19.04.1932
Neðri deild: 55. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1780 í B-deild Alþingistíðinda. (1832)

35. mál, lækningaleyfi

Vilmundur Jónsson:

Ég vil mótmæla því, sem hv. þm. G.-K. sagði og bar læknana fyrir, að í þetta frv. vantaði mörg atriði. Ég hefi rætt þetta frv. við þá á löngum fundi, sem stóð fram á nótt, og kom þar ekkert fram í þessa átt. Ef nokkrir læknar hafa sagt þetta, hafa þeir í ákafa sínum sagt meira en þeir geta staðið við. Þetta er svo ákaflega óráðvandleg fjarstæða, að ég trúi því ekki, að það sé frá þeim mönnum, sem tilnefndir hafa verið. Ég veit, án þess að nokkur þurfi að segja mér það, að hvorki Guðm. Thoroddsen né Gunnl. Claessen hafa komið nálægt því að semja þau mótmæli, sem hér hafa verið flutt.

Hv. þm. segir enn, að örfá ný atriði hafi verið tekin upp í þetta frv., það sé samsafn úr öðrum lögum. Hvaða lögum? Það eru engin önnur lög til um það meginefni, sem frv. fjallar um. Ég skora á hv. þm. G.-K. að benda á, hvaða lög það eru, sem þetta frv. er samsafn af. Ég veit, að hann getur það ekki, því að hann segir þetta alveg út í bláinn. Það eru til ein lög svipaðs efnis frá 1911, sem eru aðeins á einni bls. í Stjtíð. Og þó les hv. þm. upp úr bréfi frá Læknafél. Rvíkur, að í þessu frv. „sé aðeins safnað saman í eina heild nokkrum sundurlausum lögum án þess að laga ýmsa þá vankanta, sem nú eru á löggjöfinni, eða flytja nokkur þau nýmæli, er bæti úr svo brýnni þörf, að nokkru máli skipti, hvort það verði að logum á þessu þingi“. Ég fullyrði, að læknarnir geta alls ekki staðið við neitt af þessu, hér er ekki um safn gamalla lagafyrirmæla að ræða, heldur þvert á móti mörg nýmæli, svo að segja í hverri gr. frv. og mörg í sumum þeirra. Ég hefi þeirra eigin orð fyrir því frá fundi þeirra, þar sem rætt var um frv., að flest af nýmælum frv. væru góð, jafnvel ágæt. Þeim kom yfirleitt saman um, að frv. væri gott, nema eitt atriði, sem þeir felldu sig ekki við, og það var gjaldskráin. Þess vegna vilja þeir geyma frv. um óákveðinn tíma, fórna öllu því, sem þeir telja gott í því, og láta það sofna.

Þá vil ég svara hv. 2. þm. Skagf. örfáum orðum. Hann heldur, að þetta ákvæð, sem hann talaði um, hafi komizt inn í 16. gr. frv., af því málið hafi verið of lítið hugsað, en ég get fullvissað hann um, að þetta er komið inn í gr., af því að mikið hefir verið um það hugsað. Ég var ekki fyrstur til að koma auga á þennan varnagla og hafði hann ekki í mínu upphaflega frv., en þeir læknar, sem litu yfir það á eftir mér, bentu mér á þetta og þá gat ég fallizt á það.

Þá er það orðalagið á ákvaeði 13. gr., um það, ef ekki nást samningar við stjéttarfél. lækna, samkv. ákvæðum gr., „ og semur þá landlæknir gjaldskrá, er ráðherra staðfestir“. Ég hygg, að þetta verði ekki misskilið og að það sé venjum samkvæmt, að ráðherra eigi aðeins að staðfesta slíka gjaldskrá, hann á ekki að semja hana, það verður sérfræðingurinn að gera, sá, sem ráðh. á að snúa sér til, og í þessu efni er það landlæknir. En ráðh. staðfestir auðvitað ekki nema það, sem hann getur fellt sig við, og heimtar breyt. eins og honum sýnist. Hv. 2. þm. Skagf, taldi, að það væri ósamræmi í því hjá mér að vilja setja embættislausum læknum gjaldskrá til að fara eftir, nema ég væri fylgjandi gerðardómi í vinnudeilum. Þvert á móti, það er svo langt frá því, að þar sé nokkurt ósamræmi í skoðunum mínum. Ég er á móti gerðardómi í vinnudeilum verkamanna og atvinnurekanda, af því að öðrum megin í þeim deilum standa örfáir iðjuhöldar með peningavaldið á bak við sig, en hinum megin svo að segja allur almenningur, sem á undir högg að sækja atvinnuna og kaupið. En hinsvegar, þegar um er að ræða fámenna stétt, læknastéttina, ca. 100 menn á öllu landinu, sem eiga að fá sitt kaup hjá almenningi og fjöldinn verður að skipta við, þá vil ég hafa gerðardóm til stuðnings alþýðu manna. Það verður að gæta þess, að hér er um fámenna stétt að ræða, sem hefir mikið vald og stendur allra manna bezt að vígi til að beita því, ef hún vill, en hinsvegar er öll þjóðin, sem á undir högg að sækja við þessa stétt, ef svo býður við að horfa. Þess vegna er bæði sjálfsagt og nauðsynlegt að setja fastar reglur eða gjaldskrá um viðskipti þessara aðilja. Þegar verkamenn í landinu eru orðnir jafnfáir og læknar eru nú, og standa jafnvel að vígi og þeir með að skammta sér kaup, en viðskiptamenn þeirra hinsvegar öll alþýða lítilsmegandi, þá skal ég verða fylgjandi gjaldskrá og gerðardómi í vinnudeilum við þá fámennu, voldugu verkamannastétt.

Það er ekki af því að mig langi til að taka þátt í gerðardómi gagnvart læknunum, að ég hefi sett þetta ákvæði í frv. og berst fyrir því. Síður en svo. En af því að ég gegni þeirri stöðu, sem þetta heyrir undir, verður að taka því.