23.05.1932
Efri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 515 í B-deild Alþingistíðinda. (155)

1. mál, fjárlög 1933

Frsm. (Einar Árnason):

Ég hefi ekki mikið að segja f. h. fjvn. Hún flytur aðeins 3 brtt. við frv. að þessu sinni. Fyrsta brtt. er um það, að inn í frv. komi nýr liður til ríkisskattanefndar. N. flytur þessa till. fyrir tilmæli hæstv. fjmrh., og er ástæðan til þess sú, að þetta þing hefir þegar afgreitt l. um ríkisskattanefnd, og það er vitað, að af slíkri n. verður einhver kostnaður. Hversu mikill hann verður, er ekki hægt að segja um að svo stöddu. En hinsvegar má vænta þess, að af störfum ríkisskattanefndar leiði það, að tekjur ríkissjóðs af tekju- og eignarskatti verði talsvert drýgri en annars hefði verið. — Önnur brtt. n. er um að hækka styrkinn til Eimskipafél. Ísl. Fyrir n. lá erindi frá Eimskipafél., þar sem farið var fram á, að ríkissjóður veitti því á árinu 1933 300 hús. kr. styrk. Í þessu frv. eru félaginu ætlaðar 60 þús. kr., og er það allmikið minna en í gildandi fjárlögum, að meðtaldri þeirri heimild, sem er í 22. gr. í gildandi fjárl. Þegar sú heimild er talin með þeim fasta styrk, þá er styrkurinn 210 þús. kr. N. hefir ekki séð sér fært að veita allan þennan styrk, sem Eimskipafél. biður um, en leggur til, að veittar séu félaginu 250 þús. kr. Það er nokkurnveginn vissa fyrir því, að tekjur félagsins verða rýrar á yfirstandandi ari og þar af leiðir, að fjárhagsafkoman verður erfið og má gera ráð fyrir, að eins verði á næsta ári. En um leið og n. vill leggja til, að slíkur styrkur sé veittur, sem er allmikill, þá vill hún leggja áherzlu á það, að Eimskipafél. viðhafi allan sparnað við rekstur félagsins, sem unnt er að framfylgja. N. gerir ráð fyrir, að hv. dm. sé ljós þessi nauðsyn Eimskipafél., að ríkissjóður hlaupi undir bagga eftir því sem fært er, og þess vegna gerir hún ráð fyrir, að d. samþ. þessa till. — Þá er þriðja till., sem er smávægileg, um að veita gömlum pósti eftirlaun í 18. gr., 200 kr. Þetta er svo smávægileg upphæð, að ég sé ekki ástæðu til að orðlengja um hana. — En ég vil nota tækifærið úr því ég er staðinn upp og segja örfá orð um brtt., sem ég flyt sjálfur við þessa umr. fjárl.

Fyrsta brtt. er á þskj. 788 og er um það, að einni gamalli ljósmóður verði veitt eftirlaun eins og gert hefir verið nú undanfarið á ýmsum þingum, að veittur hefir verið lítilfjörlegur eftirlaunastyrkur til ljósmæðra, sem búnar eru að gegna ljósmæðrastarfi í tugi ára. þessi ljósmóðir, Guðrún Jóhannsdóttir, hefir starfað sem ljósmóðir milli 40–50 ár. Ég geri ekki ráð fyrir, að ég þurfi að lýsa þessu nánar. Hún er orðin gömul kona og farin að heilsu, en verður hinsvegar að sjá fyrir sér sjálf. Ég fer aðeins fram á 300 kr. styrk og er það eitt af því lægsta, sem veitt er sem eftirlaun ljósmæðra í 18. gr. fjárl. Ég þykist þess fullviss, að d. láti þessa gömlu konu njóta sömu velvildar og aðrar slíkar konur, sem fengið hafa eftirlaunastyrk hjá þinginu í 18. gr.

Þá er næsta brtt. mín, við 22. gr. frv., þar sem er viðbót við 3. lið 22. gr. 1?ar er stj. heimilt að ábyrgjast fyrir tunnuverksmiðju Siglufjarðar til stofnkostnaðar 24 þús. kr. lán. Aftan við þetta legg ég til að komi allt að 50 þús. kr. rekstrarlán, sem greiðist upp árlega. Það er alllangt síðan menn fundu til þess, að það væri nokkurt öfugstreymi í því að flytja til landsins allar þær tunnur, sem þarf að nota undir síld, samsettar, og öll vinna, sem til þess fer, væri borguð út úr landinu, þar sem vitanlega er nógur vinnukraftur til þess að starfrækja tunnuverksmiðju yfir vetrartímann, þegar atvinnuleysið er. Hér á landi hafa verið notaðar undanfarin ár um 200 þús. síldartunnur, en meginhlutann af þessum tunnum mætti smíða hér á landi. Við mundum aldrei þurfa að flytja inn meira en 25 þús. tunnur sem umbúðir um krydd og ýmislegt, sem notað er til síldarframleiðslu. Þá mundi það verða um 175 þús. tunnur, sem landsmenn gætu sjálfir smíðað. Fyrir allar þessar síldartunnur, sem fluttar eru inn í landið, mun þurfa að greiða út úr landinu fulla 1 milljón kr. En hinsvegar mundi sparast peningagreiðsla út úr landinu sem svaraði 125 þús. kr. fyrir hverjar 50 þús. síldartunnur, sem smíðaðar eru hér á landi. Af þessum 125 þús. kr. mundi vera um 60 þús. vinnulaun. Á seinni árum hefir verið gert nokkuð að því á Norðurlandi að búa til tunnur, en það hefir verið ýmsum agnúum bundið, sérstaklega af því að efni hefir verði slæmt, og jafnvel líka hitt, að áhöld og tæki hafa ekki verið af nýtízku gerð. En þrátt fyrir það, að þetta hefir ekki reynzt upp á það ákjósanlegasta, þá hefir þó með þessari starfsemi unnizt það, að menn hafa lært aðferðina og í því efni er fengin töluverð reynsla, og kunnáttu vantar ekki, ef efni og önnur aðstaða er í sæmilegu lagi. Að sjálfsögðu er eðlilegast, að smíði á þessum tunnum fari fram á þeim stöðum, þar sem síldarútgerðin er mest og þá er það vitanlega á Siglufirði. Þar hefir nú nýverið verið stofnað félag með 40 meðlimum til þess að koma upp verksmiðju til þess að búa til síldartunnur og kjöttunnur og aðrar tunnur, sem nauðsynlegt er að nota í landinu. Þetta félag er þannig uppbyggt, að félagsmenn bera sameiginlega ábyrgð á skuldbindingum félagsins, allt að 1000 kr. hver. Félagsmenn leggja fram vinnu við verksmiðjuna, og vinnulaun þeirra eru lögð í stofnsjóð. Með þessu móti leggja þeir fram allt að 2/3 stofnkostnaðar. Þá er líka ákveðið, að af óskiptum brúttótekjum félagsins eigi að greiða kostnað við rekstur verksmiðjunnar. En vinnulaun koma fyrst til útborgunar að fullu, þegar allar skuldbindingar verksmiðjunnar eru greiddar. Ef reksturinn hefir ekki borið sig, þá verða félagsmenn að taka það á sig. Þá er líka ákveðið, að það verði lagðar vissar prósentur af tekjuafgangi í varasjóð, stofnsjóð og verkfærasjóð. Nú er það svo, að þeir menn, sem að þessu standa, eru aðallega verkamenn, sem ætla sjálfir að vinna að þessu og bera ábyrgðina á því, hversu mikið þeir bera úr býtum að lokum, þegar útkoman er fengin. En það, sem þetta nýja félag skortir, er fé til rekstrar og til efniskaupa, þar til hægt er að koma tunnunum í verð. þess vegna fara þeir fram á, að ríkissjóður ábyrgist 50 þús. kr. rekstrarlán. Er til þess ætlazt, að það verði greitt upp árlega. Ég vil því vænta, að hv. d. taki vel í þessa brtt. mína, sem gengur í þá átt að auka atvinnu í landinu nú á þessum atvinnuleysistímum og þá um leið að koma í veg fyrir það, að fé fari út úr landinu fyrir vinnu til annara þjóða, þá vinnu, sem landsmenn sjálfir geta afkastað.

Þá hefi ég flutt brtt. við 22. gr. frv., þar sem stj. er heimilað að veita Ingólfi Espólin 20 þús. kr. til að koma upp verksmiðju til frystingar á skyri til útflutnings. Í raun og veru væri hægt að tala langt mál um þetta, en ég skal að þessu sinni aðeins taka fram nokkur atr. til stuðnings því, að ég tel brtt. eiga rétt á sér. Ef ríkissjóður er þess megnugur að lyfta undir það, sem hér er farið fram á, þá gæti það orðið til ómetanlegs stuðnings fyrir annan aðalatvinnuveg landsmanna. Það hefir verið brýnt fyrir mönnum nú undanfarið að rækta landið og þá jafnframt að auka framleiðsluna og þá einkum mjólkurframleiðsluna. Ríkissjóður hefir lagt fram fé til þess að hjálpa mönnum til þess. Það hefir mikið verið gert að því að rækta landið og það hefir verið komið upp mjólkurbúum, sem hafa kostað mikið fé. Og það er enginn vafi á því, að menn hafa hugsað um það í ýmsum sveitum á landinu að koma upp fleiri mjólkurbúum, og margar sveitir hafa beinlínis sett von sína á það, að mjólkurframleiðslan gæti orðið til þess að hjálpa landbúnaðinum mest áfram. En þegar mjólkurbúin eru orðin mörg, þá liggur fyrir spurningin um það, hvað eigi að gera við framleiðsluna. Það er alveg víst, að hægt er að framleiða hér svo mikið af mjólk, að óhugsandi er, að landsmenn geti sjálfir notað þá framleiðslu, og því er nauðsynlegt að reyna einhverja leið til þess að hægt sé að selja mjólkurframleiðslu að einhverju leyti til annara landa. Það er dálítil reynsla fyrir því, að það megi selja út smjör og e. t. v. osta, en á þessu eru nokkrir erfiðleikar.

En þá er eftir ein teg. enn, sem ekki hefir verið hægt að setja í það ásigkomulag, að hægt væri að selja hana til útlanda, og það er íslenzka skyrið. Það er svo þekkt hér innanlands, að það þarf ekki að lýsa því, en það er líka vitað, að útlendingar, sem hingað hafa komið og smakkað það hafa látið vel af því, talið það hið mesta lostæti. En menn hafa ekki haft neina von um það, að hægt væri að flytja þessa vöru til útlanda, þar sem hún tekur þeim breyt. við geymslu, að hún verður ekki seljanleg. Það hefir einn maður hér á landi starfað að þessu atriði í 10 ár. Hann hefir haft áhuga á því að reyna að finna leið til þess að gera skyrið að útflutningsvöru og hefir gert ýmsar tilraunir, sem hafa misheppnazt eins og eðlilegt er. En nú er talið, að hann sé kominn svo langt í rannsókn sinni, að það sé ábyggilegt, að nú sé hægt að koma okkar íslenzka skyri í það ástand, að það gæti orðið verzlunarvara til útlanda. Honum hefir tekizt að geyma skyrið með frosti, svo það helzt óskemmt í margar vikur og breytist ekki að neinu leyti. Þetta hefir vakið athygli bæði í mjólkurbúasambandinu og Búnaðarfél. ísl., og síðasta búnaðarþing skrifaði Alþingi og mætti eindregið með því, að þingið veitti styrk til þess að gera tilraunir með útflutning á þessu frysta skyri. Þinginu hefir verið send mjög nákvæm skýrsla um það, sem búið er að gera í þessu máli. Hefði verið gott, að hv. þm. hefðu kynnt sér hana vel. Hún er mjög fróðleg og mundi veita hv. þm. fullan skilning á þessu máli.

Ég hefi hér í höndunum skýrslu frá efnarannsóknarstofu ríkisins og aðra frá Niels P. Dungal, um rannsókn, er gerð hefir verið á skyrinu 6 vikna gömlu, þegar það hefir verið geymt með þessari aðferð Espolins. Ber þeim báðum saman um, að skyrið sé gott eftir þá geymslu. Ég vil leyfa mér að lesa upp umsögn þessara manna. Trausti Ólafsson segir svo: „Eins og tölur þessar bera með sér, hefir ekki verið um neina súraukningu að ræða í skyrinu í h. u. b. 6 vikur, sem tilraunin stóð yfir. Á bragði eða útliti skyrsins gat ég heldur ekki orðið var við neina breytingu“. — Og í skýrslu þeirri, er fyrir liggur frá N. P. Dungal, segir svo: „Samanborið við það, sem vant er að finnast í nýju skyri, er sýnilegt, að enginn gerlavöxtur hefir átt sér stað í þessum tveim sýnishornum, sem bæði virðast eins og ný. — Eftir þessari bráðabirgða rannsókn að dæma virðist óhætt að fullyrða, að með þessu móti megi geyma skyr í a. m. k. 6 vikur án þess að það skemmist“. Þetta segja þá þessir menn og virðist það benda til þess, að hægt sé að framleiða vöruna á þennan hátt. Nú get ég vitanlega ekkert fullyrt um það, hvað miklar vonir maður má gera sér um það, að hægt sé að fá öruggan markað fyrir skyr í útlöndum. En ef það nú heppnast, þá mundi það verða svo óendanlega mikils virði fyrir þjóðfél., að mér finnst, að ekki megi neita um tiltölulega lítinn styrk til að fá það rannsakað. Ég hygg, að sumir muni álíta, að hægt sé að nota frystihúsin hér til þessarar framleiðslu. En það er hinn mesti misskilningur. Í sambandi við það tekur Ingólfur Espólin þetta fram: „Það skal tekið fram, að hér á landi, samkvæmt athugunum mínum, eru engar frostframleiðsluvélar, sem geta framleitt þann kulda, sem þarf“. Sá maður, sem mest hefir að þessu starfað, hefir gert kostnaðaráætlun um að koma upp húsi og vélum vegna þessarar framleiðslu. Er sú áætlun í þrennu lagi, eftir því magni, sem verksmiðjunni er ætlað að framleiða á dag. Sú minnsta framleiðir 300 kg. á sólarhring og kostar 37,500 kr. Ég hefi nú farið fram á það í brtt., að ríkissjóður legði fram til þessa 20 þús. kr. Ef þessi styrkur fæst handa þessum manni, þá er vissa fengin fyrir því, að það, sem til vantar, fæst annarsstaðar. Og loforð um efni í framleiðsluna hefir fengizt frá mjólkurbúunum, sem vitanlega vilja leggja hér nokkuð í sölurnar, til þess að þessi tilraun verði gerð. — Ég vil því vona, að hv. d. sýni skilning sinn á mikilvægi þessa máls með því að veita þennan styrk, svo hægt verði að ganga úr skugga um það, hvort ekki er hér um leið að ræða, sem gæti orðið þjóðinni til hins mesta gagns að farin yrði.

Ég á hér á þskj. 795,VI. brtt., til Halldórs Kr. Jónssonar, til dýralækninga, kr. 300. það, sem gerði það, að ég flutti þessa brtt., var það, að hv. 1. landsk. hefir flutt till. um sama efni, en til annars manns. Vona ég, að hv. d. láti hið sama yfir báðar brtt. ganga. Ég hefi flutt brtt. um þetta sama efni áður, en þá var hún felld. þessi maður, sem hér um ræðir, hefir gert sveit sinni og umhverfi ómetanlegt gagn með lækningum sínum, og á því þessa viðurkenningu fyrir starf sitt fyllilega skilið.