27.04.1932
Neðri deild: 61. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1699)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Frsm. meiri hl. (Sveinn Ólafsson):

Ég mun ekki taka þetta eins geyst og hv. frsm. minni hl. og finnst engin ástæða til að taka málið með þvílíkum ákafa og hann hefir gert. Ég álít heldur ekki eiga við að draga inn í þessar umr. alveg óskyld efni, eins og t. d. stofnun og starf Eimskipafélags Íslands. Framhjá öllu slíku, sem málinu er óviðkomandi, mun ég ganga. En þar sem hv. frsm. minni hl. heldur því fram, að hér sé ekki og hafi ekki verið um annað að ræða en leikaraskap með flugferðir og telur þetta fyrirtæki – Flugfélag Íslands — hliðstætt byggingu kvikmyndahúss eða leikhúss, þá finnst mér hann hafa skotið langt yfir markið og muni aldrei markið hæfa með þvílíkum röksemdum. Hvað hafa aðrar þjóðir gert í þessu efni? Hefir eigi um öll lönd verið viðleitni hin síðari ár til undirbúnings reglubundnum og stöðugum ferðum? Hefir ekki hvarvetna verið reynt að ná því marki, að flugferðir gætu orðið almenningi að liði? Það er löngu ljóst, að flugvélar hafa ýmsa yfirburði yfir öll önnur samgöngutæki, og vegna þess er líka hvarvetna kapp á það, lagt að koma á reglubundnum flugferðum, þar sem þær geta átt við. Það er í raun og veru mjög eðlilegt, að samgönguerfiðleikarnir hér í stóru og vegalausu landi freistuðu til loftferða og notkunar flugvéla. Og þótt hv. frsm. minni hl. geri lítið úr starfi félagsins í þarfir síldveiðanna og telji það yfir höfuð að tala óþarft, þá eru vissulega til yfirlýsingar frá ýmsum mönnum, er þennan veiðiskap hafa stundað, sem viðurkenna ekki einungis, að þær hafi orðið að liði við þetta starf, heldur og, að gagnið myndi verða miklu meira, ef útbúnaður væri sá, sem við á. Liggur það líka í hlutarins eðli, þar sem hraðfæri flugvéla er svo mikið, að þær geti miklu fremur en nokkur önnur aðferð, sem þekkist, gefið bendingar nauðsynlegar fyrir veiðimenn.

Að því leyti sem ræða hv. frsm. minni hl. laut að ákærum á hendur flugfélagsins fyrir vanrækslu á skyldustörfum, sem það hefði tekið að sér, þá er það óviðkomandi þessu máli með öllu. Hafi það vanrækt skyldur, sem það hefir undirgengizt að rækja, verður slíkt mál að sækjast á þeim rétta vettvangi og halda því utan við þetta mál. Eins og tekið er fram í nál. og ég stuttlega gerði grein fyrir í framsögu málsins, er hér um að ræða að geta haldið áfram innlendu flugferðunum, bætt úr því, sem áfátt hefir verið við þær, og veita þeim þróunarskilyrði. Að því er nú opin leið með því tilboði, sem fengizt hefir frá vestræna félaginu um að taka að sér ferðirnar og flugvélarnar. En þar sem vestræna félagið hefir sett það skilyrði jafnhliða tilboðinu, að flugmálaskatturinn haldist og verði því tryggður, þá er það vitanlega sama og hafna tilboðinu og sigla öllu í strand að fella skattinn niður. Þótt hv. frsm. minni hl. heldi því fram, að tilraunir flugfélagsins hefðu að ýmsu leyti misheppnazt og vélarnar verið of litlar og hvorki nógu vel né örugglega útbúnar. Þá sýnir það ekki annað en ráð, sem allir reyndar vita, að getan hefir ekki náð lengra í þessum efnum; en tækifærið til þess að fá betri og öruggari tæki er nú e. t. v. á næstu grösum, og hin alvarlega spurning, sem fyrir liggur, er um það, hvort ver eigum að taka álitlegu boði vestræna félagsins eða hafna því.

Ég verið að hverfa allra snöggvast að því, sem hv. frsm. minni hl. nefndi, um síldar- eða leitarflugið, sem hefði verið tekið upp í Noregi og reynzt þar árangurslaust, eftir yfirlýsingu veiðimanna. Slíkar frásagnir eða fréttir, sem gripnar eru úr lausu lofti, hafa ekki mikið gildi. Það er víst, að Norðmenn tóku upp þessa tilraun með tiltölulega lítilfjörlegum útbúnaði, af því að þeir höfðu spurt, að þetta hefði verið gert hér og árangurinn hefði virzt verða nokkur. Og þótt dómur nokkurra veiðimanna sé sá, að þessi fyrsta tilraun hafi ekki tekizt æskilega. Er þó alls ekki nein úrslitareynsla með því fengin um það, að hverju gagni þetta megi verða. Nú verður auðvitað á það að líta, að innanlandsflugið var hér ekki einungis hafið vegna þessarar hugmyndar um síldarleit, sem var óljós í upphafi og þokukennd, heldur vegna póstflutninga og skyndiferða, sem ætíð geta fyrir komið og nauðsynlegar verið, svo sem sjúkraflutningur í lífshættu. Og sú hugmynd hefir löngu komið fram, að í sjúkdómstilfellum væru þessi samgöngutæki hin ákjósanlegustu, sem völ væri á. Á þeim stutta tíma, sem flugferðir hafa verið stundaðar hér — og aðeins er tilraunatími —, er þess ekki að vænta, að nein stórkostleg afrek verði sýnd, en víst er, að með flugi hefir þó nokkrum sjúklingum verið veitt hjálp, og nær erum vér markinu nú en þegar byrjað var að hagnýta þessi samgöngutæki þau hafa þegar gefið góða raun við flutning pósts og sjúklinga, hvað sem sagt verður um síldarflugið. En víst er þó, að reynslan á eftir að sýna meiri og almennari árangur flugferða hér á landi en kominn er. Ég er í engum vafa um það, að síldarleitin með flugum er framtíðarskipulagið, sem haft verður við þennan veiðiskap. Nú er það kunnugt, að flugvélar þær, sem notaðar hafa verið, hafa ekki haft tæki til að tilkynna veiðifregnirnar jafnsnemma og þær hafa orðið veiðinnar varar. Þær hafa orðið að sækja um langan veg til þess að geta gert aðvart. Í framtíðinni verða þær vafalaust útbúnar slíkum tækjum, og þá má vænta þess, að árangurinn verði meiri og almennari.

Það er heldur ekki með öllu rétt, sem hv. frsm. minni hl. sagði, að allur þunginn af þessum flugtilraunum hafi því hvílt á einum atvinnuvegi, síldveiðunum. Það er mjög fjarri sanni. Til flugferðanna hefir miklu meira fé verið varið úr ríkissjóði og frá einstökum mönnum en nemur flugmálaskattinum. Það er heldur ekki nema 9/10 af fé flugmálasjóðs, sem fallið hefir til flugfélagsins.

En þótt mikill hluti þessa flugkostnaðar hafi samkv. lögunum frá 1930 lent á síldveiðunum, þá er þess líka að minnast, að á síðasta sumri var felldur niður af útflutningsgjaldi af síld, meðfram vegna hinnar auknu byrði af flugskattinum. Sú lækkun nam fimmfalt hærri upphæð en gjaldið í flugmalasjóð. — Annars vita allir, að síldarútvegurinn veltur ekki á þessum skatti. Ef ekki væru aðrir eða meiri erfiðleikar þess útvegar, þá væri hann ekki kominn eins og nú er. Það er annað, sem að kreppir, og mun sárálitlu skipta útveginn, hvort skatturinn er greiddur eða greiddur ekki.

Hv. frsm. minni hl. hélt því fram, að meiri hl. n., sem leggur til að vísa málinu frá með rökst. dagskrá, flytji dagskrána í þeim tilgangi að bjarga við réttlausu og gjaldþrota flugfélagi. Hv. frsm. minni hl. finnst, að vér með því höfum unnið oss til óhelgi. Það má vel vera, að það verði reiknað meiri hl. n, til syndar, ef hv. þm. Ak. á um að dæma, að vilja gefa félaginu færi á að breyta eignum sínum í peningum og leggja drög að framhaldi flugferða. Ég tek mér ekki nærri slíka sleggjudóma. En það, sem mestu máli skiptir, er það, að með samþykkt frv., ef til kemur, er verið að hefta eðlilega þróun flugferða hér á landi og gera að engu kostnaðarsamar tilraunir á því sviði, sem gerðar hafa verið síðustu árin.

Það er áreiðanlegt, að flugfélagið hefir fórnað miklu fé í tilraunir undanfarið. beinlínis í þarfir þjóðarheildarinnar. Þess vegna vil ég halda því fram, að jafnvel þótt það að einhverju leyti hafi vanrækt síldarflugið eins og hv. þm. Ak. segir, þá hafi það unnið óeigingjarnt og þarft verk, sem viðurkenningu eigi skilið. Ég get ekki hugsað mér það, að vér drögumst svo aftur úr vegna þröngsýni fárra síldveiðimanna, að vér útilokum flugferðir hér og það hagræði, sem af þeim leiðir, þótt allar aðrar þjóðir kappkosti að hagnýta sér þær og kosti til þess ærnu fé.

Ég álít, að hér sé í raun og veru verið að deila um keisarans skegg. Flugskatturinn er smámunir, sem skiptir engu fyrir framtíð síldarútvegsins. Hann stendur eða fellur jafnt skattsins vegna.

Ég furðaði mig einna mest á yfirlýsingu hv. frsm. minni hl. í ræðulokin. Ég held, að hún hafi ekki verið honum að öllu sjálfrað. Ég vil ekki trúa því, að hann ætli sér eða treystist að fá Norðlendinga yfirleitt til þess að vinna á móti því, að flugferðum verði haldið uppi hér á landi eins og annarsstaðar. Og þótt hann vildi leggja lið sitt til þess og hefja fór með nesti og nýja skó um allan Norðlendingafjórðung, þá trúi ég því ekki, að hann komi sigri hrósandi úr þeim leiðangri.

Ég skal ekki tefja tímann á því að fara út í hvert einstakt atriði í ræðu hv. frsm. minni hl. Hann kom víða við, og sumstaðar ómaklega. Það verður að ráðast, hvernig fer um málið. En slysni mikil væri það, ef nærsýn aurahyggja nokkurra síldveiðimanna spillti því tækifæri, sem nú hefir boðizt til eflingar flugferðum hér á landi, tækifæri, sem felur í sér meiri möguleika en vænta mátti af fyrstu tilraunum, sem af vanefnum voru gerðar.