02.03.1932
Efri deild: 18. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1426 í C-deild Alþingistíðinda. (11224)

37. mál, stjórnarskipunarlög

Fors.- og atvmrh. (Tryggvi Þórhallsson):

Ég ætla, að það hafi verið á síðasta eða næstsíðasta fundi kjördæman., sem það var tilkynnt, að borið myndi verða fram á Alþingi frv. til breyt. á stjskr., sem yrði byggt á líkum grundvelli og frv. það, er hér liggur fyrir. Og því var lýst yfir, að þetta myndi verða gert, þó störfum n. yrði ekki formlega lokið. Af hálfu okkar fulltrúa Framsóknarflokksins í n. var því lýst yfir, að við hefðum ekkert við þetta að athuga. Og því var ennfremur lýst yfir af okkar hálfu, að við sæjum ekkert við það að athuga, þó það kæmi út nál. frá fulltrúum einstakra flokka í n., þótt hún í heild sinni hefði ekki formlega lokið störfum.

Eitt slíkt nál. liggur nú hér fyrir, og annað mun vera væntanlegt næstu daga. Ég get lýst því yfir f. h. okkar framsóknarmannanna í n., að okkar nál. er sumpart í prentun og sumpart ekki fullbúið, en mun koma í góðan tíma áður en þetta mál verður endanlega afgr.

Jafnhliða þessu mun það vera öllum nm. ljóst, að það að bera fram slíkt stjskrfrv. sem þetta er ekki úrslitaatriðið í þessu máli. Aðaltilgangurinn með skipun mþn. var sá, að hún skapaði möguleika fyrir því að koma fram endurskoðun eða breytingum á kjördæmaskipuninni. Af því leiðir, að það verður að vera vitað í aðalatriðum, hvernig sú breyt. á að vera, áður en gengið er frá stjskrbreyt. Það er alveg tilgangslaust að ganga til kosninga á þeim grundvelli, að leggja fyrir þjóðina breyt. á stjskr. í þeim tilgangi að breyta kjördæmaskipuninni, nema þær till. séu fyrir hendi eða vitað sé, hvernig þær eiga að vera. Annars leiðir það bara til þess, að það verður enn að ganga til kosninga um málið. En um þetta atriði, hvernig kjördæmaskipuninni eigi að haga, hefir enn ekki náðst samkomulag, svo að þessu leyti hefir kjördæman. enn ekki lokið störfum. Og það er enn ekki séð út um það, að ekki takist að ná samkomulagi milli flokkanna um þetta atriði. En um það, hvernig kjördæmaskipunin eigi að vera, tel ég, að eigi að fara fram samtöl milli flokkanna á þessu þingi.

Á þessu stigi stendur því þetta mál nú, að það er óreynt, hvort ekki næst samkomulag milli flokkanna um það, hvernig eigi að fara um þetta aðalatriði, kjördæmaskipunina. Ég sé ekki ástæðu til þess að fara mörgum orðum nú um þetta mál í einstökum atriðum á þessu stigi málsins. En um aðalefni þessa máls mun ég geyma mér að tala.

Ég tel þó rétt að fara nokkrum almennum orðum um málið í sambandi við framburð þessa frv., sem fyrirrennara þeirrar vinnu, sem væntanlega verður lögð í að leysa málið.

Fyrst vil ég þá víkja að sjálfu frv., og ákvæðum þeim, sem það inniheldur. Ég vil geta þess, að um sum ákvæði frv. er enginn ágreiningur, og um sum lítilsháttar ágreiningur við nokkuð af andstæðingunum. Um það t. d. að fella niður landskjörið og að allir þm. skuli kosnir í einu af sömu kjósendum er enginn ágreiningur. Um deildaskiptinguna og 21 árs aldurinn er heldur enginn eða lítill ágreiningur. Þessi ákvæði öll eru sameiginleg með stjskrfrv. því, sem stj. lagði fyrir þingið í fyrra. En það aðalatriði, sem ágreiningurinn er um, er það, hvernig eigi að vera orðaðar í stjskr. grundvallarreglurnar fyrir því, hvernig kjördæmaskipuninni sé hagað.

Við framsóknarmenn bárum fram í n. till. um að grundvalla kjördæmaskipunina á því að tryggja hvorttveggja í aðalatriðum:

Sem jafnastan rétt kjósandans til fulltrúavals og áhrifa á Alþingi, og rétt núverandi kjördæma til eigin fulltrúa.

Og atkvgr. í n. um þessa till. fór eins og frá henni er sagt í nál. Sjálfstæðisflokksins.

Ég vil sérstaklega minna á það um b-liðinn, sem við framsóknarmenn lögðum mesta áherzlu á, að sá liður var samþ. óbreyttur í n. með 4:1 atkv. Og tveir hv. þm. (JóÞ og PM), sem samþ. c-liðinn óbreyttan, eru flm. þessa frv. Samt sem áður er þessi liður ekki látinn koma fram sem grundvallaratriði í þeim till., sem þessir hv. þm. bera nú fram. Af þessum 3 liðum till. eins og hún lá fyrir í n. hafa hv. flm. eingöngu tekið upp a-liðinn.

Á þessu stigi málsins er ekki ástæða til að ræða um, hvers vegna við framsóknarmenn leggjum svo ríka áherzlu á, að héruðin úti um landið eigi óskertan rétt sinn til að senda sína sérstöku fulltrúa á Alþingi. Við munum rekja það nánar í nál. okkar. Aðeins vil ég minna á það, að við erum ekki einir um það að líta svo á, að því er virðist, því samkv. atkvgr. í mþn. hafa fulltrúar sjálfstæðismanna einnig fallizt á það. Ég tel það svo þýðingarmikið atriði að tryggja aðstöðu hinna dreifðu byggða landsins til áhrifa á Alþingi, að ég tel, að röskun á þeim rétti héraðanna, sem þau nú hafa, muni hafa óholl áhrif á heilbrigða þróun þjóðlífsins. Og þegar á að setja ný ákvæði í stjskr. um grundvallaratriði kosningatilhögunarinnar, þá tel ég, að þau eigi að bera það með sér, að það sé verið að tryggja þennan þýðingarmesta rétt héraðanna. Ég vil mega ganga út frá því um Sjálfstæðisflokkinn, að hann geti fallizt einnig á það, að þessu mikilvæga atriði verði fullnægt, þegar á að ganga til atkvgr. um þetta mál.

Um frv. sjálft skal ég svo ekki segja fleira. En um kjördæmaskipunina vil ég bæta við fáum orðum. Við fulltrúar Framsóknarflokksins lítum svo á, að umr. um þetta mál eigi að halda innan þess ramma, að tryggja hvorttveggja sem bezt í aðalatriðum: sem jafnastan rétt kjósendanna til fulltrúavals og áhrifa á Alþingi og rétt héraðanna til að senda sína eigin fulltrúa á Alþingi. Innan þessa ramma erum við reiðubúnir til samvinnu við aðra flokka, og óskum einskis fremur en að geta leyst málið á þessum grundvelli. Við höfum bent á að fara ákveðna leið í þessu efni. Við höfum bent á þá leið, sem sú þjóð hefir farið, sem þingræðisskipulagið hófst hjá. Hjá þeirri þjóð, sem lengsta og farsælasta sögu á af þingræði, er fyrirkomulagið líkt í þessu efni og hjá oss. Og hún hefir svo góða reynslu um þessa skipun, að hún heldur fast við hana. Að hennar dæmi viljum við framsóknarmenn fara. Við viljum um þetta fara að dæmi ensku þjóðarinnar. Við höfum bent á að leggja til grundvallar þau kjördæmi, sem nú eru, en verja svo ákveðinni tölu þingsæta til þess að jafna rétt kjósendanna. Við höfum þar með bent á almennan grundvöll til að ná þessu marki. Við höfum líka borið fram ákveðna till. til að leysa þetta mál í einstökum atriðum. En við höfum hinsvegar lýst yfir því, að við bindum okkur ekki við einhliða till. í því efni. Á þeim grundvelli, sem ég hefi hér talað um, erum við framsóknarmenn reiðubúnir til samvinnu við aðra flokka um að leysa þetta mál, og er þá aukaatriði, með hverjum hætti það er gert. Fulltrúar sjálfstæðismanna hafa nú borið fram sínar till. í málinu og birt þær, bæði áður en þær voru lagðar fyrir þingið og svo nú. Ég endurtek það, sem ég hefi áður sagt, að það hefir glatt mig mjög, að með þeim till. er komið inn á þá braut að tryggja rétt héraðanna til sérstakra fulltrúa. Og ég tel það sem merki um það, að samvinna hefjist nú milli flokkanna um að leysa málið á þessum grundvelli.

Það hefir verið bent á, að þessar till. sjálfstæðismanna eru þó nokkrum annmörkum háðar. Það hefir ekki innan n. verið bent á ráð til að koma í veg fyrir, að það geti komið fyrir, að þingmannatalan hækki svo mikið, að ekki verði við það unandi. Ef því á að leysa þetta mál á þennan hátt nú, má telja víst, að skipulagið sjálft beri í sér möguleika til óánægju, sem mundi leiða það af sér, að það yrði að taka málið til meðferðar á ný. Ég endurtek það, að það hafa ekki í kjördæman. verið færð rök fyrir því, að þessa og nokkra aðra galla frv. mætti laga svo, að það megi fullnægja til að bæta úr þessum annmörkum. En ég vil segja það, að það skyldi gleðja mig, ef hægt væri að benda á eða það fyndist leið í þessu máli í framhaldi af þeirri leið, sem sjálfstæðismenn hafa bent á, og ég er reiðubúinn að athuga slíka möguleika.

Hv. 2. landsk. hefir einnig borið fram till. í málinu af hálfu síns flokks, Alþýðuflokksins. Um þær get ég verið stuttorður; ég mun koma að þeim síðar í nál. okkar framsóknarmanna, og þar mun verða gerð grein fyrir því, hvers vegna við getum ekki fallizt á þær. Ég get aðeins getið þess, að þær ríða algerlega í bága við þau aðalatriði, sem við framsóknarmenn viljum leggja til grundvallar í málinu, þar sem þær svipta alveg héruðin sínum sérstöku fulltrúum. En á þessu stigi málsins sé ég ekki ástæðu til að fara nánar út í það.

Þannig stendur þá málið núna. Við fulltrúar Framsóknarflokksins tjáum okkur fúsa, í áframhaldi af starfi mþn., til samstarfs við aðra flokka um lausn þessa máls.

Ég vil svo áður en ég lýk máli mínu segja nokkur orð almenns eðlis, í sambandi við aðstöðu okkar hér á landi til yfirstandandi tíma og um lausn þessa máls.

Þetta er viðkvæmt mál, svo viðkvæmt, að það er ekki hægt að hafa á dagskrá þjóðarinnar annað mál jafnviðkvæmt. Í sambandi við það vil ég minna á það, sem við erum allir daglega minntir á, að yfir okkar þjóð eru komnir alvarlegir tímar. Daglega berast okkur fréttir hvaðanæva að, af þingum og ríkisstjórnum nágrannaþjóðanna, hverjar ráðstafanir þær gera og um það, hvernig stjórnmálaflokkarnir í nágrannalöndunum styðja og styrkja þessar ráðstafanir. Þeir láta þær fréttir berast af sér yfir pollinn, að þeir láti umhugsunina um heill alþjóðar ráða meira en stundarhagsmuni flokkanna. Við erum einnig minntir á þetta sama. Hér hafa alveg nýlega verið háð þing beggja aðalatvinnuvega þessa lands, þing Fiskifél. Ísl. og búnaðarþingið. Ég hefi tekið þátt í störfum annars þessa þings, búnaðarþingsins, og fengið þar sterka tilfinningu fyrir því, hvað atvinnurekendur þessa lands beina nú sterkum huga til hv. Alþingis um það, að flokkarnir láti nú allt dægurþras víkja, en snúi sér einhuga að því að styðja atvinnuvegi landsins með því að auka starfsmöguleika þeirra, svo að hinn vinnandi lýður geti fengið nóg að starfa og þjóðin nóg að bíta og brenna.

Það er ekki ofmælt, að í augum alþjóðar er það það nauðsynlegasta, sem nú er að gera, að reyna eins og hægt er að verjast áföllum á þessum erfiðustu tímum, sem gengið hafa yfir þetta land á þessari öld. Ég vil gera allt það, sem í mínu valdi stendur, til að hindra það, að innbyrðis deilur um þetta allra viðkvæmasta mál þjóðarinnar verði til þess að hindra það, að Alþingi inni af hendi þetta þýðingarmesta starf sitt í þágu landsins barna.