19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1777 í B-deild Alþingistíðinda. (1827)

35. mál, lækningaleyfi

Magnús Guðmundsson:

Hv. flm. viðurkenndi, að sá skilningur minn á 16. gr. frv. væri réttur, að manni, sem hefði tannpínu og hita og færi til tannlæknis. yrði eftir frv. vísað frá, af því að hann hefði hita, og yrði hann því fyrst að fara til annars læknis og fá ávísun hjá honum til tannlæknisins. Þetta ber ekki vott um, að frv. sé svo gagnhugsað sem æskilegt væri, enda var það auðfundið, að hv. flm. vildi lítt kannast við þetta ákvæði sem sitt eigið, heldur hefði það verið tekið upp í frv. eftir áeggjan annara, en ég get ekki seð, að ákvæðið sé neitt betra fyrir það, þó að hann hafi ekki samið það sjálfur. Það getur vel verið, að læknar vilji fá til sín sem flesta sjúklinga til þess að geta tekið af þeim gjöld, þó að ekki sé nema fyrir það að vísa þeim til annars læknis. en það er engin ástæða til að lögfesta slíkt.

Út af 13. gr., um borgun til lækna, skal ég taka það fram, að mér skilst, að eftir henni sé lagt í hendur landlæknis vald til að ákveða það. Þar stendur svo, að náist ekki samningar, þá skuli landlæknir semja gjaldskrá, er heilbrigðisstj. Síðan staðfesti. Eftir þessu lítur út fyrir, að heilbrigðismrh. sé skyldugur til að staðfesta hvað sem landlækni þóknast að setja. (VJ: Nei). Þá er greinin ógreinilega orðuð, því að eftir orðalagi hennar litur út fyrir, að ráðh. eigi ekkert að gera nema að staðfesta það, sem landlæknir ákveður. Hv. flm. ætlar þannig að gera sig að dómara í þessum launadeilum milli lækna og almennings, eða m. ö. o. gerðardómara í vinnudeilum, og satt að segja finnst mér hans flokkur ekki hafa tekið því svo vel, þegar eitt sinn atti að setja gerðardómara í vinnudeilum, að það sitji vel á honum að stinga upp á sjálfum sér sem dómara í slíkum málum.

Ég vil svo að endingu taka undir það, að mér finnst það engin goðgá, þó að þessu máli sé frestað um eitt ár, en meira er ekki farið fram á. mér skilst, að í frv. séu ýms þau atriði, sem ekki hafa fengið nægilega athugun og undirbúning, og því er það eðlilegt, að farið sé fram á, að málið sé látið bíða í nokkurn tíma, svo að hægt sé að athuga það nægilega.