04.06.1932
Sameinað þing: 12. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2449 í B-deild Alþingistíðinda. (11524)

Stjórnarskipti

Jón Þorláksson:

Mér kom það á óvart, að hæstv. forsrh. skyldi ganga fram fyrir skjöldu og fara að verja álagningu viðtækjaverzlunarinnar á viðtækin. Mér hefði fundizt eðlilegra, að hann gæfi aðeins loforð um að athuga þetta nánar og taka síðan ákvarðanir samkv. því. Hæstv. ráðh. helt því fram, að þrátt fyrir þessa álagningu viðtækjaverzlunarinnar væru tækin ekkert dýrari nú en áður. Ég hefi fengið fullnægjandi sannanir fyrir hinu gagnstæða og veit um mörg dæmi þess, að samskonar tæki og þau, sem viðtækjaverzlunin hefir, voru ódýrari áður og geta enn fengizt með mun lægra verði en viðtækjaverzlunin selur þau. Enda þarf engan að furða það, þegar það er athugað, hvað álagningin er gífurleg. Hitt er alger misskilningur hjá hæstv. forsrh. og hv. 3. landsk., að það skipti litlu fjárhagslega fyrir ríkissjóð, hvort almenningur getur fengið viðtækin með góðum kjörum eða ekki. Ég álít, að það sé mjög þýðingarmikið skilyrði fyrir góðri fjárhagsafkomu útvarpsins, að það fái sem flesta notendur, til þess að það þurfi ekki að vera ómagi á ríkissjóði. Þess vegna ætti að styðja að því, að sem flestir geti fengið sér viðtæki, en þessi mikla álagning fælir menn frá því að kaupa þau.

Þá hefir því verið skotið fram, að arðurinn af viðtækjaverzluninni árið 1931 hefði gengið til þess að jafna greiðsluhalla á rekstri útvarpsins. Það sest ekki á reikningum viðtækjaverzlunarinnar, nema að því er snertir þær 37–38 þús. kr., sem ég áður hefi getið um.

Ég held, að það sé ekki heppileg aðferð að afla útvarpinu tekna með því að láta viðtækjaverzlunina okra á þeim fáu mönnum, sem kaupa útvarpsviðtæki. Ég held, að hitt gefist betur, að hafa tækin sem ódýrust, til þess að útvarpsnotendum fjölgi sem mest. Þess vegna verður annaðhvort að hafa frjálsa verzlun á viðtækjum eða reka viðtækjaverzlunina þannig, að tækin séu sem ódýrust, og eigi dýrari en svo, að verzlunin beri sig.

Út af ummælum hæstv. forsrh. um það, hvort ríkisgjaldan. hefði átt að halda áfram störfum milli þinga, skal ég aðeins segja það eitt, að ég hefi aldrei gert ráð fyrir því eða vakið máls á því; ég hefi alltaf gengið út frá því; að hún starfaði aðeins á þessu þingi.

Það gleður mig, að hæstv. stj. hefir gefið vilyrði fyrir því,, að rekstur útvarpsins verði tekinn til rækilegrar athugunar og gerðar þær breyt. og leiðréttingar, sem nauðsynlegar eru. Að óreyndu ber ég það traust til hæstv. stj., að ég vænti, að þetta verði eitt af þeim mörgu verkefnum, sem hún tekur til athugunar og skilar í hendur næsta þings sem árangri af störfum sínum á því sviði, sem ríkisgjaldan. hefir undirbúið.