07.04.1932
Efri deild: 45. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1458 í B-deild Alþingistíðinda. (1270)

55. mál, ríkisskattanefnd

Frsm. meiri hl. (Einar Árnason):

Hv. minni hl. n. hefir nú gert grein fyrir afstöðu sinni. Hann sagði, að það væri lítið að gera við úrskurði um þessi mál. Svo hefði það verið og svo væri það. Hann sagði, að það ósamræmi, sem væri um framkvæmd þessara l., stafaði af því, að erfitt væri að samríma þessa löggjöf landbúnaðinum. Það er rétt, að erfitt er að samríma l. landbúnaðinum, eins og þau eru nú. Og ég er sammála um, að þar er stundum ekki um mikla upphæð að ræða til eða frá. En hitt mun stafa af ókunnugleika, eða þá af því, að hv. þm. sé sama, hvaða trassaskapur sé viðhafður á þessu sviði, ef hann heldur, að ekki sé mikið að gera á þessu sviði, svo framarlega sem til þess er ætlazt, að þeir, sem verða hart úti um álagning tekju- og eignarskatts, eigi greiðan aðgang að úrskurðarvaldi, sem hefir aðstöðu til að kynna sér allar málsástæður niður í kjölinn og koma þessum málum yfirleitt í sæmilegt horf. Það mun líka vera ókunnugleika hv. þm. að kenna, ef hann heldur, að skattaframtöl og skattalagning sé í sæmilegu lagi alstaðar. Ég veit vel, að framkvæmd tekju- og eignarskattslaganna er stórum lakari víða úti um land heldur en hér í Reykjavík. Það getur reyndar vel verið, að hv. þm. álíti, að framkvæmd þessara l. hafi verið í góðu lagi frá því fyrsta, bæði hér í Reykjavík og úti um land, og því ekki þörf neinna umbóta. En þetta eru aðeins venjulegar úrtölur þeirra manna, sem engar endurbætur vilja á því, sem um er að ræða í þann og þann svipinn.

Hv. þm. gerði mikið úr því, hversu það væri óeðlilegt og óvenjulegt að leggja svo mikið vald í hendur slíkrar nefndar, sem í því liggur að breyta niðurstöðum skattstjórna og skattanefnda, án þess að tilkynnt séu úrslitin. Þetta er ekki stórt atriði og ríkisskattan. hefir með þessu ekkert meira vald en skattan. hafa nú. Er það yfirleitt ekki talið hættulegt. Hv. minni hl. skilur 4. gr. svo, að ríkisskattanefnd eigi að gera hlutaðeigendum aðvart áður en hún breytir skatti þeirra, svo þeir geti sagt álit sitt um málið. Þetta teljum við meirihl.menn smátt atriði. En ef þetta þykir svo áriðandi, þá er ekki annað en koma með brtt. um það fyrir 3. umr. Meiri hl. n. mun ekkert amast við því. Fjhn. hafði dönsku skattalögin til samanburðar og athugaði þetta og fannst engin ástæða til að breyta þessu.

Þá talaði hv. minni hl. um það, að ekkert væri ákveðið um kostnaðinn við störf þessarar n. Það er rétt, að þetta er ekki tiltekið í frv., en þar stendur, að kostnaðurinn skuli vera ákveðinn í fjárl. Ætti það að vera sæmileg trygging fyrir því, hvað ætlað skuli til þessara hluta.

Þá gerðist hv. minni hl. óvenjulega hátíðlegur yfir frv. og heimtaði, að fjárhagsatriði þess væru borin undir fjvn. Ákvæði um þetta mun nú finnast í þingsköpunum frá 1915, og var þá nýtt ákvæði. Eitthvað mun hafa verið gert að þessu á fyrstu þingunum á eftir. En svo fundu menn fljótt, hver hégómi þetta var, ef það ætti svo að segja að leggja hvert mál undir úrskurð fjvn. Þetta féll því bratt niður og engum hefir þótt taka því að fylgja þessu fram síðan, hv. 1. landsk. ekki heldur. Þessi orð ber þó ekki að skilja svo, að ég sé neitt mótfallinn því, að þetta sé gert, ef nú þykir endilega bráðnauðsynlegt að taka þetta upp við þetta frv. Og ég skal gjarnan verða við þeirri ósk hv. minni hl. að senda frv. til fjvn. Ég hefi ekkert á móti því, að það sé gert. En ég er bara hissa á því, að hv. minni hl. skyldi nú allt í einu fara að muna eftir því, að þetta ákvæði var til.