23.05.1932
Efri deild: 81. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (164)

1. mál, fjárlög 1933

Páll Hermannsson:

Hæstv. forseti gat þess nú um leið og hann settist, að það hefði verið los á þdm. hér við umr. í dag, og óvenjulega lítill áhugi í þeim að tala fyrir brtt. sínum. En ég verð nú að segja, að mér finnst það eftir atvikum vorkunnarmál, eins og útlitið er nú um afgreiðslu fjárlaga. Ég á hér 2 brtt. á þskj. 795 ásamt hv. 2. þm. S.-M. Fyrri brtt. er undir stafl. IV, við 14. gr., og er um að hækka styrkinn til húsmæðraskólans á Hallormsstað um 1500 kr. Eins og hv. þdm. er kunnugt tók húsmæðraskólinn til starfa haustið 1930. Skólahúsið var ha ekki fullgert að öllu leyti, en ho svo, að skólinn starfaði þá um veturinn. Annars er honum ætlað að starfa í tveimur deildum, þannig að hann verði 2ja vetra skóli. Í skólanum er húsrúm fyrir rösklega 30 nemendur, en ekki hafa þeir enn náð þeirri tölu. Fyrri veturinn, 1930 og 1931, voru þeir fullir 20, en síðastl. vetur voru nemendur neðan við 20 að tölu. Í yngri deildinni — fyrri veturinn — er námsmeyjum einkum ætlað að stunda bóklegar fræðigreinar, en síðara veturinn meira verkleg efni, einkum þær greinar, sem eru nauðsynlegar fyrir húsmæður í sveitum. Ég held, að þeir sem til þekkja, viti það vel, að verklega kennslan krefst fjölbreyttra kennslukrafta. Það er ekki auðvelt fyrir sömu kennslukonu að kenna í gerólíkum greinum, svo sem matargerð, saumum og vefnaði og öðru, sem húsmæðraefni þurfa að nema. Af þessu leiðir, að kennslan hlýtur að verða dýr.

Í fjárl. fyrir 1931 voru veittar 5000 kr. til rekstrar skólans það ár. En af því að skólinn hóf starf sitt á arinu 1930 veitti stj. sérstaka upphæð til viðbótar, 3000 kr., sem skólinn fékk fyrir 21/2% mán. starf á árinu 1930. Árin 1930 og 1931 fékk skólinn samtals 8000 kr. til rekstrar úr ríkissjóði. Á síðasta þingi — sumarþinginu voru veittar í fjárl. yfirstandandi árs 7000 kr. í rekstrarstyrk. Þar sem skólinn er nú svo að segja í byrjun, og engin reynsla fengin um starfsrekstur hans eða hvað hann kostar, fyrr en það, sem nú er að koma í ljós, þá þykir mér rétt að gefa hér stutt yfirlit um útkomuna fyrir árin 1930 og 1931. Ég hefi hér í höndum rekstrarreikning skólans fyrir það tímabil, og samkv. honum kemur það í ljós, að rekstrarkostnaðurinn hefir orðið samtals um 14 þús. kr. — Þær tekjur, sem skólinn hefir fengið á móti þessum kostnaði, eru úr ríkissjóði 8000 kr., úr sjóði, sem er eign Múlasýslna, Jarðeldasjóði, 1000 kr. og í þriðja lagi kennslugjald nemenda 3300 kr. Samkvæmt þessu hefir rekstrarhalli orðið um 2000 kr. Þannig er þá útkoman á þessu tímabili. Um áramótin 1931 og 1932 skuldar skólinn á rekstrarreikningi um 2000 kr. Ennfremur hefi ég með höndum áætlun um rekstrarkostnað skólans á arinu 1933; ég get ekki verið að lesa hann upp sundurliðaðan, en gert er ráð fyrir, að kostnaðurinn verði alls um 12200 kr.; þar af eru kennslulaun áætluð 6400 kr., en tekjur sem eiga að fást heima í héraði og í skólagjöldum, á 4. þús. kr. Úr ríkissjóði eru áætlaðar 9000 kr., en í fjárl. fyrir næsta ár er aðeins gert ráð fyrir 6000 kr. Við hv. 2. þm. S.-M. förum fram á, að liður þessi verði hækkaður um 1500 kr., upp í 7500 kr., og verður það þó 1500 kr. lægra en áætlað er; að skólinn þurfi til rekstrar úr ríkissjóði árið 1933. Og þrátt fyrir það er ótalin sú skuld, sem skólinn er nú í, 2000 kr. Ég er að vísu ekki í vafa um, að á árinu 1933 verður um svo mikla fjárhagsörðugleika að ræða, að flestir verða að sætta sig við minna en þeir þyrftu að fa. Við höfum því slegið 1500 kr. af því, sem skólinn þarf til rekstrar, gangandi út frá því, að skólinn verði eins og flestir aðrir að draga saman seglin til muna. Ég geri mér von um, að þessum skóla farnist vel, ef hann kyrkist ekki í fæðingunni fyrir fjárþröng. Hinn fasti starfstími skólans er 6 mán. árlega, og auk þess nokkurra vikna námsskeið að vorinu, einkum við garðrækt og ýms verkefni kvenna. Ég veit til þess, að það námsskeið, sem þar verður haldið í vor, er nú fullskipað, og mér er sagt, að þær konur, sem þangað sækja, séu héðan og þaðan að af landinu.

Með þeim tekjum, sem skólanum eru nú ætlaðar samkv. frv., getur hann varla starfað. Ég skal benda á það til samanburðar, að Blönduósskólanum er ætluð helmingi hærri fjárveiting, en að vísu er hann dálítið stærri. Húsmæðraskólinn á Laugum fær að vísu lægri upphæð en Hallormsstaðaskólinn, en þar er aðstaðan ólík, ókeypis hiti, og auk þess má vera, að hann njóti einhverra þæginda af kennslu frá kennurum alþýðuskólans. Í þriðja lagi er húsmæðraskóinn á Laugum nokkru minni en Hallormsstaðaskólinn. Ég vona, að hv. þdm. verði svo velviljaðir þessu máli, að þeir greiði atkv. með brtt. okkar.

Ég geri ráð fyrir því, að hv. þdm. muni eftir því, að á þinginu 1930 var veitt í fjárl. fyrir árið 1931 6 þús. kr. upphæð til þess að gera laxastiga í Lagarfossi. Var gert ráð fyrir því, að verkið kostaði 10 þús. kr. og var framlag ríkisins miðað við 3/5 kostnaðar. Mun það tillag hafa verið óvanalega hátt, en á það var litið, að fyrirtæki þetta var einnig óvenjulega kostnaðarsamt, og í hlut átti einnig óvenjulega stórt vatna- eða veiðisvæði. Nú var þetta verk unnið á síðastl. sumri, en reyndist dýrara en ráð var fyrir gert og kostaði 11318 kr. — Stafaði umframgreiðslan mikið af því, að flutningur á efni reyndist dýrari en búizt var við. En vegabætur þarna eru litlar og vegir illir. Ég hefi hér fyrir mér skýrslu um þetta verk frá vegamálastjóra. Lýsir hann ánægju sinni yfir framkvæmdinni og telur, að þarna sé um mikið og gott mannvirki að ræða. Leggur hann til, að greiddar séu til viðbótar úr ríkissjóði kr. 791.24, eða svo, að ríkissjóður greiði nákvæmlega 3/5 kostnaðar við verkið allt. Ég get í sambandi við þetta nefnt það, að nú er í undirbúningi eða þegar komin í framkvæmd stofnun fiskiræktarfélags fyrir þetta stóra svæði, sem nær að miklu leyti yfir 7 hreppa og að nokkru leyti yfir 2 aðra, eða 9 hreppa alls. Er svo ráð fyrir gert, að byggð verði 2 klakhús á þessu vori. Má því sjá, að ekki er um svo litla fjárþörf að ræða, en fólkið, sem að þessum framkvæmdum stendur, er ekki auðugt. Ég skal og geta þess, að til byggingar á laxastiganum hefir verið lagt fram nokkru meira fé úr ríkissjóði en áætlað var, svo þessi upphæð, sem hér er beðið um, stendur þar í skuld. Vona ég, að till. þessi verði samþ. og endurtek það, að vegamálastjóri mælir með því, að veittar séu kr. 791.24, eða nákvæmlega 3/5, alls kostnaðar við verkið.