13.05.1932
Efri deild: 74. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1609 í B-deild Alþingistíðinda. (1649)

156. mál, barnavernd

Frsm. (Guðrún Lárusdóttir):

Ég taldi þetta ekki svo mikinn galla á frv., að ekki væri óhætt að samþ. það, þótt þessi breyt. yrði gerð á því. En ég vildi aðeins benda á það, að hingað til hafa skólanefndirnar sinnt fremur lítið þessu starfi, sem af þeim er ætlazt til eftirlits með óskilgetnum börnum. En nú er þeim lagt þetta starf á herðar með sérstakri löggjöf jafnt og barnaverndarnefndunum, og verður það vonandi hvöt fyrir þær til þess að taka betur til greina þessi lög heldur en þau fyrirmæli, sem hingað til hafa verið gildandi í þessum efnum. Og skyldi það gleðja mig mikið, ef skólanefndirnar hrintu algerlega þeim efa, sem ég hefi hér látið uppi viðvíkjandi framtíðarhorfunum í þessum málum.