19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1495 í B-deild Alþingistíðinda. (1402)

434. mál, prófessorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Það þarf nokkurrar skýringar við, að flutt er á þessum tímum frv., sem lítur út fyrir að vera um fjölgun starfsmanna ríkisins. Ég verð því að segja frá tildrögum þess, enda þótt ég búist við, að mörgum hv. dm. muni vera þau kunn.

Um leið og landsspítalinn var fullgerður, og enda reyndar strax og byrjað var að byggja hann, var það þegar ráðið, að við hann skyldu starfa 3 fastir yfirlæknar. Var og ráðið, hverjir það skyldu vera, og voru þeir svo með í ráðum um byggingu hans og alla gerð. Einn þessara manna er Guðm. Thoroddsen prófessor. Var hann fastur starfsmaður landsins. Annar, dr. Gunnl. Claessen, var bundinn föstum samningi við landið sem forstöðmaður röntgenstofunnar, sem þegar var ákveðið að flytti í landsspítalann, þegar hann væri fullgerður. Þriðji yfirmaður landsspítalans er Jón Hjaltalín Sigurðsson, sem bæði var héraðslæknir í Rvík og hafði verið kennari við háskólann í mörg ár. Má teljast hagsýni, að maður í stærsta héraðslæknisembætti landsins, sem líka hafði mikinn „praksís“. kenndi líka við háskólann stærstu grein læknisfræðinnar.

Þegar Jón Hjaltalín fluttist að landsspítalanum, varð hann að hætta héraðslæknisstörfum hér og sömuleiðis lækningastarfsemi sinni úti um bæinn. Að standa fyrir lyflækningadeild landsspítalans og kenna við háskólann er vitanlega ærið nóg starf einum manni. Er því hnigið að því ráði að sameina þessi tvö störf með sömu kjörum og Guðm. Thoroddsen hefir nú. Er því ekki um aukakostnað að ræða, en auk þess er það sparnaður, að héraðslæknisembættið stendur enn óveitt, en bæjarlæknir gegnir þeim störfum einn. Eins og nú stendur er Jón Hjaltalín ráðinn til þessara starfa með lauslegum samningi við ríkisstj. Fer hann því fram á það, að störf hans verði lögfest, svo um fastan grundvöll verði að ræða. Hann segir sem svo, að ef breytt verði til, svo að hann fari frá þeim störfum, er hann nú hefir, og hverfi aftur að héraðslæknisembættinu, þá sé stórum breytt til hins verra, því lengra sem líður, vegna þess að hann tapar heim praksís, sem hann hafði, en aðrir hafa þá tekið við. Né er hér að vísu um svo góðan mann að ræða, að varla er hægt að gera ráð fyrir, að honum verði bægt frá þessum störfum. En það er þó eðlilegt, að hann vilji heldur, að starfið verði lögfest. Launin eru óbreytt, og er því um engan aukinn kostnað að ræða. Og þótt það mætti hugsa sér hann möguleika að fá yngri mann í þetta starf, sem ekki kæmi inn á fullum launum, þá mundi Jón Hj. Sigurðsson taka við héraðslæknisembættinu aftur. Er á engan hátt hægt að fá störf þessi unnin fyrir lægri laun en þau, er prófessorar hafa. Hér er því um engan aukinn kostnað að ræða og því ekkert hægt að spara, nema þá að læknakennsla og landsspítalinn verði lagt niður.

Skal ég ekki orðlengja þetta frekar, en vísa máli þessu til hv. deildar, sem ég vona, að greiði götu þess.