14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1477 í B-deild Alþingistíðinda. (1322)

27. mál, forkaupréttur kaupstaða á hafnarmannvirkjum o.fl.

Sveinn Ólafsson:

Mér er óljúft að tala í þessu máli, og skoðun mín er sú, að það sé ekki þess vert, að eytt sé tíma í að ræða það. Vil ég þó snöggvast hverfa að því, sem ég hefi áður sagt og misskilið var af ýmsum. Með frv. þessu er alls ekki verið að gera greiða sveitar- og bæjarfélögum, heldur hinn mesta ógreiða. Ákvæði frv. hljóta að leiða til þess að þvinga fram óeðlilega verðhækkun. Ef bæjarfélag auglýsir fyrirfram, að það ætli sér forkaupsrétt að einhverri eign, þá verður það auðvitað til þess, að eigendur og jafnvel féhyggjumenn aðrir reyna að þoka verðinu upp, og kemur þannig fram verðhækkun með óeðlilegum hætti.

Þá vil ég einnig áður en ég skil við þetta mál, taka það fram, sem að vísu oft hefir verið bent á, að ef þessi forkaupsréttur verður lög festur, þá stangast hann við forkaupsréttarlögin frá 1926. Ef þau lög eiga ekki að gilda lengur, þá hefði mátt ætla, að þau væru felld niður með þessu frv. og það fram tekið, en það hefir ekki verið gert. Þessi tvenn andstæðu og ósamrímanlegu lög eiga þá að gilda samtímis. — Frekar skal ég ekki fjölyrða um þetta. Málið er ekki þess vert og óneitanlega helber hégómi.