29.04.1932
Efri deild: 63. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1658 í C-deild Alþingistíðinda. (11404)

512. mál, tekjuskattur og eignarskattur

Flm. (Ingvar Pálmason):

Ég geri ráð fyrir, þó það sé ekki nein þörf á því, að réttara sé að víkja nokkrum orðum að tildrögum þess, að þetta frv. er fram borið. Það mun öllum vera ljóst, að afkoma atvinnuveganna í landinu síðastl. ár hefir verið sú, að segja má, að þeir hafi undantekningarlaust verið reknir með halla. Af þessu liggur í augum uppi, að margvíslegar afleiðingar hljóta að koma fram. Ein meðal annara, sem benda má á og bent hefir verið á, er sú, að tekjur ríkissjóðsins á þessu ári hljóta að verða nokkru lægri en við var búizt og til ætlazt. Ég hygg líka, að hæstv. fjmrh. hafi látið þessa getið á öndverðu þingi í vetur og hann talið afkomu ,ríkissjóðs á þessu ári svo slæma, að telja mætti þess vegna líklegt, að ef ekki ætti að stofna nýjar skuldir. til að jafna þann halla, yrði að sjá fyrir tekjum, sem svaraði 1 millj. króna, eða rúmlega það. Þess þarf heldur ekki að geta, þó það sé rétt að gera það, að aðrar og fleiri afleiðingar eru nú komnar í ljós um það ástand, sem er í afkomu atvinnuveganna. Til þingsins hafa borizt málaleitanir um stuðning, bæði frá smærri atvinnurekendum og sveitarfélögum. Og mér þykir líklegt, að allir séu á einu máli um það, sem um þetta hafa hugsað, og viðurkenni það, að líkur séu til þess, ef afkoma þessa árs verður ekki betri en síðasta árs, að þá megi búast við, að reki að því, að ekki svo fá sveitarfélög verði að gefast upp og leiti á náðir ríkisins. Og ef afkoman verður sú, þá er líklegt, að það verði þó reynt í lengstu lög að sjá fólkinu borgið, sjá því fyrir lífsviðurværi, þó þröngt verði fyrir dyrum ríkissjóðsins.

Um möguleikana til þess að afla ríkissjóði tekna, fyrst og fremst til þess að standa straum af nauðsynlegum og óhjákvæmilegum útgjöldum, sem á hvíla samkv. fjárl., er það að segja, að möguleikarnir fyrir því eru náttúrlega fleiri en þessi, sem frv. gerir ráð fyrir, en ég hygg, að það sé svo ástatt, að þær leiðir, sem almennast hafa verið farnar hingað til, tollaleiðirnar, séu nú svo þrautfarnar, að tæplega sé vegandi meira að sinni í þann knérunn. Hinsvegar verður ekki á móti því mælt, að óvarlegt má það teljast af þessu þingi, ef það gerir ekki neitt til að sjá um, að ríkissjóður geti innt af hendi nauðsynlegar greiðslur og skyldur, sem á honum hvíla, og lítur þó ekki út fyrir, að hagur ríkissjóðs verði sá, að hann geti mætt þeim kröfum, sem útlit er fyrir, að komi frá einstökum héruðum, ef afkoman verður slæm á þessu ári og hinu komandi.

Ég ætla ekki neitt að blanda hér inn í afgreiðslu skattamálanna á þessu þingi að svo komnu. Við munum vita það allir, í hvaða ástandi þau eru, og ég ætla ekki nokkurn hlut á það að líta. Það má vel vera, að þetta frv., ef það lifir þá svo lengi, komist í sömu hnapphelduna, og dugir ekki um það að sakast.

Við flm. þessa frv. höfum talið það a. m. k. fyllilega forsvaranlegt að benda á þessa leið til tekjuöflunar, og við teljum hana meira að segja sanngjarna. því hvað sem segja má um frv. þetta í ein stökum atriðum, þá er það víst, að það gerir ekki ráð fyrir að afla tekna hjá öðrum en þeim, sem eitthvað hafa til. En slíkt verður ekki með sanni sagt um flesta þá tolla- og skattalöggjöf, sem notuð hefir verið hingað til, og mun ég geta fært allgóð rök fyrir því, ef þess er óskað og tækifæri gefst til síðar.

Ég tel ekki ástæðu til að fara öllu lengra út í ástæður þær, sem liggja fyrir því, að við komum fram með þetta frv. nú, en tel rétt að víkja örfáum orðum að frv. sjálfu. Skal ég þá í fyrsta lagi minnast á þann þátt frv., sem ræðir um viðauka við tekjuskattinn.

Það hefir sézt, að því hefir verið kastað fram, að þetta frv. væri viðbótarpíning ofan á örþrota atvinnuvegi. Ég tel þetta ekki á rökum byggt. Það mun öllum vera ljóst, að afkoma atvinnuveganna á síðastl. ári er sú, að það mun vera hrein undantekning, ef tekjuafgangur er á þeim rekstri. A. m. k. er óhætt að fullyrða þetta um sjávarútveginn og landbúnaðinn, og ég hygg, að það megi að mestu leyti segja það sama um verzlunina. En ég skal þó játa, að ég er því ekki eins kunnugur, svo það kann að vera, að hún hafi einhversstaðar skilað arði á síðastl. ári. Þó mun það fremur vera undantekning. Ég skal ekki fullyrða, að svo hafi verið. Iðnaðarfyrirtæki eru hér ekki mörg, en ég hygg, að af þeim sé heldur ekki um mikinn gróða að ræða á síðastl. ári, að undanteknu kannske því, að mér dettur í hug, að ölgerð kunni að hafa gefið arð. Ég þekki það ekki, en mér virðist sumt benda á, að á undanförnum árum hafi ölgerð hér í Reykjavík svarað töluverðum ágóða, og má vel vera, að hún hafi einnig gert það á síðastl. ári, svo að frv. okkar hitti þennan atvinnuveg. En ég verð að játa, að ég er nú ekki betur þenkjandi en það, að ég tel það ekki með öllu frágangssök að taka eitthvað af þeim gróða í ríkissjóð. Hinsvegar verður alls ekki um það deilt, að sjávarútvegur og landbúnaður eiga því miður ekki þeirri afkomu að fagna, að ákvæði þessa frv. geti hitt þá. Það eru því aðallega þeir menn; sem hafa föst laun, sem þetta frv. hittir að því er snertir viðbótartekjuskatt. Og ég verð nú að segja það, að ég fyrir mitt leyti lit svo á, að ef dráttur sá, sem frv. gerir ráð fyrir, er sanngjarn, þá sé sú tekjuöflunarleið, sem farin er í frv., ekki einasta fær, heldur sé erfitt að færa rök fyrir því, að hún sé ósanngjörn. Hinsvegar vil ég ekki neita því, að það getur átt sér stað, að þetta frv. sé að einhverju leyti svo ófullkomið, eins og öll mannanna verk eru, að það mætti bæta það. Það getur vel verið, að t. d. skattstigi sá, sem nú er í frv., sé svo, að það mætti bæta hann og gera hann sanngjarnari. Um þetta skal ég ekki fortaka neitt. En þar sem svona er — og ég þykist hafa sýnt fram á, að að því er viðbótartekjuskattinn snertir, þá hittir frv. aðeins eða að miklu leyti aðeins þá menn, sem hafa föst laun —, þá verður að viðurkenna, að frv. er að mestum hluta launalækkunarfrv. Og það hefir komið fram hjá fleirum en okkur hv. 2. þm. N.-M., að það sé ekki ósanngjarnt að lækka laun, a. m. k. sumra þeirra — þeirra hæst launuðu —, sem taka föst laun. Þetta er ekki rétt sérstakt, og má minna á það, að hér í hv. d. fóru fram umr. í gær um mál, sem hneig mjög í þessa átt. Nú, og þegar það er athugað nánar, þá verða menn að játa, að í raun og veru er það svo, að öll laun, af hverjum sem þau eru afhent, eru í raun og veru greidd af framleiðslunni í landinu. Hvort sem það eru fyrirtæki, bankarnir eða ríkissjóður, sem afhendir þau, er það framleiðslan, sem að lokum verður að greiða launin. Það er því svo langt frá, að með frv. þessu sé verið að íþyngja framleiðendunum, að það er frekar verið að létta á þeim.

Ég ætla ekki að svo stöddu að fara út í neinn samanburð milli þess, hvernig þetta frv. verkar og hvernig sú skattalöggjöf, sem við höfum búið við um langt skeið, verkar á atvinnuvegina. Það má vel vera, að undir umr. síðar verði ástæða til að fara inn á það nánar.

Ég vil nú að óreyndu vænta þess, að þeir aðilar, sem þetta frv. kemur við eða snertir sérstaklega, verði nú vel við kalli þjóðar og þings um að inna af hendi nokkurn hluta af þeim tekjum, sem þeir eru svo lánsamir að eiga kost á á þessum tímum. Og ég tel meira að segja, að það sé töluverð ástæða til að ætla, að svo verði. Og ég vil í því sambandi benda á, að 1924, þegar svo stóð á, að ríkissjóður þurfti að afla tekna meira en verið hafði undanfarin ár — afla tekna, má segja, á alveg óvenjulegan hátt, en hinsvegar enginn vafi á því, að nú er ekki síður en þá, nema frekar sé, um óvenjulega tíma að ræða, og miklu óvenjulegri úrlausnarefni, sem þarf að leysa —, þá var til þjóðarinnar leitað á þann hátt, að skattar og tollar voru hækkaðir tilfinnanlega, og ég varð ekki var við annað en þjóðin brygðist vel við því kalli, og undan þeim sköttum hefir ekkert verið kvartað, svo ég viti, þó þeir séu við lýði enn þann dag í dag. Ég lýsi því þó hiklaust yfir sem minni skoðun, að þar hafi verið ólíku saman að jafna, þar sem um var að ræða hækkun á tollum og sköttum, eða skatti þeim af tekjum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir. Því ég geri ráð fyrir, að það megi sýna fram á, svo ekki verði á móti mælt, að allmikill hluti af sköttum og tollum síðustu ára sé tekinn af tapi — af því, sem ekki er til, eða m. ö. o. sé nokkur hluti af skuldaaukningu atvinnurekenda.

Ég hefi þá með nokkrum orðum gert grein fyrir, hvernig við flm. lítum á þann hluta frv., sem snýr að tekjuskattsgreiðendum. Tel ég þá rétt að líta á hinn hlutann, sem snýr að eignarskattinum. Og ég skal játa, að með eignarskatt er alltaf nokkru vandfarnara en með tekjuskatt, því það eru alltaf takmörk fyrir því, hvað mikinn skatt má leggja á eignir til þess, að ekki gæti rýrandi áhrifa af honum á eignirnar. En hvað sem um það annars verður sagt, þá hygg ég, að þetta sérstaka ástand, sem nú er, réttlæti það, þó eignarskatturinn í frv. sé áætlaður hærra en eðlilegt væri á venjulegum tíma. Þegar svo er, að eignir allra eða flestra atvinnurekenda í landinu eru veðsettar, svo að þar er ekki um raunverulega eign að ræða, þá sé ég ekki betur en að það sé forsvaranlegt að mælast til þess, að þeir eigendur eigna, sem eiga allmikið skuldlaust, taki á sig nokkurn skatt til að greiða fram úr þeim vandræðum ríkissjóðs og héraða, sem standa nú fyrir dyrum.

Ég geri ráð fyrir því, hvernig sem fer um þetta frv., þá verði því þó lofað að fara til 2. umr. Ég get alls ekki búizt við, að hv. Ed. felli við 1. umr. mál eins og þetta, og það á þeim tímum, sem nú eru, en fari svo, að sú von mín rætist, að málið komist til n., þá vil ég vænta þess, að sú n., sem fengi frv. til meðferðar, taki það til athugunar og lagfæri þá galla, sem á því kunna að vera. Ég skal viðurkenna það f. h. okkar beggja flm., að það er vandaverk að semja slíkt frv. sem þetta, svo að ekki kunni að vera á því gallar, sem n. gæti lagað. Þessi ummæli mín ber þó ekki að skilja svo, að við teljum stefnu frv. gallaða.

Ég get nú látið þessi fáu orð nægja í þetta sinn; ég ætla engu að spá um þau andmæli, sem fram kunna að verða borin gegn frv., en læt um það fara sem verða vill. En áður en ég sezt niður þykir mér rétt að taka það fram, til þess að fyrirbyggja misskilning, að frv. er ekki borið fram að tilhlutun ríkisstj., en ég geri ráð fyrir, að hún muni undir umr. lýsa sinni afstöðu. Ég veit það, að stefna þessa frv. hefir ekki verið hyllt af öðrum stærsta stjórnmálaflokki þingsins, og geri því ekki ráð fyrir, að hann telji það sitt stefnumál, en hinu geri ég aftur á móti fyllilega ráð fyrir, að á þessum tímum haldi ekki allir þm. þess flokks svo fast á sínum stefnumálum, að þeir sjái ekki þörfina, sem á bak við liggur. Að lokum óska ég þess, ef frv. verður samþ. til 2. umr., að þá verði því vísað til fjhn.