08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1385 í B-deild Alþingistíðinda. (1086)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Pétur Ottesen:

Það var talsvert um það rætt við 2. umr. þessa máls hér í d., að eðlilegast væri, þar sem skóli þessi á að vera í sambandi við landsspítalann, að yfirlæknarnir hefðu kennsluna ókeypis á hendi, þar sem líka tveir þeirra eru á tvöföldum launum fyrir, hafa a. m. k. 14 þús. kr. hvor í árslaun. Þetta álit kom líka greinilega fram hjá n., sem frv. hafði til meðferðar, en sökum þess, að ekkert er tekið fram um kennslu þessa í ráðningarsamningi þeirra, þá þótti henni þó viðurhlutamikið að leggja þeim þessa skyldu á herðar án sérstaks endurgjalds, en taldi alveg sjálfsagt að gera það, ef ekkert sérstakt væri því til fyrirstöðu.

Ég hefi nú þrátt fyrir það, þó svo kunni að vera hagað samningum við læknana, að það sé ekki sérstaklega tekið fram, að þessi kennsla sé hluti af starfi þeirra, borið fram brtt. á þskj. 119, sem beinlínis ákveður þetta, því að ég geng út frá því sem sjálfsögðu, að svo fremi sem heilbrigðisstj. fer fram á það við þessa lækna, sem svo vel er að búið, þá skorist þeir ekki undan að hafa kennslu þessa hendi án sérstakrar aukaþóknunar.

Brtt. mín við 1. gr. frv. hljóðar svo: „og skal yfirlæknum spítalans skylt að annast kennsluna án sérstakrar aukaþóknunar, eftir nánari ákvæðum heilbrigðisstj.“. Með niðurlagi hennar á ég við það, að heilbrigðisstj. geti kveðið á um, hvernig kennslunni skuli skipt á milli læknanna.

Brtt. mín við 7. gr. fer aftur fram á, að 5. liður gr., sem ræðir um þóknun til kennaranna, falli niður, og ég held, að hún raski ekki að öðru leyti neinu um gerð frv.

Ég vænti nú, að hv. dm. samþ. brtt. þessar, m. a. með till. til þess, að nú sé a. m. k. kominn tími til þess að taka til athugunar, hvort ríkið eigi ekki að hafa óskerta starfskrafta hinna hæstlaunuðu embættismanna sinna, ekki síður en annara, og þurfi því ekki að greiða þeim sérstaklega fyrir nær hvað eina, sem þeir gera.