22.08.1931
Neðri deild: 36. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 843 í B-deild Alþingistíðinda. (585)

12. mál, ríkisbókhald og endurskoðun

Magnús Guðmundsson:

Ég vil ekki, að þetta frv. verði svo að lögum, að ekki komi fram raddir á móti því, þar sem í frv. eru ýms atriði, sem þurfa frekari athugunar við. Ég skal þá fyrst henda á það, að löggjöf um þetta efni er ekki nauðsynleg. Það hefir stj. sýnt með því, að hún er búin að koma á flestum þeim breyt., sem ráðgerðar eru í frv. (Forseti: Má ég biðja hv. þm. að doka við. (Hringir). — Fundi verður slitið, ef þm. hafa ekki tíma til þess að gegna störfum). Þá er væntanlega óhætt að byrja aftur. Ég vil benda á, að frv. er samfara talsverð útgjaldaaukning. Það verður að bæta við nýjum embættum. þ. á m. nýjum yfirendurskoðanda, og það var tilætlun stj., að hann hefði hærri laun en skrifstofustjórarnir í stjórnarráðinu. En nú er búið að bæta úr þessu þannig, að hann á að hafa sömu laun. Annar maður hefir og verið tekinn, sem hefir 5000–6000 kr. í laun, og ég er ekki í neinum vafa um það, að fleiri þarf að taka, ef leysa á af hendi í stjórnarráðinu alla endurskoðunina. Það er sérstaklega einkennilegt, að engar reglur skuli gefnar um ríkisféhirði í þessu frv. Það eru engar reglur gefnar um það, hvað ríkisféhirðir á að hafa bak við sig. þegar hann borgar úr ríkissjóði. Ég álít, að þegar sett eru lög um ríkisbókhald, þá eigi ekki að sleppa ríkisféhirði. Það er auðséð, að sá maður, sem hefir útbúið frv., hefir verið ókunnugur fyrirkomulaginu og aðeins reikningsfróður og ekki tekið til greina þau atriði, sem viðkoma ríkisféhirði.

Í 4. gr. frv. stendur: „Bækur ríkisbókhaldsins skulu færðar þannig, að samkv. þeim verði saminn, í lok reikningsárs, ríkisreikningur Íslands“. Tilætlunin sýnist því vera, að ríkisreikningurinn sé gerður strax í árslok. En þá er ómögulegt að hafa þá aðferð, sem áður hefir verið höfð og gert er ráð fyrir í frv., að tekjur og gjöld hvers árs séu ein heild og út af fyrir sig. Annars væri vel við eigandi, að í frv. stæði, hvenær landsreikningurinn ætti að vera tilbúinn í síðasta lagi. Ég geri ekki ráð fyrir því, að meiningin sé, þó þetta sé svona klaufalega orðað, að semja reikninginn strax í árslok, þar sem bíða verður til vorsins og sjá, hvaða tekjur og gjöld koma, sem tilheyra árinu. Það hefir viljað brenna við, að landsreikningurinn kæmi nokkuð seint. Það ætti að vera vel kleift að hafa reikninginn tilbúinn 1. sept. ár hvert. En það hefir komið fyrir, að landsreikningurinn hefir ekki verið tilbúinn fyrr en í nóv. eða des. En að fara bókstaflega eftir 4. gr. held ég, að sé ómögulegt.

Þá eru í 4. gr. taldir upp lokakaflar í ríkisreikningi Íslands, og eru þeir 3: rekstrarreikningur sjóðyfirlit og efnahagsreikningur. Þessir reikningar eru allir í reikningnum eins og hann er nú, og þar að auki 4. reikningurinn, sem Alþingi hefir hingað til samþ. Nú vil ég spyrja, hvort nokkur veit um það, hvort þessi reikningur á að falla niður.

Þetta nafn á reikningnum, að kalla hann ríkisreikning Íslands er mjög óviðfelldið. Við erum vissulega ekki að semja l. fyrir Kína eða Japan, og því óþarft að taka það fram, að reikningurinn sé reikningur íslenzka ríkissjóðsins.

Svo er 8. gr. frv.; þar er sagt um endurskoðunina í 2. lið, að hún eigi að gæta þess, „að greiðslur allar og viðskipti séu í samræmi við gildandi lög og reglur og þar að lútandi samninga“, og í 3. lið gr., „að engin útgjöld séu innt af hendi án lagaheimildar, að fjárveitingar séu réttilega notaðar samkv. fyrirmælum, og að útgjöld, tekjur og aðrir liðir viðskiptanna séu bókfærðir á réttan hátt“, og síðan er sagt í 13. gr., að yfirskoðunarmenn landsreikningsins eigi að sjá um þetta. Þetta er orðað þannig, að ómögulegt er að sjá annað en að yfirskoðunarmennirnir eigi fyrirfram að sjá um, að engin útgjöld séu innt af höndum, sem ekki eiga sér stað í l. Þetta er allt öðruvísi orðað í frv. en í 39. gr. stjskr. Ef þetta er samþ. svona, þá sé ég ekki betur en að yfirskoðunarmennirnir eigi blátt áfram að vera yfirfjármálaráðherrar. Og ég hygg, að engin stj. geti lagt sig undir slíkt. Þess hefir aldrei verið krafizt, að yfirskoðunarmennirnir sæju um, að engar greiðslur færu fram, sem ekki ættu sér stað í l. Þeir hafa aðeins átt að segja um það eftir á, hvort allar greiðslur væru l. samkvæmt.

Svo er yfirskoðunarmönnunum heimilað í frv. að fela fjmrn. að annast þann hluta af endurskoðunarstarfinu, sem um ræðir í 1. tölul. og niðurlagi 3. tölul. 8. gr. laga þessara. M. ö. o. eiga yfirskoðunarmennirnir að fela fjmrn. að sjá um, „að reikningarnir séu tölulega réttir og rétt samdir samkv. bókhaldsreglum, og að allir tekju- og gjaldaliðir séu sannaðir með viðeigandi fylgiskjölum“, og ennfremur, „að útgjöld, tekjur og aðrir liðir viðskiptanna séu bókfærðir á réttan hátt“. Hér er þá gengið út frá því, að yfirskoðunarmennirnir hafi víðtækari skyldu en nú er. Endurskoðunin á sem sé öll að hvíla á þeim, og sú umboðslega endurskoðun er ekkert annað en undirtylla þeirra, ef yfirskoðunarmennirnir eiga að hafa þetta vald. Það er auðséð, að hér er byggt á skökkum grundvelli.

Svo er „ákvæði um stundarsakir o. fl.“. Þar stendur: „Ríkisreikninga Íslands fyrir 1930 skal semja samkv. l. þessum, að svo miklu leyti sem unnt er, enda þótt þeir verði ekki í fullu samræmi við fjárl. fyrir það ár“. Ég veit ekki, hverskonar yfirlit fæst, ef ekki á að fylgja ákvæðum fjárl. eins og gert er ráð fyrir í frv. að öðru leyti. Svo er sagt, að það eigi að bera hann saman við önnur ár, en ekki tiltekið, hvaða ár það eru. En þetta er vitaskuld ekki ákvæði, sem ég legg mikið upp úr, samanborið við önnur ákvæði, en eigi að fylgja því, mun það kosta það, að gera þarf 2 reikninga að mestu,eða öllu leyti.

Þá var í aths. við þetta frv. eins og það lá fyrir þinginu í vetur, bent á það, að ósamræmi hefði verið milli færslu tekna af sima í landsreikningnum 1929 og reikningum símans. En þetta er ekki rétt. Í landsreikningnum 1929 er tilfært nákvæmlega, hvaða tekjur hafi orðið af síma, og sundurliðað þannig, að fyrst eru taldar eftirstöðvar frá fyrra ári, þá tekjur tilfallnar á árinu, síðan hvað greiðzt hafði á árinu og loks eftirstöðvar til næsta árs. Landsreikningurinn hefir þannig inni að halda allar þær upplýsingar, sem hægt er að krefjast.

Þá hefir það verið fundið að landsreikningnum 1929, að hann hafi ekki talið allar tekjur ársins 1929 sem innkomnar tekjur. Þetta er rétt, að svona var reikningurinn útbúinn, en það er kostur á honum, en ekki löstur, því að það væri mjög óvarlegt og líka rangt að telja það greitt, sem ekki er greitt, en með núv. fyrirkomulagi er hægt að sjá, hvaða tekjur hafi raunverulega komið inn á hverju ári, og hvað hefir átt að koma inn.

Ég býst við, að þetta frv. verði samþ. hér eins og annað, sem hæstv. stj. vill vera láta, en ég vildi ekki láta hjá líða að benda á stærstu galla þess. Ég álít, að hæstv. fjmrh. gerði vel í því að fresta þessu máli til næsta þings og athuga það vel. Ég efast um, að hann hafi sett sig svo vel inn í einstök atriði þess, að hann geti svarað fyrir það. Um leið og ég lýk máli mínu, langar mig til þess að spyrja hæstv. fjmrh., hvernig hann hafi hugsað sér að fara með 8. gr. þessa frv., og þá sérstaklega 3, lið 8. gr.