28.07.1931
Neðri deild: 14. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 131 í B-deild Alþingistíðinda. (73)

1. mál, fjárlög 1932

Steingrímur Steinþórsson [óyfirl.]:

Það er fullt útlit fyrir, að sumum hv. þdm. sé orðin þörf á eldhúsdegi og því líklega ekki rétt að kynda að þeim glóðum nú, þar sem sennilega gefst tækifæri til þess síðar.

Þau fáu orð, sem ég mun segja að þessu sinni, eru út af einni till. á þskj. 118, frá þeim hv. þm. Vestm. og hv. 2. þm. Reykv.

Ég vil fyrst benda á það, að fleiri till. hafa komið fram um þetta mál, þótt þær séu ekki við fjárlögin, sem hér eru nú til umr., og þær hafa meira að segja komið fram löngu á undan þessum, sem nú eru hér fram komnar. Það lágu fyrir till. frá mér og hv. þm. Dal. um sérstakan tekju- og eignarskatt til atvinnubóta. Ég vildi aðeins minna á þetta, og ég veit, að hv. þdm. eru kunnugt, að hér er ekki um neina nýjung að ræða, þótt þessi till. komi fram um það að verja þurfi fé til atvinnubóta, en nú er aðeins um það að velja, hvor leiðin, sú, sem við hv. þm. Dal. og ég bendum á, eða flm. hinnar till., sé heppilegri. Ég býst við því, að veitast muni tóm til þess að ræða frv. okkar hv. þm. Dal., þegar það kemur til 2. umr., og ég ætla því ekki sérstaklega að gera það að umr.efni að sinni. Mér virðist það dálítið einkennilegt, að hv. þm. Vestm. skyldi leggja svo mikla áherzlu á það andvaraleysi, sem lýsti sér hjá stjórnarliðinu hér í d., sem hann svo nefndi, um þetta mikilvæga atriði. En mér virðist nú í raun og veru, að meira andvaraleysi lýsi sér í því hjá hv. flm. að bera fram jafnmikla upphæð og farið er fram á í frv. þeirra, eða um ½ millj. kr., án þess að líkur séu fyrir því, að fjárhagur ríkisins á næsta ári þoli þau útgjöld. Það kalla ég andvaraleysi að bera fram slíkar kröfur, þar sem ekki er á neinn hátt reynt að fá tekjur til þess að greiða þetta. Þetta vildi ég henda á, og ég vona, að margir hv. þdm. hafi þá ábyrgðartilfinningu, að þeir álíti, að fara verði eitthvað svipað að og við hv. þm. Dal. höfum stefnt að. Við erum fúsir til þess að koma á móti þeim, sem vilja leggja meira fé til þessa. Ég get bent á, að hægt er að fara aðrar leiðir til atvinnubóta; t. d. er í raun og veru vel tiltækilegt og í samræmi við þau mál, sem hér hafa verið til umr., að fá fé inn til framkvæmdanna með því að leggja skatt á „lúxus“-íbúðir. Við, sem úti á landinu búum, erum því vel kunnugir, hve allur almenningur á við ill húsakynni að búa, og við sjáum líka hér í Reykjavík heilar hallir, þar sem aðeins ein fjölskylda á heima, og það eru þeir, sem í þessum húsum búa, sem hljóta að geta þrengt að sér og látið fleiri fá húsrúm, eða að þeir verða að greiða fé fyrir að geta notið þeirra þæginda, sem slík húsakynni veita. Ég skal glaður styðja till. frá hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm. um hækkun á till. okkar hv. þm. Dal. með einhverri slíkri ráðstöfun. Ég bendi aðeins á þetta til þess að sýna, að hægt er að fara ýmsar leiðir í þessu máli, en það er ábyrgðarleysi að fleygja fram slíkum till. sem till. hv. 2. þm. Reykv. og hv. þm. Vestm., án þess að koma með tekjur á móti þeim gjöldum, sem þær hafa í för með sér. Ég sagði það áðan, að ég ætlaði ekki að fara í eldhúsið, en ég get þó ekki annað en drepið á það, sem hv. þm. Vestm. talaði um það, að stj. hefði látið millj. hverfa á undanförnum árum. Hv. þm. lét sér sæma að kasta þessu fram án þess að gera frekari grein fyrir því, á hvern hátt milljónirnar hefðu horfið. Hv. þm. gat aðeins um smálið, þar sem illa hefði verið varið fé, en ekki gat þar nú verið um milljónir að ræða. Ef hann á við féð til landbúnaðarins, þá er það sama hugmyndin sem þar kemur fram og komið hefir fram í dagblöðum Reykjavíkur, að landbúnaðurinn sé fyrirtæki, sem ekki eigi að leggja fé i, sökum þess, að það borgi sig alls ekki. En það er einkennilegt, að fulltrúar sjávarútvegsins í þessari d. skuli geta verið að tala um varhygðarleysi, því að hjá þeim kemst ábyrgðarleysið í fjármálum á hæsta stig, og allir vita, að það er sá atvinnuvegur, sem þeir eru fulltrúar fyrir, sem þjóðin hefir stunið undir fjárútlátum til nú hin síðustu árin.

Þá sagði hv. þm. Vestm., að jarðræktarstyrkurinn væri einskonar atvinnuleysisstyrkur, sem bændum væri veittur. Ég vil algerlega mótmæla þessu. Jarðræktarstyrkurinn er að öllu leyti réttmætur vegna þess, að þegar farið var að verja fé til atvinnurekstrar, þá tókst svo slysalega til, að einungis var varið til sjávarútvegsins, en landbúnaðurinn fékk ekkert, og að lokum, þegar vaknaður er skilningur hjá þjóð og þingi fyrir þörf landbúnaðarins, þá er orðið svo mikið bil á milli þessara tveggja atvinnuvega, að ekki verður hjá því komizt að verja sérstaklega fé til landbúnaðarins, og á þann hátt ber að líta á jarðræktarstyrkinn. Mér þykir undarlega við bregða, ef bændur þeir, sem telja sig til flokks hv. þm. Vestm., rísa ekki upp og mótmæla annari eins firru og þessari, sem hann hélt fram.

Ég sé svo ekki ástæðu til þess að tala meira um þetta að sinni, en vil endurtaka það, að þessi till. hv. þm. Vestm. og hv. 2. þm. Reykv. fer ekki fram á nein bjargráð, hún er firra, sem kastað er fram án athugunar.