27.04.1932
Efri deild: 61. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1497 í B-deild Alþingistíðinda. (1409)

434. mál, prófessorsembætti í læknadeild Háskóla Íslands

Dómsmrh. (Jónas Jónsson):

Ég býst við, að hv. þm. viti um tilefni þessa frv.; það er sem sé það, að lögfestur sé gamall samningur við Jón Hj. Sigurðsson um að hann verið löglega skipaður prófessor við háskólann, en hann hefir verið það í raun og veru samkv. lauslegum samningi um mjög langt skeið, eins og frv. ber með sér.

Þegar hann varð héraðslæknir, tók hann að sér kennslu við háskólann og hefir gegnt því frá byrjun fyrir mjög litla þóknun, samhliða sínu erfiða starfi. Þegar farið var að reisa landsspítalann, var samið við Jón Hj. Sigurðsson, Guðmund Thoroddsen og Gunnlaug Claessen um að verða læknar landsspítalans, og eins og kunnugt er, störfuðu þeir að undirbúningi þess máls meðan á byggingunni stóð, og hafa starfað samkv. samningi við heilbrigiðsstjórnina sem læknar landsspítalans síðan hann tók til starfa, eins og þeir væru prófessorar við háskólann. Nú hefir Jón Hj. Sigurðsson ekki sleppt héraðslæknisembættinu enn og segir, sem von er, að ef það væri ekki meining Alþ., að hann yrði prófessor, þá vildi hann fá að vita það strax, því að hann mundi þá stunda sitt embætti áfram, til þess að tapa ekki sínum gömlu samböndum, sem gæti verið nokkur hætta á, ef hann væri nokkur ár burtu frá því og kæmi svo aftur í það. Þess vegna er þetta ekki nein breyting á því skipulagi, sem nú er. Því ef Jón Hj. Sigurðsson færi burt, kæmi annar maður í staðinn, sem þá yrði að greiða svipað, eftir kauptaxta slíkra manna. Þess vegna er breytingin, sem þetta frv. gerir frá því, sem nú er, aðeins sú, að landið gerir endanlegan samning um þetta, í stað þess að stj. hefir gert samning til bráðabirgða.

Ég tel rétt, að umr. lokinni, að þetta mál verði athugað í allshn., og vildi gera það að minni till., að því yrði vísað þangað.