03.08.1931
Efri deild: 19. fundur, 44. löggjafarþing.
Sjá dálk 919 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

125. mál, fasteignamat

Einar Árnason:

Ég skal fúslega verða við þeirri ósk hv. l. landsk. að skýra frá því, hvað fyrir mér vakti með að flytja þetta frv. Orðalag frv. er að mestu shlj. því orðalagi, er var á l., sem sett voru í þessu efni. þegar síðasta yfirmat fór fram. Fannst mér rétt að halda orðalaginu, þó að ég hinsvegar byggist varla við því, að n. yrði ætlað annað verkefni en að samræma jarðeignamatið í sýslum landsins. Til þess að endurskoða matið í kaupstöðunum þyrfti sérstaka n., en ég sé enga ástæðu til, að það yrði gert, og vildi auk þess ekki heldur leggja út í þann kostnað, sem af því mundi leiða. Það er og víst, að eins og tíminn nú er hlaupinn frá okkur, verður ekki hægt að framkvæma slíka yfirskoðun nema að því, er snýr sérstaklega að jarðeignum landsins, og geri ég ráð fyrir, að lagt verði fyrir n. að vinna aðallega á þessu sviði. Það er nauðsynlegt, að þessi n. ljúki störfum sínum sem allra fyrst, svo að hægt verði að nota hið nýja mat þegar á næsta ári. Verður n. því að hafa lokið störfum sínum ekki síðar en í nóvember næstkomandi. — Ég vænti þess, að hv. 1. landsk. geti látið sér þessar skýringar nægja að því er snertir störf þessarar væntanlegu yfirmatsnefndar.