væru ótollaðar, til að græða á síðar, þegar tollurinn kæmi á aftur og þessar vörur hækkuðu í verði.

Hér væri þess full þörf að gera eitthvað til að draga úr innflutningnum á þessum yfirvofandi fjárkrepputímum. En það, sem hér er um að ræða, ef það væri gert, að fella verðtollinn, er það, að með því væri verið að ýta undir menn, beinlínis ýta undir þá að flytja inn alóþarfar vörur, sem flestir eða allir geta verið án. Það á beinlínis að ýta undir menn að kaupa þessar alóþörfu vörur. Og þetta ætla hv. jafnaðarmenn að gera á þeim tíma; þegar meira og alvarlegra atvinnuleysi steðjar að þjóðinni en nokkurntíma áður, þegar við erum í vandræðum með gjaldeyri fyrir nauðsynlegar erlendar vörur, þegar allar þær vörur, sem við framleiðum, falla svo stórkostlega í verði, að við fáum ekki fyrir þær nema part af því, sem við áður fengum, þegar við auk þess fáum lítið verð fyrir okkar framleiðsluvörur, ekki er hægt að selja nema part af þeim; það lítur t. d. út fyrir, að öll ullin frá þessu ári seljist ekki, og hér liggur mikið óselt í landinu af ull frá fyrra ári, þegar við þess vegna verðum að halda á öllu því fjármagni, sem við fáum erlendis fyrir framleiðsluvörur okkar, til að borga með erlendar nauðsynjavörur, bæði til framleiðslu og neyzlu í landinu og til að standa í skilum með allar greiðslur, sem við eigum að inna af hendi erlendis, þá er af hálfu hv. jafnaðarmanna stofnað til aukins innflutnings á óþarfa vörum, í skjóli snöggra breytinga, með því að fella þær stórkostlega í verði með því að fella niður toll á þeim. Ég lít svo á, að á slíkum tímum ætti að gera það gagnstæða Ég lít svo á, að það ætti að draga úr innflutningnum, búa sem mest að sínu, nota sem mest landsins eigin framleiðslu, en kaupa sem minnst af útlendum varningi að mögulegt er að komast af með. Þetta væru, frá þjóðhagslegu sjónarmiði, ráðstafanir til að auka atvinnu í landinu. En þær aðgerðir, sem hv. þm. Seyðf. mundi stofna til með því að vera á móti verðtollinum, sem sé aukins innflutnings á óþarfavörum, finnst mér vera beint á móti aðalviðfangsefni hv. þm. og hans flokks. Ég vil leyfa mér að minna á, til að kasta ljósi yfir þessa hlið málsins, að í lægra flokki eru tollaðar ýmsar þær vörur, sem framleiddar eru í landinu sjálfu og sem mesta atvinnu veita. Ef verðtollurinn væri afnuminn af þeim, yrði það til að auka á vandræði atvinnuveganna. En það yrði auðvitað til að auka á erfiðleika atvinnuveganna í landinu, að láta þá fá aukna samkeppni utanlands frá, nú á þessum krepputímum. Ég get nefnt sem dæmi kjöt, fisk, smjör og egg, sem á er verðtollur. Þetta er framleiðslan, sem mestan styrk fær frá ríkinu. Og það væri merkileg ákvörðun á þessum tímum að afnema nú toll á þessum vörum. Hv. jafnaðarmenn heimta, og það er óneitanlega æskilegt, að hinn vinnandi lýður fái sem mest að gera. Og svo gera þeir ráðstafanir til beinlínis að veikja aðstöðu framleiðenda, sem skapa atvinnu fyrir hið vinnandi fólk.

Ég hefi nú drepið á þessar tvær hliðar málsins. En nú skal ég leyfa mér að drepa á nokkur atriði til að varpa ljósi yfir fortíð hv. jafnaðarmanna í þessu máli, og um leið drepa á, hvaða afleiðingar yrðu af því að ýmsu leyti, ef þeir gætu komið því fram að fella verðtollinn nú á þessum alvarlegu tímum, og draga það þannig inn í flokkadeilurnar. Mér hefir þótt gott að fá tækifæri til að gera þetta. Mér hefir þótt gott að fá tækifæri til að láta birtu skína yfir aðstöðu hv. jafnaðarmanna til Framsóknarflokksins á fyrri þingum og framkomu þeirra nú hér á hv. Alþ., sem þeir algerlega láta ganga út yfir málin. Mér hefir þótt gott að fá fleiri til að hlusta á sannar fregnir af hv. Alþ., svo það verði ekki rekið ofan í neinn á eftir, hvað hver hafi sagt. En ég fullyrði, að það var mjög óheppilegt fyrir hv. jafnaðarmenn að velja einmitt þetta mál til að auglýsa með afstöðu sína til Framsóknarflokksins. Það var áreiðanlega grunnhyggja af þeim að velja þetta mál, þegar þeir óskuðu að láta allan landslýð til sín heyra héðan af hv. Alþ. Því það er öllum bersýnilegt, svo ljóslega liggur það fyrir, að öll ummæli hv. jafnaðarmanna um verðtollinn, og þá sérstaklega hv. þm. Seyðf. hér í kvöld, öll ummæli hans um skattamálastefnur og lýsingar á skattafrv. við umræður um toll, sem aðeins á að framlengja til bráðabirgða og undir sérstökum kringumstæðum, þetta allt er ekkert annað en hjal frammi fyrir kjósendum til að reyna að veiða þá.

Í öðru lagi vil ég segja það, að um þetta atriði ætla ég ekki að dæma. Hv. jafnaðarmenn dæma sig sjálfir. Við framsóknarmenn förum nú í föt hv. jafnaðarmanna, stígu nú í spor hv. þm. Seyðf., sem árið 1928 tók sinn góða þátt í að samþ. þann sama verðtoll, sem hann nú vill fella. Að niðurfella verðtollinn nú þýðir milljónatap fyrir ríkissjóð. Og það kemur úr hörðustu átt, þegar það kemur frá hv. jafnaðarmönnum, sem gera háværastar kröfur í sambandi við afgreiðslu fjárl. og frv. þeirra, sem þeir bera fram, um fé af ríkissjóði, að niðurfella þennan toll.

Ég vil minna aftur á það stórkostlega verðfall og þann aukna innflutning, sem niðurfelling á verðtollinum af ónauðsynlegum vörum og hinum mestu óhófsvörum mundi valda. Og ég vil minna aftur á þá stóru erfiðleika, sem nú eru á framleiðslu landsins, og að ef hún nú þar að auki á að fara að heyja harðari samkeppni við erlendar vörur, þá mun það draga þann dilk á eftir sér, að það mun draga úr framleiðslunni og um leið auka atvinnukreppuna.

Og þetta er það, sem hv. þm. jafnaðarmanna óska að fá útvarpað. En ég er þeim nú svo velviljaður, bæði vegna þess, að skoðanir okkar fara sumstaðar saman, og svo vegna samvinnu minnar við þá á undanförnum árum, að ég hefði gjarnan óskað, að þeir hefðu fengið sér betra hlutskipti, þegar þeir fóru að velja mál, sem útvarpað skyldi umr. um.

En úr því hv. jafnaðarmenn hafa dregið inn í umr. almennar umr. um afstöðu hinna flokkanna til skattamálalöggjafarinnar í heild sinni, vil ég leyfa mér að bæta þar við nokkrum orðum, og enda um afstöðu hv. jafnaðarmanna líka.

Það mun öllum vera ljóst, sem til þekkja, að á þessu þingi hafa hv. jafnaðarmenn tekið upp ný vinnubrögð. Áður á þingum voru þeir í samvinnu við aðra flokka, bæði um kosningar í þinginu og um ýms mál. Á síðasta kjörtímabili voru þeir þannig í samvinnu við Framsóknarflokkinn. Í þeirri samvinnu komu þeir fram mörgum merkilegum málum, og samfara þeirri samvinnu tóku þá hv. jafnaðarmenn á sig nokkra ábyrgð á meðferð málanna. Nú er þetta stórum breytt. Því er að vísu ekki lokið, að einstaka hv. jafnaðarmaður leiti samvinnu við Framsóknarflokkinn í einstökum málum. En höfuðsvipur þeirrar samvinnu er nú allur annar en áður var. Hitt er miklu almennara, að þeir hrindi frá sér allri samvinnu. Þeir heimta fé og gera alveg takmarkalausar kröfur í því efni, en benda ekki á neina leið til að fá fé til að standast þau útgjöld og vilja ekki neitt samstarf í því efni. Þess vegna greiða þeir nú atkv. á móti fjárl., móti landsreikningi og móti verðtolli, en heimta látlaust meira fé til verklegra framkvæmda. Það vita nú allir, hvers vegna þetta er gert. Hv. jafnaðarmenn álíta, að það sé hyggilegt fyrir flokkinn að haga sér svona, og geta svo komið á eftir til kjósenda og sagt: Við vorum á móti tollinum; það var hinum að kenna, að hann var samþ. Við vildum láta veita milljónir til atvinnubóta; það var hinum að kenna, að það var fellt. Engir erfiðleikar eru okkur að kenna; þeir eru allir hinum að kenna. — Það er ákaflega þægilegt að geta talað svona frammi fyrir kjósendum. En ég efast um, að hv. jafnaðarmenn fái tilætlaðan árangur af þessari framkomu sinni. Ég efast um, að þessi framkoma sé í samræmi við hið vinnandi fólk til sjávar og sveita. Það mun undrast þessar kröfur og ætlast til, að hv. jafnaðarmenn fari öðruvísi að.

Í sambandi við þessa nýju stefnu hv. jafnaðarmanna hér á þingi, vil ég í fyrsta lagi benda á það, að hún er í fullkominni mótsögn við framkomu hv. þm. jafnaðarmanna í atvinnu sinni. Hv. þm. Seyðf. og hv. formaður Alþýðuflokksins stýra hvor sínum banka. Í starfi sínu þar dettur þeim ekki í hug að forða frá atvinnuleysinu með því að ausa fé á báðar hendur í hvern sem vera skal. Þar spyrja þeir fyrst og fremst: Hvað eru tryggingarnar? Þá finna þeir til fullrar ábyrgðar á verkum sínum. Nú, þá stýrir hv. þm. Ísaf. stórum spítala, og er auk þess einn af helztu stjórnendum í stórum bæ; hann er sem sé í bæjarstjórn Ísafjarðarkaupstaðar. Þar lætur ekki hv. þm. stjórnast af ábyrgðarleysi.

Í öðru lagi er þessi nýja stefna hv. þm. jafnaðarmanna í fullkominni mótsögn við fyrri stefnu þeirra. Og hvaða árangur hefir það svo haft fyrir þá að taka upp þessa nýju stefnu, sem er alveg tilefnislaus af hálfu okkur framsóknarmanna? Hjá okkur ríkir sami hugur, sami vilji til samstarfs, sama löngun til að bæta hag smælingjanna til sjávar og sveita eins og á meðan hv. jafnaðarmenn veittu okkur hlutleysi sitt. Ég get í þessu sambandi nefnt nýjustu tíðindin. Í gær eða fyrradag samþ. Framsóknarflokkurinn, að ríkið mætti taka á sig ábyrgð fyrir láni handa sjóði, sem hefir það hlutverk að húsa fyrir fátæka menn hér í Reykjavík. Hér í hv. d. var útbýtt í dag þskj., þar sem ætlazt er til, að gerðar séu ráðstafanir til að létta fólki kreppuna.

Loks er ég viss um það, að vinnandi fólk til sjávar og sveita ætlast ekki til þessarar framkomu af hv. jafnaðarmönnum. Nú er fyrir dyrum meiri kreppa en nokkru sinni áður á þessari öld; það er þegar farið að bera tilfinnanlega á henni í atvinnuvegunum, en þó á hún eftir að herða meira að. Undir þessum kringumstæðum er ég viss um það, að hið vinnandi fólk ætlast til, að nú eigi allir flokkar að sameinast um það að bjarga þjóðinni út úr þessari kreppu, en nú eigi ekki ímyndaðir flokkshagsmunir að ráða atkv. hv. jafnaðarmanna.

Nú verður Framsóknarflokkurinn að leita lags til að knýja hina flokkana til að bæta aðstöðu og kjör fátæklinganna, draga hina flokkana lengst í áttina til að hjálpa fólkinu. Þeir gera það, þó þeir viti, að það kosti þá að taka á sig ábyrgð. Þeir vita það, og fulltrúi hv. jafnaðarmanna, hv. þm. Seyðf., veit það líka, að eigi að fást árangur af slíku samstarfi, verða allir að vera samtaka.

Ég vil að síðustu bera fram þá ósk, að þegar hv. jafnaðarmenn óska að fá útvarpað umr. frá hv. Alþ. næst, þá sé það ekki til að sýna ófrjósama og tilgangslausa togstreitu um mál, sem allir verða að vera sammála um, heldur til að sýna árangur af samstarfi þeirra flokka, sem vilja vel hinu vinnandi fólki í landinu.