14.04.1932
Efri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1585 í B-deild Alþingistíðinda. (1627)

156. mál, barnavernd

Jón Jónsson:

Ég bjóst satt að segja ekki við svona stóru blaði frá hv. 2. þm. Eyf. út af þessu þarfa máli. Ég get ekki séð, að sveitunum stafi neinn voði af því, þó að skólanefndunum sé falið eftirlit með uppeldi barna. Mér finnst ekki nema eðlileg varúðarráðstöfun, að það sé gert. Sem betur fer þekki ég ekki mörg dæmi þess, að meðferð á börnum í sveitum sé svo háttað, að slíkt eftirlit skólanefndar væri nauðsynlegt. En þó eru þau dæmi til. Og ég get hugsað, að það eitt, að n. með slíku valdi sé til, væri nóg til að fyrirbyggja, að slíkt geti komið fyrir. Ég held því, að varhugavert sé að fella þessa skyldu niður utan Reykjavíkur, bæði í kaupstöðum, kauptúnum og sveitum. Ég þykist vita, að þörfin geti verið brýnust hér í Reykjavík. En hún getur líka verið mikil í hinum kaupstöðunum. Þeir eru líka orðnir nokkuð stórir og vaxa hröðum skrefum. Því er ekki rétt að binda þessa skyldu aðeins við Reykjavík, en við það eru till. hv. þm. miðaðar.

Eftir brtt. við 20. gr, frv. á skipun barnaverndarráðs aðeins að vera heimild til handa kennslumálaráðh. Hefði hv. þm. komið með brtt. sínar á fund n., þá hygg ég nú, að frekar hefði verið litið á þessa brtt. En varlegra mun þó að hafa þetta barnaverndarráð, til að líta eftir starfi nefndanna. Er og ætlazt til, að barnaverndarnefnd og barnaverndarráð starfi kauplaust. Er því ekki um mikla kostnaðarhættu að ræða. Svona víðtækum brtt., að skyldan að hafa barnaverndarnefndir falli niður á öllu landinu nema bara í Reykjavík, verð ég ákveðið að mótmæla. Hitt væri frekar, að ég gæti látið hlutlausa brtt. við 20. gr.