01.03.1932
Efri deild: 17. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í C-deild Alþingistíðinda. (11298)

43. mál, lokunartími sölubúða

Flm. (Jón Baldvinsson):

Ef hv. þm. hafa kynnt sér grg. þessa frv., þá hafa þeir komizt að raun um hvað það hefir inni að halda. Það er aðeins dálítil viðbót við viðaukann, sem gerður var 1928 við l. um samþykktir um lokunartíma sölubúða í kaupstöðum frá 1917. Sá viðauki færði undir lögin ýmsar stofnanir, sem álitið var, að ættu að falla undir sömu reglur um lokunartíma eins og venjulegar sölubúðir.

Viðbótin, sem felst í þessu frv., miðar að því að tryggja sendisveinum vissan takmarkaðan vinnutíma. Vinnutími þeirra er e. t. v. ekki yfirleitt mjög langur, en hann er mjög óhentugur. Aðalstarf þeirra hefst oft ekki fyrr en á þeim tíma, sem aðrir fara frá vinnu sinni, og það er ekki óalgengt, að þeir séu fram á rauða nótt við að bera vörur út um bæinn. Þetta stafar af því, að engin ákvæði eru til í lögum, sem tryggja vinnutíma þeirra á sama hátt og lögin um lokun sölubúða tryggja öðru búðarfólki takmarkaðan vinnutíma. Úr þessu er ástæða til að bæta. Nú er þó ekki ætlazt til, að Alþ. fari að setja föst lagaákvæði um þetta, heldur á að leyfa bæjarstjórnum að setja um það reglur, eftir því sem við á á hverjum stað. Má vænta þess, að þær fari ekki á annan hátt með það vald heldur en eins og íbúunum er hentugast.

Ég þykist nú vita, að þær mótbárur muni koma fram gegn þessu frv., að það séu óþægindi að því fyrir fólk að geta ekki símað til verzlananna þegar komið er fast að lokunartíma og fengið vörurnar sendar heim til sín hvað seint sem er. Sérstaklega gæti þetta þótt óþægilegt í laugardagskvöld, þegar búðir eru lokaðar að morgni, þar sem það er víða orðin venja að verzla aðeins fyrir þann og þann daginn í einu. En þessara smávægilegu óþæginda mundi aðeins verða vart fyrst í stað. Fólk mundi strax venjast við það að byrja aðeins dálítið fyrr að panta frá verzlunum það, sem það vil fá sent heim. Það yrði eins um þetta og þegar ákveðinn var lokunartími sölubúða. Menn áttuðu sig mjög fljótt á því að gera innkaup sín í tíma. Það hafa ekki heyrzt neinar kvartanir um það í mörg ár, að búðunum væri lokað of snemma. Eins mundi fara um þetta; kvartanir um að fá ekki vörur sendar heim seint á kvöldin myndu hverfa von bráðar.

Eins og ég hefi tekið fram, á með þessu frv. að tryggja unglingunum, að þeir þurfi ekki að vera bundnir við útistörf fram á nótt, sem þeir einnig geta notað fyrir skálkaskjól, ef þeir vilja lengja útiveru sína. Það yrði því heimilunum mjög til góðs, að mínu áliti, og bætir aðstöðuna til þess að halda uppi góðri reglu. Vegur það margfalt á móti þeim smávægilegu óþægindum, sem það kynni að valda fyrstu vikurnar, ef menn gleyma að senda pantanir sínar í búðirnar nægilega snemma.

Fleira mun ég svo ekki þurfa að taka fram viðvíkjandi frv., og óska ég, að því verði vísað til hv. allshn. að lokinni umr.