24.02.1932
Neðri deild: 9. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1376 í B-deild Alþingistíðinda. (1069)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Flm. (Vilmundur Jónsson):

Ég ætla, að ég hafi gert næga grein fyrir nauðsyn þessa frv. í grg. þeirri, sem því fylgir, og get því verið fáorður, er ég fylgi því nú úr hlaði, þó að hér sé ekki um stjfrv. að ræða, er það flutt með stj. vitund, og geri ég ráð fyrir, að hún fallist á það í öllum höfuðatriðum. Það skipulag, sem frv. gerir ráð fyrir, er raunar þegar komið á, og hefir stj. viðurkennt það með fjárlagafrv. því, sem hún hefir lagt fyrir þingið. Þar er ljósmæðraskólinn sem sé strikaður út á sínum stað, en færður yfir á landsspítalann og honum aftur ætlaðar 4000 kr. til þess að halda þeirri kennslu uppi, er frv. ræðir um. Sú upphæð er þó 1000 kr. lægri en lagt er til í þessu frv., að ríkið leggi til skólans. Að vísu er þetta áætlunarupphæð og skiptir litlu máli, hvort hún er höfð þúsundinu hærri eða lægri. Ríkið verður að borga þann kostnað, sem af skólahaldinu leiðir, annaðhvort beinlínis eða óbeinlínis, sem aukinn rekstrarhalla spítalans. Og er vikið að þessu í grg. frv.

Annars vil ég benda á, að hæstv. stj. hefir við samningu fjárlagafrv. gleymt að taka upp námsstyrk til ljósmæðranna. Undanfarið hefir ljósmæðranemendum ávallt verið veittur nokkur styrkur, eða sem svarað hefir fæðispeningum yfir námstímann, og held ég, að hann hafi numið upp á síðkastið 60 kr. á mánuði. Með frv. þessu er ætlazt til, að námstíminn verði lengdur allverulega, og má því styrkur þessi hvorki falla niður né lækka. Nú á tímum þarf að fá það fólk í þessi störf, sem gera verður miklar kröfur til. Þar sem ekki er fyrir miklum launum að gangast að loknu námi, má ekki minna vera en námskjörin séu fremur aðlaðandi. Þess vegna vil ég beina því til hv. fjvn., að hún taki til athugunar, að þennan styrk má með engu móti fella niður, heldur verður að hækka hann í hlutfalli við lengingu námstímans.

Fleira þykist ég ekki þurfa á taka fram, en vona, að frv. fái að ganga til 2. umr., og geri að till. minni, að því verði vísað til hv. allshn.