22.04.1932
Neðri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1399 í C-deild Alþingistíðinda. (11168)

284. mál, samvinnufélög

Héðinn Valdimarsson:

Ég veit ekki, hvort hv. þm. V.-Húnv. er svo ókunnugur atvinnuháttum manna sem draga má af ræðum hans, ef hann heldur, að í því felist atvinnubætur fyrir sveitamennina að hrifsa með valdboði vinnuna frá verkamönnum kauptúna og kaupstaða. Í þeim kaupstöðum, sem mesta atvinnu veita, svo sem í Rvík og Vestmannaeyjum og vitanlega víðar, njóta mörg hundruð sveitamanna vinnu árlega. Þeir leita þangað þegar atvinnu er að fá, og við því er ekkert sagt af hálfu verkamannafélaganna. Ef við nú tækjum upp sama hátt og grundvöllur er lagður að í þessu frv. og vakir fyrir flm. þess, — hverjar yrðu þá afleiðingarnar? Engir sveitamenn kæmust í skipsrúm, og það kæmi ekki heldur til mála, að þeir fengju neina vinnu í landi við útgerðina, við byggingar eða annað. — Nei, á bak við þetta frv. liggur ekkert annað en þröngsýnt bændaíhald. Og þetta er borið fram alveg að ástæðulausu. Við höfum aldrei bannað bændum eða öðrum sveitamönnum að vinna hér á vertíðinni, eða á öðrum þeim tímum, þegar vinnu er að fá. En ef með lögum á að fara að beita eina stétt manna þrælatökum, þá má reiða sig á, að því verður svarað á alveg viðeigandi hátt. Frv. þetta er því óskynsamlegt, frá hverju sjónarmiði sem á það er litið. Með því er verið að búa til tvennskonar rétt fyrir þá menn, er að kaupfélögum standa. En það verða ekki kaupfélagsmennirnir, sem ráða, hverjir verða teknir í vinnuna. Það er hv. þm. V.-Húnv., er vill ráða einn öllu á sínum stað og aðrir kaupfélags- eða sláturfélagsstjórar á sínum stöðum. Og þaðan stafar reiðin, að geta ekki eingöngu ráðið þá menn til starfanna, sem hæfa í alla staði þessum einráða og valdaþyrsta kaupfélagsstjóra, þá sem geta fengið sig til að skríða fyrir þesskonar manntegund.