18.04.1932
Neðri deild: 54. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 387 í B-deild Alþingistíðinda. (107)

1. mál, fjárlög 1933

Bjarni Ásgeirsson:

Ég á hér nokkrar brtt., ýmist einn eð á með öðrum. Sú fyrsta er á þskj. 418,XVII, um 1000 kr. styrk til Ágústs Sigurðssonar frá Lundi til háskólanáms í Norðurlandamálum. Hann hefir lesið við háskólann í Kaupmannahöfn undanfarin 3–4 ár og lagt aðaláherzluna á dönsku og sænsku. Hann hefir sótt um styrk áður bæði til þingsins og menntamálaráðsins, en aldrei fengið neina aðstoð, og hefir því sérstaklega verið borið við, að hann læsi dönsku og gamla orðtakið segir, að auðlærð sé ill danska. En það vill nú svo til, að hér á landi er ekki nokkur maður, sem hefir vísindalega menntun í nútíma Norðurlandamálum, og væri þess þó full þörf, að einum slíkum manni væri hér á að skipa, því að svo margt þurfum við til þessara þjóða að sækja. Þessi piltur hefir brotizt áfram styrklaus af hinu opinbera. Hann missti föður sinn núna í vetur, Sigurð Jónsson prófast á Lundi. Hann verður því að hætta við nám sitt, ef hann verður ekki þessa styrks aðnjótandi.

Þá eigum við hv. þm. Borgf. brtt. á þskj. 418, XXXIII Það er nýr liður, til Búnaðarbanka Íslands til greiðslu upp í viðlagasjóðslán mjólkurfélagsins Mjallar, 12 þús. kr.

Við bárum fram við 2. umr. samskonar brtt. nokkuð hærri, en hún var þá felld. Hv. frsm. síðari kafla fjárl. (IngB) andmælti þessari brtt. mikið við þá umr. Ég svaraði honum ekki þá, en mun gera það nú. Hann sagði, að saga þessa fyrirtækis væri óslitin hrakfallasaga. Ég skal játa, að margir örðugleikar hafa orðið fyrir þessu fyrirtæki, eins og fyrir flestum nýjum iðnaðarfyrirtækjum, sem við Íslendingar höfum tekið upp. Það er ekkert undarlegt, við erum börn í þessum málum ennþá og verðum að þreifa okkur áfram. Það er eðlilegt, að þeim, sem eru að byrja á þessu sviði, verði ýmislegt á, sem menn komast fram hjá, þar sem meiri reynsla er fyrir. Þess ber líka að gæta, að þetta fyrirtæki var stofnað á mjög erfiðum tímum, mestu verðsveiflutímunum. En þó að það sé rétt, að sumt af því, sem miður hefir farið, sé sjálfskaparvíti, þá vil ég segja það, að þeir, sem hófu þetta nýja starf með góðum hug, til þess að styðja íslenzka framleiðslu, hafa fengið fullkomna hefnd fyrir það, sem þeim kann að hafa orðið miður um þetta starf, þar sem þeir eru búnir að tapa öllu, sem þeir lögðu í það. Þeir eru búnir að tapa öllum höfuðstól fyrirtækisins, að upphæð 60 þús. kr., og auk þess vöxtum af höfuðstónum, fyrir utan alla fyrirhöfn, sem þeir hafa haft og ekkert fengið fyrir. Auk þess er mikið ógreitt af mjólkurverði til bændanna í héraðinu, sem sömuleiðis er tapað fé, og skiptir þúsundum. Það er ekki hægt annað að segja en að þessir menn hafi þegar lagt fyllilega sinn skerf til þess að ryðja þessu nauðsynjafyrirtæki braut. Það sýnist því koma úr hörðustu átt, ef Alþingi neitar að gera sitt til að rétta þessum mönnum hjálparhönd. Eins og ég tók fram við 2. umr. þessa máls, þá er það svo, jafnvel þótt ríkissjóður veitti þennan styrk, að þá fengi þetta bú mikið lægri styrk hlutfallslega heldur en nokkurt annað mjólkurbú, sem stofnað hefir verið á síðustu árum og notið hefir opinbers styrks. Ég ætla því að treysta því, að hv. þd. sýni þá víðsýni og sanngirni að vilja létta þessu félagi þær byrðar, sem það hefir orðið á sig að leggja við að koma á laggir þessu nauðsynjafyrirtæki. það er enginn vafi á því að ef félagið hefði ekki ráðizt í þessa starfsemi, þá hefði hún engin verið til nú og því engin reynsla verið til fyrir hendi í þessu nauðsynjamáli. Hinsvegar er það víst, að ef fyrirtækið réttir við nú, þá væri það landinu ávinningur, sem væri margfalt meira virði heldur en sá styrkur, sem hér er farið fram á, að veittur verði, og það margfalt, margfalt meira virði.

Þá á ég hér ásamt hv. þm. Borgf. brtt. XL þskj. 418,um tvær smáar styrkveitingar til tveggja pósta. Annar þeirra er Jón Jónsson á Galtarholti. Hann hefir nú verið póstur í 26 ár milli Borgarness og Staðar, sem, eins og kunnugt er, er ein af erfiðustu póstleiðum þessa lands, enda hefir Jón oft átt við erfiðleika að stríða í því starfi og lent í miklum hrakningum, svo að oft hefir litlu munað um lif hans. Nú hefir aðstaðan breyzt svo frá hálfu hins opinbera, að þessi atvinna er nú eyðilögð fyrir honum að mestu; þessi atvinna, sem hann er lengi búinn að slita sér fyrir, hún er a. m. k. töpuð yfir sumartímann. Hann hefir lagt í mikinn kostnað bæði með hestaeign o. fl., til þess að geta stundað þessa atvinnu, en sá kostnaður verður honum nú að sjálfsögðu til mikils skaða, þar sem hann hefir ekkert í aðra hönd. Hann hefir nú sótt um 1000–1500 kr. eftirlaun, og af því að við hv. þm. Borgf. teljum, að hann hafi ekki síður en þeir aðrir póstar, er njóta nú eftirlauna í fjárlögum, aðstöðu til þess að eiga rétt til slíkra eftirlauna, þá höfum við nú flutt þessa brtt., hott við hinsvegar vildum ekki fara hærra en í 300 kr., og ég verð að fullyrða það, að sú styrkbeiðni er ekki síður sanngjörn en þau eftirlaun pósta, sem í fjárl. eru. Hinn pósturinn, sem við hv. þm. Borgf. sækjum um 200 kr. eftirlaun handa, er Guðjón Kjartansson. Hann hefir að vísu ekki verið eins lengi póstur og hinn, en á það er sérstaklega að líta, að hann varð fyrir miklum meiðslum við þetta starf, datt af hestbaki og laskaðist svo í hægri síðunni, að hann er að mestu leyti farlama síðan. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa mörg orð um þessar brtt.; ég treysti því, að hv. d. sjái, að þær eru á sanngirni byggðar og þessir póstar eiga ekki síður en aðrir rétt til hluta af því fé, sem varið verður til eftirlauna handa póstunum.

Þá eigum við hv. þm. Borgf. brtt. á þskj. 418,LIII, við 22. gr. frv., um að stj. heimilist „að veita styrk í eitt skipti fyrir öll til þess að koma á stofn mjólkurbúum til osta- og smjörgerðar og mjólkurniðursuðu. Styrkurinn nemi allt að 1/4 kostnaðar og sé því aðeins greiddur, það fyrirtækið sé fullbúið til starfrækslu“. Þessi styrkur er í samræmi við samskonar styrki, sem veittir hafa verið í fjárlögum undanfarið til þeirra 4 mjólkurbúa, er stofnuð hafa verið, sem eru: Mjólkursamjag Eyfirðinga, Mjólkurbú Flóamanna, Mjólkurbú Ölfusinga og Mjólkurfélag Reykjavíkur. Þessi bú hafa öll hlotið slíka styrki og hér er farið fram á og miklu hærri. Nú hefir þessi heimild fallið niður úr frv., en vegna þess, að það Mjólkurbú, sem áður hefir starfað í Borgarfirðinum, hefir lítils styrks notið samanborið við þau mjólkurbú, er nefnd hafa verið, þá höfum við hv. þm. Borgf. með góðu samkomulagi við hæstv. stj. borið fram þessa brtt. Ég tel það víst, að hv. d. sjái, að þessi till. er í samræmi við samskonar ákvæði í fjárl. undanfarið um styrk til stofnunar mjólkurbúa.

Þá á ég enn brtt. á sama þskj., XLIX, við sömu gr., um að stj. heimilist „að lána Eiríki Leifssyni allt að 20 þús. kr. eða ábyrgjast fyrir hann lán allt að jafnhárri upphæð, til starfrækslu innlendrar skógerðar, gegn þeirri tryggingu, er stj. metur gilda“. Þessi ungi maður hefir sýnt mikinn dugnað og áhuga með því að hefja skógerð af innlendri framleiðslu, og hér er að ræða um innlenda sjálfbjargarviðleitni, sem ekki siður en annað af sama tagi á það skilið, að því sé gaumur gefinn. Hann hefir sýnt, að ráð er hægt að búa til úr íslenzku skinni svo að segja allar þær skótegundir, bæði grófar og fínar, sem notaðar eru hér á landi, með þeim tækjum, sem erlendis eru notuð, og hvað verð og gæði snertir samkeppnisfæra vöru við hið erlenda skótau, sem nú er flutt inn í landið. En nú lítur út fyrir, að fyrirtæki hans ætli að stranda á samskonar erfiðleikum og mörg önnur fyrirtæki nú á tímum, sem sé skorti á veltufé. Nú hefir þessi maður gert tilraun með að gera skó úr selskinni og selja til Englands og með þeim árangri, að eftirspurnin hefir orðið svo mikil, að hann hefir engin ráð haft með að sinna henni sökum veltufjárskorts. Er enginn vafi á því, að öll okkar selskinn gætu á þennan hátt fengið markað í Englandi og Danmörku. Ég verð nú að segja það, að ef þetta fyrirtæki á ekki skilið stuðning Alþingis, þá veit ég ekki, hver fyrirtæki eiga hann skilið. Þó hinn útlendi markaður fyrir okkar hrávöru sé alltaf jafnt og þétt að rýrna og eyðileggjast, svo að það svarar nú alls ekki kostnaði lengur að berjast við að framleiða margar tegundir hennar, þá sýnist Alþingi engu að síður loka augunum fyrir þeim möguleikum, sem eru til þess að nota þessa vöru handa inniendum markaði með því að stuðla til þess, að hinar mörgu auðu hendur vinni að því að gera hana nothæfa. Hv. þm. sýnast hafa raunalega lítinn skilning á því, að hinu opinbera sé skylt að veita sína beztu aðstoð í þeim efnum. Það hefir verið reynt í þessari hv. d. með frv., sem stuðlaði að því að auka innlenda framleiðslu á kartöflum, til þess að fullnægja innlendum markaði, en d. kom því frv. fyrir. Og sömuleiðis hefir hv. Ed. nýlega látið sér sæma að drepa annað frv. um kartöflukjallara og markaðsskála í Reykjavík, sem hefði haft áhrif í sömu átt. Sama má segja um undirtektir þingsins við ýmis önnur skyld mál, er fyrir það hafa verið lögð. En ég verð að segja það, að svo framarlega, sem allt á ekki að fljóta sofandi að feigðarósi, þá verður á þessu þingi, þótt seint sé, að gera alvarlegar ráðstafanir til þess að tryggja innlendri framleiðslu þann markað, sem fáanlegur er í landinu sjálfu. Skógerð Eiríks Leifssonar er álitlegt spor í rétta átt með því að framleiða þá vöru, sem aður hefir verið sótt til útlanda, og með því að skapa atvinnu í landinu sjálfu.

Að síðustu skal ég geta till., er við hv. þm. Borgf. flytjum á þskj. 440,5, um heimild fyrir hæstv. ríkisstj. til þess að taka kjallara á leigu til geymslu á kartöflum. Þetta er flutt af því, að hv. Ed. bar víst hag ríkissjóðs svo fyrir brjósti, að hún sá sér ekki fært að samþ. frv. um þetta efni, eins og áður er getið, þrátt fyrir einróma meðmæli búnaðarþings og samþykki þessarar hv. d., og sömuleiðis þrátt fyrir það, þótt í frv. væri bráðabirgðaákvæði einmitt um það að leysa þetta mál í bili með því að leigja húsrúm fyrir þessa geymslu. En úr því að hv. Ed. hefir nú drepið frv. með rökst. dagskrá, þá höfum við tekið þetta ráð, til þess að reyna að bjarga málinu, að bera fram heimild í fjárlögum, til þess að verja nokkru fé í þessu skyni. Og það er sannfæring mín, að þótt þetta kosti ríkissjóð nokkur þúsund í útborgun, þá mun það borgast með tugum og hundruðum þúsunda á spöruðum greiðslum út úr landinu. Og það er sannarlega að spara eyrinn og kasta krónunni að sjá í það, að leggja úr ríkissjóði litla upphæð til þessara hluta. Hv. Nd. hefir sýnt skilning í þessu máli, og býst ég við, að hún samþykki því þessa till., svo að hv. Ed. fái tækifæri til þess að hafa heiðurinn af því að fella þetta mál með sínum þráa í annað sinn, sem bæði búnaðarþing og þessi hv. d. hafa veitt fylgi, og vitanlegt er að meiri hl. þingsins er meðmæltur.

Ég á nokkrar fleiri brtt. við þetta frv., sem ég hefi flutt ásamt öðrum hv. þm., en þar sem þeir hafa nú talað fyrir þeim, læt ég hér staðar numið.