22.07.1931
Neðri deild: 7. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 881 í B-deild Alþingistíðinda. (753)

45. mál, útflutningur á nýjum fisk

Flm. (Haraldur Guðmundsson) [óyfirl.]:

Þetta frv. er í öllum höfuðatriðum shlj. frv. því, sem ég flutti á síðasta þingi um heimild fyrir ríkisstj. til að styðja að útflutningi á nýjum fiski. Það var þá rætt hér í þessari hv. d. í fulla 3 daga, svo að ekki er ástæða að þessu sinni til þess að hafa um það mörg orð.

Þær einu breyt., sem gerðar eru ú frv. frá síðasta þingi, eru tvær, er nú skal greina.

Þá var gert ráð fyrir, að flutningsgjald yrði ákveðið þannig, að kostnaðinum skyldi jafnað niður á hvern farm fyrir sig, en í þessu frv., að Skipaútgerð ríkisins ákveði, í samráði við stjórnir fiskútflutningsfélaganna, flutningagjaldskrá fyrir fiskinn. Ennfremur er í 5. gr. gert ráð fyrir, að ríkisstj. sé heimilað að verja 200 þús. kr. á þessu yfirstandandi ári til þess að lána félögum bátaútvegsmanna til kaupa á veiðarfærum og fiskumbúðum.

Ég hefi rætt við framkvæmdastjóra ríkisskipanna um, hvað hann áliti, að hægt sé að fá skip fyrir mikið. Hann hefir fengið allmörg tilboð, og held ég, að flest þeirra hljóði upp á 7500–8000 kr. á mánuði fyrir skip með fullri áhöfn, er geti flutt 300–350 tonn. Telur hann, að allur kostnaður þyrfti ekki að vera meiri en ca. 12000 kr., og megi reikna með 2½ ferð á mánuði.

Eins og frv. ber með sér, er hér aðeins um að ræða heimildarlög. Heimildarlög þykja stundum gefast nokkuð misjafnlega. En nú vildi ég spyrja hæstv. forsrh., hvort hann myndi nota þessa heimild, ef frv. næði afgreiðslu.

Ég vil svo mælast til, að þessu máli verði vísað til hv. sjútvn., sem hafði það til meðferðar í vetur.