08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1388 í B-deild Alþingistíðinda. (1089)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Lárus Helgason:

Mér kom það ekkert á óvart, þó að brtt. mín sætti andmælum frá hv. þm. Ísaf. En mér kom það á óvart, að hér myndi vera um afturför eða lakari kennslu að ræða, þá gat hv. þm. þess, að engin sveit myndi vilja fá stúlku fyrir ljósmóður, sem ekki hefði stundað námið nema 9 mán. Kæmi því aldrei til, að um undanþágu þessa yrði sótt. Ég tel þetta hina mestu fjárstæðu. Hingað til hefir þótt nægilegt, að ljósmæðraefni væru 9 mánuði við námið, og venjulega gengið vel. Við þetta miða ég brtt. mína. Og ég ber það traust til landlæknis, hver sem hann er, að hann verði við ósk viðkomandi héraðsstjórna um að nota þessa heimild, þegar rökstuddar ástæður mæla með því og um efnilegar stúlkur er að ræða. Ég tel það illt, ef kennslu á ljósmæðraskólanum verður hagað svo, að ekki sé hægt að koma því við að veita þessa undanþágu. Get ég ekki séð, að það sé nauðsynlegt að haga kennslunni svo. Hygg ég, að með því að ákveða námstímann heilt ár sé frekar verið að bera hag spítalans fyrir brjósti heldur en það, að efnilegar stúlkur geti ekki orðið fullnuma í þessum fræðum á 9 mánuðum hér eftir sem hingað til. Má vel vera, að fyrir spítalann sé það haganlegt að hafa námstímann svo langan, en óheppilegt er að mega ekkert frá því víkja, ef þörf héraðanna heimtar annað. Eftir mótmælum þeim, sem fram hafa komið frá landlækni, hv. þm. ísaf., þá hefi ég eiginlega sannfærzt um, að réttara sé að fella þetta frv., ef engin ákvæði mega standa þar önnur en þau, sem hv. þm. vill vera láta. Þótt hann að vísu hafi gott vit á þessum málum, þá getur líka verið vit í að fella þær brtt. inn í frv., sem miðað geta almenningi til hagsbóta. Þótt hv. þm. sé faglærður, þá er eigi gefið, að hann hafi jafn glöggt auga fyrir hagsmunum almennings í þessu efni. Ég held því, að réttast væri af hv. deild að fella þetta frumv., ef engar breytingar á því komast að.