08.03.1932
Neðri deild: 23. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1396 í B-deild Alþingistíðinda. (1099)

33. mál, ljósmæðra- og hjúkrunarkvennaskóli Íslands

Magnús Guðmundsson:

Ég ætla að svara hæstv. dómsmrh. nokkrum orðum.

Ég sýndi honum fram á það áðan, að þessi tilhögun um aukaborgun til landlæknis hefði fyrst komizt á í hans ráðherratíð, og þetta er líka viðurkennt af honum, enda hlaut svo að vera.

Af því að hæstv. dómsmrh. minntist á laun Mogensens, sem hafði eftirlit með lyfjabúðum og var borgað fyrir það, þá vakti það upp hjá mér endurminningar um það, að engum varð tíðræddara um þessi laun en einmitt hæstv. núv. dómsmrh. sjálfum. Það er gaman að bera þá saman þau laun, sem honum voru greidd af því opinbera, og þau laun, sem landlæknir hefir, og svo laun þessara lækna við landsspítalann. Við þann samanburð kemur það í ljós, að þessir læknar hafa sízt Iægri laun en Mogensen hafði. Mér virðist því kenna lítillar sanngirni og samræmis í þessu efni.

Hæstv. dómsmrh. sagði, að fyrrv. landlæknir hefði haft þrenn aukastörf, sem sé ljósmæðrakennslu, eftirlit með lyfjabúðum og eftirlit með byggingu landsspítalans. En þar við er það að athuga, að spítalinn var fullbyggður áður en fyrrv. landlæknir varð veikur, svo að um það starf gat þá ekki verið lengur að ræða. Ljósmæðrafræðsluna hafði landlæknir áður, en nú á hann ekki að hafa hana lengur, heldur á að fela hana öðrum. Hæstv. dómsmrh. hefði getað nefnt fjórða beinið, sem landlæknirinn hafði, nefnilega eftirlit með menntaskólanum.

Núv. og fyrrv. landlæknir hafa haft það líka, báðir gegn sérstakri borgun.

Það var auðheyrt, að hæstv. dómsmrh. var í vandræðum út af þessari skipun landlæknis sem yfirumsjónarmanns spítalans. Honum fannst það vera vandræði, að þarna skyldu ekki vera nema þrír húsbændur, og því yrði að bæta þeim fjórða við. Það hefði ekkert verið hægara en að skipa einn af þessum 3 yfirhúsbónda. Þetta er aðeins til að útvega landlækni þetta bein.

Annars er það rangt, að engin lög skuli vera til um landsspítalann, en ríkisstj., hver sem hún er, skuli geta raðið þar öllu upp á eindæmi sitt.

Hv. þm. Barð. talaði um samninginn við læknana. Ég hefi ekki getað fengið að sjá þann samning, þó að ég hafi spurt eftir honum. Og ég á erfitt með að trúa því, að stj. hafi verið svo klaufsk, þegar hún samdi við læknana, að hún hafi gleymt því, að það þurfti að kenna ljósmóðurfræði í landinu. Ég trúi því ekki fyrr en ég sé samninginn, að svo sé frá honum gengið, að ekki sé hægt að skylda læknana til að inna þetta starf af hendi án sérstakrar borgunar. Ég greiði því atkv. með brtt. hv. þm. Borgf., í því trausti, að samningurinn sé ekki svo vitlaus, að læknarnir geti skotið sér undan þessu.