02.05.1932
Neðri deild: 65. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1706 í B-deild Alþingistíðinda. (1766)

288. mál, varnir gegn berklaveiki

Magnús Guðmundsson:

Það stendur í brtt. á þskj. 590, að berklaveikur sjúklingur geti „fengið ókeypis vist, lyf og læknishjálp (þar með taldar ljóslækningar) á heilsuhælum ríkisins og heim sjúkrahúsum, sem samið hefir verið við um að veita slíkum sjúklingum viðtöku“. Ég vil nú beina þeirri fyrirspurn til hv. flm., sem jafnframt er landlæknir, hver eigi að semja við sjúkrahúsin, hvort landlæknir eigi að gera það eða ríkisstj., eða hvort sjúkrahúsin eigi sjálf að leita eftir samningum um þetta. Ég vildi leggja þann skilning í till., að það sé meiningin, að semja megi við öll þau sjúkrahús, sem hafa venjuleg sjúkrahústæki og vel hæfan lækni, sem er fær um að gegna sínu starfi, svo framarlega sem þau sýna ekki óbilgirni í samningum. Það er langt frá, að ég amist við því, að gerðar séu þær ráðstafanir, sem unnt er að gera til þess að sporna við miklum kostnaði af sjúkrahúsvist berklasjúklinga, en ég vil fyrirbyggja það, að sjúkrahús, sem eru sanngjörn í samningum, séu útilokuð frá því að hafa þessa sjúklinga. Ég óska eftir skýrri yfirlýsingu frá hv. flm. sem landlækni um það, hvern skilning hann leggur í þessi ákvæði.