08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1389 í B-deild Alþingistíðinda. (1090)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Vilmundur Jónsson:

Hv. þm. Borgf. sagði, að ekki þyrfti sérþekkingu til að kenna ljósmóðurfræði. Ég vil mótmæla þessu. Frv. þetta er einmitt miðað við það, að sá yfirlæknir, sem við kennslu þessari tekur, er sérfræðingur í þeirri grein. En af því að störfin í skurðlækningadeildinni eru mjög mikil, þá er ekki að vænta þess, að yfirlæknirinn geti til lengdar að öllu sinnt þessari kennslu. Má því vera, að hann þurfi innan skamms að fela aðstoðarlækni sínum hana að einhverju leyti, en vitanlega upp á sína ábyrgð og undir sínu eftirliti. Ég tel ekki fært að skipta þessu starfi á þá þrjá yfirlækna, sem nú starfa við landsspítalann. Sumir þeirra mundu ekki fast til að taka það að sér. Einn þeirra hefir t. d. ávallt stundað þrönga sérgrein innan læknisfræðinnar og hefir ef til vill aldrei tekið á móti barni. Ég veit, að sá læknir myndi líta svo stórt á læknisheiður sinn, að hann mundi aldrei fást til að taka að sér kennslu í grein, sem er gersamlega óskyld hans starfi.

Ég vil svara hv. þm. V.-Sk. því, að þegar námstíminn hefir verið lengdur upp í heilt ár, verður kennslunni hagað öðruvísi en áður. Breytingin á námstilhögun verður alveg í samræmi við þá breyt., sem varð á kennslu læknaefna, þegar námstími þeirra var lengdur úr tveimur árum upp í það, sem nú er. Og engum lifandi manni mundi koma til hugar nú, að tiltækilegt væri að setja það á vald heraða að færa námstíma sumra læknaefnanna niður í tvö ár. Kennslu ljósmóðurefnanna mundi samkv. frv. þessu verða hagað svo, að fyrri hluta kennsluársins yrði einkum bókleg kennsla, og er það heppilegt, að námsmeyjarnar læri undirstöðuatriðin, áður en þær byrja fyrir alvöru á verklega náminu. Þetta er einnig heppilegt af því að síðustu þrjá mánuðina er aðsókn sængurkvenna langmest að spítalanum. Stafar það af því, að yfir sumarmánuðina er erfiðast að fá vinnufólk til aðstoðar á heimilunum. Er því mestu tapað síðustu þrjá mánuðina, ef námstími sumra nemenda á ekki að vera lengri en 9 mánuðir.

Viðvíkjandi kostnaðinum er það að segja, að áætlað er í frv., að til þess að halda þessum skóla uppi megi verja 4000 kr. Nú er gert ráð fyrir, að árlega verði í skólanum um 40 nemendur, einn árg. ljósmæðranema. og þrír árg. hjúkrunarnema. Koma þá um 100 kr. á hvern nemanda. Er varla hægt að telja það dýrt, þar sem um er að ræða uppeldi tveggja stétta, sem jafnnauðsynlegar eru þjóðfélaginu og ljósmæðra- og hjúkrunarkvennastéttin.