08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1392 í B-deild Alþingistíðinda. (1093)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Vilmundur Jónsson:

Hv. þm. N. Ísf. sagði, að verið væri að auka útgjöld til skólahalds með þessu frv. Þetta er ekki rétt. Útgjöldin verða ekki meiri en þau voru áður, þegar litið er til þess, að hér eru tveir skólar færðir saman, og þess, að áður þurfti að borga allmikla upphæð fyrir húsnæði, ljós, hita, ræstingu og ýmislegt annað, sem nú kemur af sjálfu sér í landsspítalanum. Einnig má líta á það, að áður fór allmikið fé út úr landinu til menntunar hjúkrunarkvenna, sem nú verður kyrrt.