04.06.1932
Sameinað þing: 12. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2429 í B-deild Alþingistíðinda. (11505)

Stjórnarskipti

Ólafur Thors:

Fyrrv. dómsmrh. er nú tekinn upp á því að láta þingheim hlæja að sér með því að viðhafa orð, er allir taka sem grín. Seinasta verk þessa manns var það að ryðja sakamálskærum á andstæðinga sína. Gerði hann þó reyndar annað seinna. Hann hefir, eins og kunnugt er, skrifað svívirðingar og níðgreinar, sem annar maður hefir verið dæmdur fyrir, af því að hann var ritstjóri Tímans. Hefir þessi maður verið dæmdur til mikilla fjárútláta fyrir verk fyrrv. dómsmrh. En það var síðasta verk hans sem ráðh. að náða sjálfan sig af einni slíkri sekt. Slík svívirðing hefir ekki komið fyrir áður hér á landi, nema ef vera skyldi sú, að þessi maður situr á Alþingi. Öll þessi sakamál væri réttlatt að láta niður falla. Væri honum með því sýnd viðeigandi virðing, eða réttara sagt óvirðing. Þarf þessa þó ekki til, svo að almenningur skilji hans óvirðu. Þarf ekki annað en líta á það atriði, að flokksmenn hans sjálfs hafa samþ. að setja í stól hans einn þeirra manna, sem hann sjálfur hefir sett undir ákæru sem glæpamann.

Hv. 3. þm. Reykv. sagði, að ég hefði sagt á fundi í barnaskólaportinu í fyrradag, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði fengið tryggingu hjá hæstv. forsrh. um lausn kjördæmamálsins. (HV: Hv. þm. ætti að hlusta betur á það, sem sagt er. Ég sagði, að hann hefði haldið því fram á fundinum, að Magnús Guðmundsson hefði loforð frá hæstv. forsrh. um stjórnarskrárbreyt.). Ég sagði ekki þetta, heldur hitt, að Sjálfstæðisflokkurinn hefði von um lausn málsins, með því að Magnús Guðmundsson væri kominn í stjórnina.

Hv. 2. landsk. beindi því til mín, að ég myndi sérstaklega leggja áherzlu á það, að stj. lækkaði gengi krónunnar. Hæstv. forsrh. svaraði þessu f. h. gengisn., sem ég á sæti i, en ég skal geta þess, að ég tel rétt að sporna á móti því, að íslenzkur gjaldmiðill falli. Er það skylda allra að gera í því skyni það, sem í þeirra valdi stendur. Annað mál er það, hvort við ráðum við þetta mál, en það er einlæg ósk mín, að svo megi verða.