14.03.1932
Efri deild: 28. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1505 í B-deild Alþingistíðinda. (1428)

45. mál, tannlækningar

Einar Árnason:

Þetta frv. er ekki stórt, og ég sé ekki, að með því sé höggið stórt skarð í þann verndarmúr, sem lög gjafarvaldið hefir hlaðið utan um tannlækna.

Ég hygg, að tannlæknar njóti meiri lagaverndar hér á landi en víða annarsstaðar. Þó hefir þetta litla frv. komið því til leiðar, að tannlæknar hafa sent þingmönnum bréf til að andmæla því.

Ég býst við, að það vaki fyrir hv. flm. að gera fólki úti um landið léttara fyrir að fá sér gervitennur heldur en nú er. það má vera, að með því að samþ. frv. verði ekki mikið ágengt í þá átt, en þó held ég, að það gæti orðið að einhverju liði. Það er nú svo, að tannlæknar eru ekki á hverju strái; flestir eru þeir hér í Rvík. Og það er dýrt fyrir fólk, sem þarf að fá sér gervitennur, að verða að ferðast hingað til þess lengst utan af landi. Það má vera, að sú regla komist á, að tannlæknar fari um landið við og við til þess að gera við tennur í fólki og setja í það gervitennur. En menn hafa nú fengið nokkra reynslu af ferðum sérfræðinga í öðrum greinum læknisvísindanna, og hefir það orðið mjög dýrt fyrir þá fáu einstaklinga á hverjum stað, sem á þeim hafa þurft að halda, og erfitt á ýmsan hátt að hafa not af þeim.

Annars var það aðallega út af þessu bréfi, sem þrír tannlæknar hér hafa skrifað þm. — f. h. tannlækna, segja þeir —, að ég vildi segja nokkur orð. Mér finnst þetta bréf fyrst og fremst vera vantraustsyfirlýsing á tannlæknana sjálfa. Í þessu bréfi reyna þeir að færa rök að því, að frv. sé hættulegt. Og því er slegið þar fram, að þeir, sem fast eitthvað við tannsmíðar, aðrir en tannlæknar, séu fúskarar. Ég ætla ekki að dæma um, hvort svo er, en ég veit, að fólk leitar talsvert til þeirra og kemur það að miklu liði. Ég efast ekki um, að ef tannsmíðar þessara lækna væru ekki annað en fúsk, þá væri fólk búið að verða vart við það. Í bréfinu segir ennfremur, að ef öðrum en tannlæknum er leyft að fast við tannlækningar, hafi það þau áhrif, að lærðir tannlæknar þori ekki að setjast að á þeim stöðum. Þetta þykir mér undarlegt, ef lærðir tannlæknar þora ekki að taka upp samkeppni við fúskara, sem þeir kalla. Ég hefi þá trú, að þar, sem lærðir tannlæknar setjast að, útrými þeir bratt fúskurum í sinni sérgrein. Þeir ættu að yfirvinna .a með lærdómi sínum og þekkingu. Hika ég því ekki við að greiða atkv. með frv.

Um brtt. er það að segja, að hún er ekki stórvægileg. En mér virðist hún heldur ganga í þá att að rýra þau áhrif, sem frv. gæti haft, ef það er samþ. eins og það liggur fyrir, og þess vegna mun ég greiða atkv. á móti henni. Ég þekki þess nokkur dæmi, að tannsmiðir, sem ég veit ekki til, að séu útlærðir tannlæknar, hafa sett gervitennur í menn í samráði við viðkomandi héraðslækni, og hefir það tekizt vel. Ef slíkir menn reynast illa, er ég ekki hræddur um, að margir leiti til þeirra, og er þá útskrifuðu tannlæknunum óhætt.