30.04.1932
Neðri deild: 64. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1690 í B-deild Alþingistíðinda. (1730)

217. mál, flugmálasjóður Íslands

Frsm. minni hl. (Guðbrandur Ísberg):

Umr. eru orðnar langar og ég vil ógjarnan verða til þess að tefja fyrir afgreiðslu málsins héðan úr deildinni, og mun því reyna að vera stuttorður.

Hv. þm. Dal. var að bera saman þau rok, er ég flyt í þessu máli, við sín rök. Hans rök voru vottorð, sem höfðu verið útveguð. Er ekkert undarlegt við það, þó að slík vottorð sé hægt að fá, þegar gengið er á milli manna og þeir beðnir að gefa þau. Hið eina, sem einkennilegt er við það, er, að ekki skuli hafa fengizt miklu meira af slíkum vottorðum. Ekki sízt þegar þess er gætt, að eitt eða fleiri þessara vottorða munu vera fengin fyrir tveimur árum, eða áður en reynsla var fengin um gagnsleysi síldarflugsins. Og það er eftirtektarvert, að þessi vottorð eru ekki frá útgerðarmönnunum, sem eru einmitt þeir mennirnir, sem eiga hér hagsmuna að gæta. Mín rök eru þau, að ég flyt þetta frv. eftir ósk útgerðarmanna á Akureyri. Og ég veit, að allir aðrir síldarútgerðarmenn fylgjast þar að málum. Hv. þm. Ísaf. hefir lýst afstöðu sinna kjósenda til flugskattsins, sem krefjast þess, að hann verði afnuminn. Hv. 1. þm. Eyf. hefir flutt með mér þetta frv. eftir ósk sinna kjósenda. Hv. þm. N.-Ísf., sem sjálfur er útgerðarmaður og getur því úr flokki talað, hefir sagt sína skoðun á málinu og mælir með frv. Og í sama streng taka aðrir þeir, sem fylgja þessu frv. Sjálfur hefi ég engra persónulegra hagsmuna að gæta hvað þetta mál snertir, þar sem ég fæst ekkert við útgerð. En fyrir mér eru þessi rök langtum meira virði en þau rök, sem hv. þm. Dal. hefir flutt fram. Og svo hygg ég, að vera muni í augum allra skynbærra manna.

Hv. þm. Dal. var hneykslaður yfir því. að ég sagði, að hann hefði verið sendur með þessi plögg, er hann las upp, inn í þingið. Hann sagði, að það mætti líka segja um mig, að ég hefði verið sendur inn í þingið með þetta frv. Það má nú kannske segja sem svo. En ég hefi þó verið sjálfum mér samkvæmur í þessu máli, en hv. þm. Dal. var málinu fylgjandi við 2. umr. (Jónas)?: Ég var þá eigi viðstaddur). Hv. þm. greiddi þá atkv. með málinu, að viðhöfðu nafnakalli. (JónasÞ: Sú atkvgr. er þá ranglega bókuð, því ég var fjarstaddur). Þetta má athuga, en ef það er ekki rétt, að hv. þm. hafi greitt atkv. með frv. við 2. umr., þá misminnir mig mjög mikið.

Hv. þm. Barð. talaði rólega um málið og að því er virtist af sannfæringu. Met ég það mikils. Hann sagði, að ekki mætti innheimta flugskattinn af síldveiðimönnum nema með sérstökum skilyrðum viðvíkjandi síldarfluginu. En hvaða tryggingu hafa síldveiðimenn fyrir því, að þau skilyrði verði haldin frekar hér eftir en hingað til? Hvaða tryggingu hafa útgerðarmenn fyrir því, að eigi verði reynt að halda uppi síldarflugi með flugvélargarmi eitthvað af síldveiðitímanum og skatturinn svo innheimtur, þó skilyrðum laganna væri eigi fullnægt? Síðastl. sumar var t. d. haldið uppi síldarflugi í ca. 2 mán., en í flugskattslögunum er svo ákveðið, að síldarfluginu skuli haldið uppi í 3 mánuði, til þess að skattinn megi innheimta. Eigi að síður var skatturinn allur innheimtur fyrir það ár. Á sama hátt maí brjóta þessi ákvæði laganna áfram.

Hv. þm. sló því líka fram, að það væru engin rök gegn flugferðum, þó mótmæli gegn skattinum hefðu komið frá síldveiðaútgerðarmönnum. Þessi mótmæli hafa nú komið fram úr Norðurlandi, frá Ísafirði og úr Vestmannaeyjum. Ég veit nú ekki, hvaða rök á að flytja í þessu máli gegn flugskattinum, ef ekki almennt álit þeirra manna, er síldarflugið á að gera gagn. Og þeir mótmæla því eindregið, að flugið hafi komið þeim að nokkrum notum. Það er alveg rétt athugað hjá hv. þm. Borgf., að þó ekki hafi verið komizt hjá því að minnast á flug almennt í þessu sambandi, þá kemur það þó þessu máli í raun og veru ekkert við. Þótt flugferðir almennt skoðað væru æskilegar, sem vel getur verið að sé, þá er ekki rétt til þess að standa straum af þeim að skattleggja eina atvinnugrein landsmanna. Hinsvegar er það rétt, að ég fyrir mitt leyti lít ekki á flug almennt sem bráðnauðsynlegan hlut. Síður en svo.

Svo að ég víki aftur lauslega að samlíkingunni milli bíla og flugvéla, þá er hægt að segja, að til þess að hægt sé að nota bíla þurfi þrennt: Akfæra vegi, trausta og endingargóða bíla og nægan flutning. Þegar fyrst var gerð tilraun með bíla hér á landi, var þungaflutningsþörfin hið eina af þessum þremur skilyrðum, sem var fyrir hendi. Nú eru hin tvö skilyrðin líka fyrir hendi. Akfært vegakerfi er komið um flest héruð landsins, og bifreiðar eru nú búnar að ná þeirri fullkomnun, að heita má, að þær hafi ekkert breytzt síðari árin. Það eru því öll skilyrði fyrir hendi, sem gerir bílanotkun eðlilega og nauðsynlega. Til rekstrar flugvéla þarf aðeins 2 aðalskilyrði: Vandaða gerð og nægan fólks- og póstflutning. Gerð og öryggi flugvéla er enn mjög ábótavant, svo að þar þarf að bæta mikið um til þess að þær geti komið að verulegum notum hér á landi, a. m. k. ódýrari gerðir flugvéla, sem hér hafa verið notaðar. Þegar um stuttar vegalengdir er að ræða, þola flugvélar ekki samkeppni við bílana. Hér á landi yrði því eingöngu um langflug að ræða, en til þess að það geti borið sig, hlýtur að skorta á, að farþega- og póstflutningur fáist nægilega mikill. Veldur því fámennið. Flugvélum verður því ekki hægt að halda úti hér á landi nema með allríflegum styrk, eins og sú tilraun, sem hér var gerð, syndi. Og ef æskilegt þykir að halda uppi flugferðum, þá þarf að gera sér grein fyrir, hvað það kostar. Komi fram till. um fjárstyrk í þessu skyni, þá kemur fyrst til minna kasta og annara að meta, hve miklu rétt þykir að kosta til í þessu skyni. En hitt er með öllu óforsvaranlegt, að gera þá kröfu til einnar atvinnugreinar landsmanna, að hún leggi fram allan kostnaðinn án þess að nokkuð komi á móti, sem henni megi að gagni verða. Það er þetta, sem ég, og þeir aðrir, er frv. fylgja, mótmæla. Og það er um þetta, sem nú er barizt.