14.04.1932
Neðri deild: 51. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1736 í B-deild Alþingistíðinda. (1806)

35. mál, lækningaleyfi

Ólafur Thors:

Ég hefi enga aðstöðu til þess að dæma um þetta frv. sem sérfræðingur; það geta í raun og veru ekki aðrir en læknisfróðir menn. En ég hefi fengið ýmsar upplýsingar frá þeim og get sagt svo mikið, að það muni vera einróma skoðun læknisfróðra manna hér í bænum, að þetta mál sé mjög illa undirbúið. Læknar telja þess líka fulla von, því að hv. flm. frv., þm. Ísaf., hefir verið svo stuttan tíma í landlæknisstöðunni, að ekki er ástæða til, að hann hafi getað undirbúið málið svo sem þörf var á.

Læknadeild Háskóla Ísl. og stj. Læknafél. Ísl. hafa að vísu látið meðmæli sin fylgja þessu frv., en báðir þessir aðilar höfðu mjög nauman tíma til að athuga málið og munu við nánari athugun hafa seð, að mikið skorti á, að nægilega væri til undirbúningsins vandað. Ég vil vekja athygli á því, að meðal nágrannaþjóða okkar hafa mál eins og þetta hlotið langan undirbúning og mikið verið til hans vandað. f Danmörku var kosin nefnd, skipuð læknum og lögfræðingum, til þess að athuga og undirbúa slíka löggjöf, og hefir hún setið að störfum frá 1928 þangað til nú nýverið, að hún skilaði frá sér mjög ýtarlegu áliti. Þó hefir það valdið nokkrum ágreiningi og deilum meðal sérfræðinga í Danmörku. Þess vegna held ég, að það sé ástæða til þess fyrir hv. þdm. að íhuga, hvort ekki sé nauðsynlegt, að þetta mál verði athugað nánar og betur undirbúið. Ég vil leiða athygli hv. þdm. að því, að Læknafél. Rvíkur hélt fund hér í bænum fyrir nokkru með félagsmönnum til þess að ræða þetta frv., og voru þar mættir nálega allir þekktustu Læknar bæjarins. Ég get nefnt nokkur nöfn þeirra lækna, sem þar voru: Guðm. Hannesson, Matthías Einarsson, Halldór Hansen, Helgi Tómasson, Valtýr Albertsson, Jón Hj. Sigurðsson, Gunnl. Claessen, Guðm. Thoroddsen o. fl. o. fl. af þekktustu og beztu læknum landsins. Allir, sem staddir voru á fundinum, greiddu atkv. með því að skora á Alþ. afgr. ekki á þessu þingi frv. það, sem hér liggur fyrir; heldur skipa n. til þess að athuga það betur og búa undir næsta þing. Vildi læknafundurinn, að í þessari n. væru 1 sérfróður læknir, 1 almennur læknir og 3 aðrir menn, og skyldi n. vinna kauplaust. þetta sýnist vera mjög sanngjörn og réttlát krafa. Þegar málið er þannig vaæið, að fæstir þm bera nokkurt skyn á það, og að vitað er, að aðrar þjóðir hafa vandað mjög til undirbúnings slíkrar löggjafar, en að hér hefir einn maður undirbúið það á mjög stuttum tíma, þá sé ég ekki, að hjá því verði komizt að taka svo mikið tillit til læknastéttarinnar, þeirra manna, sem hafa bezt vit á þessu máli, að Alþ. verði við ósk þeirra og fresti því um eitt ár að setja löggjöf um þessi efni. Ég er vitaskuld ekki fær til þess að dæma um, í hverju veilur þessa frv. eru fólgnar, en ég vil þó leyfa mér að nefna sem dæmi ákvæði 10. gr. frv., en samkv. því er öllum læknum landsins gert að skyldu, ef svo ber undir, að bera vitni fyrir rétti í málum, sem snerta sjúklinga þeirra. Ég get hugsað mér, að nauðsynlegt sé að lögfesta þetta, en miklir annmarkar eru því að lögskylda slíkt. Það, sem fram fer á milli læknis og sjúklings, eru oft slík einkamal, að læknir á aldrei að fara með þau fyrir rétt. Og hvort sem slíkt ákvæði er í eldri lögum eða ekki, er fullt íhugunarefni, hvað réttlátt er og viturlegt að lögbjóða á því sviði. Ég vil benda á, að það er engum vafa undirorpið, að það getur verið stórhættulegt að láta skyldu læknanna til að segja allt um sjúklinga sína vera algerlega ótakmarkaða. Það getur leitt til þess, að sjúklingur segi læknum sínum ekki allt um sína hagi, heldur leyni þá ýmsu, sem þó getur verið nauðsyn fyrir þá að vita.

Hv. 2. þm. Reykv. fann ástæðu til að geta um ákvæði 13. gr. frv. og gera þau að umtalsefni. Ég get tekið undir það, sem hann sagði. mér hefir verið sagt, að praktiserandi læknar seldu störf sin hvergi ódýrara en á Íslandi, og þó hefir hvergi annarsstaðar þótt ástæða til að lögfesta almenna gjaldskrá fyrir störf þeirra, nema fyrir vottorð, sem þeim er skylt að gefa í þágu hins opinbera. Ég ber ekki ábyrgð á þessu, hvort satt reynist, en kunnugir menn hafa skýrt mér þannig frá, og ráðvendni þeirra þekki ég vel. Hinsvegar vil ég benda á, að varhugavert geti verið að lögfesta gjöld fyrir viðtöl við lækna. Eins og hv. flm. frv. veit, þá geta slík viðtöl verið misjafnlega löng, stundum aðeins 5 mín., en stundum allt að 2 klst. Það getur orðið freisting fyrir lækna að hafa viðtalsbilin sem stytzt og sem flest, ef sama gjald er fyrir hvert viðtal.

Í 11. gr. frv. segir svo: „Nú verður læknir þess vísari vegna starfsemi sinnar sem læknir, að heilsufari manns er þannig háttað, andlega eða líkamlega, að öðrum stafar bein lífshætta af honum eða yfirvofandi heilsutjón, og ber þá lækninum að leitast við að afstýra hættunni með því að snúa sér til viðkomanda sjálfs eða, ef nauðsyn krefur, til heilbrigðisstjórnarinnar“. Ég býst við, að þetta sé nýmæli, en mér er sagt, að þessi gr. sé tekin eftir frv. dönsku n., og það mun sérstaklega vera á það hent í grg. þessa frv. En hv. flm. virðist ekki hafa haft álit og till. dönsku n. við hendina, þegar hann þýddi þetta frv., því að þar er tekið dýpra í árinni og beint tekið fram í nál. dönsku mþn., að lækni sé auk þessa gert að skyldu að gera heilbrigðisstj. aðvart, ef hann álítur, að almenningsheill eða „ökonomiske Interesser“ annara manna stafi hætta af andlegu ástandi viðkomandi súklings. (V.J: Má ég sjá bókina?). Ég hefi hana ekki við hendina. En ef hv. flm. hefir lesið bókina, þá hefir hann vafalaust séð bar talað um almenningsheill og „ökonomiske Interresser“. Ég tel mig ekki sérstaklega bæran til þess að rannsaka þetta mál eða dæma um það, og skortir þar mikið á, en ekki meira en aðra hv. þdm. yfirleitt. Og ef þeir menn, sem bezt skyn bera á þessi mál, hafa misjafnar skoðanir á þeim og greinir á um mikilsverð atriði, þá tel ég sjálfsagt að verða við áskorun Læknafél. Rvíkur og afgr. frv. ekki á þessu þingi. Að sjálfsögðu á slík löggjöf að ganga fram síðar, en ég hygg, að jafnvel hv. flm. játi það sjálfur, að enginn voði muni af því stafa, þó að afgreiðsla n. tefjist um eitt ár, og hann mun líka játa það, að þess var tæpast að vænta, að honum tækist á svo skömmum tíma að undirbúa þetta mál sem skyldi.