09.05.1932
Efri deild: 70. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1815 í B-deild Alþingistíðinda. (1861)

35. mál, lækningaleyfi

Jón Þorláksson [óyfirl.]:

Hv. 2. þm. Eyf. taldi, að 4 af 5, er hreyft hefðu mótmælum gegn gjaldskránni, hefðu átt að geta sparað ræður sínar, því þær hefðu ekki meiri áhrif en þótt aðeins einn okkar hefði talað, en ég vil benda honum á, að þó að hann sé ekki nema sá þriðji, sem talar með gjaldskránni, þá hefði ekki síður verið ástæða fyrir hann að spara sína ræðu.

Hv. þm. sagði, að það væri ekki hægt að tala um listaverk í sambandi við það, að sjúklingur leitaði til læknis. Mér skilst á þessu, að hann vilji halda því fram, að listaverk megi ekki nefna á nafn hér í hv. Ed. Alþingis. Hann virtist ekki skilja, að það sé samband milli listarinnar og starfs læknanna; ég vil þó ekki segja, að þetta stafi af vitleysu hjá hv. þm. Ég get ekki betur séð en að hér sé einmitt um mjög náið samband að ræða. Störf læknanna eru ákaflega mörg þess eðlis, að það má segja, að þau séu á takmörkum listar og vinnu.

Hv. þm. hélt því fram, að því er mér skildist, að það nálgaðist vitleysu að halda því fram, að sjúklingur gæti leitað úrskurðar um greiðslukröfu læknis. Sjúklingur kæmi ekki með þeim hug til læknis síns, að hann gæti farið að þrefa við hann um borgunina. Ég veit ekki, hver tízka er í héraði hv. 2. þm. Eyf., en alstaðar þar, sem ég þekki til, er það ekki síður að semja við lækni um borgun um leið og hans er vitjað. Ég hefi aldrei vitað aðra aðferð í því efni en þá, að læknir sendi reikning, þegar sjúkdómurinn væri um garð genginn og sjúklingurinn annaðhvort orðinn heilbrigður eða dáinn. Þessir reikningar eru svo eins og aðrir reikningar sendir þeim, sem eiga að greiða þá, og það er ekki nærri því alltaf sjúklingurinn, sem á að greiða hann, það getur verið dánarbúi hans eða fílhraustur húsbóndi eða einhver annar. Og því skyldi þá ekki geta þótt ástæða til að gera aths. við reikninginn alveg eins og hvern annan reikning, ef hann væri ósanngjarn? ég veit nú bara hreint ekki, hvað ég á að hugsa um hv. þm., þegar hann álítur það vitleysu að gera ráð fyrir því, að leitað verði úrskurðar um slíka reikninga. Ég get ekki betur séð en að það sé ekki nema eðlilegt, að leitað verði úrskurðar um slíkan ágreining alveg eins og hvern annan ágreining, og að hið opinbera eðlilega geri skynsamlegar ráðstafanir til þess að skera úr í þeim efnum eins og öðrum, hvort sem það væri gert með fyrirfram settum ágreiningstaxta eða á annan hátt.

Ég álít, að það sé ekki rétt að binda hendur lækna með því að banna þeim að taka meira en gjaldskrá heimilar hjá efnamönnum, sem gjarnan vildu borga meira. Ég skil ekki, að allir hljóti ekki að sjá, að afleiðingin verður sú, að læknar verða að ganga harðara að fátæklingum um borgun heldur en verið hefir. Mér er ekki fullkunnug um það, hvernig læknum gengur að innheimta fyrir sín störf, en þó hygg ég, að ekki fari fjarri því, að þeir muni tapa sem svarar 1/3 af því, sem þeir vinna fyrir. Það er kunnugt, að læknar gera aldrei frekari kröfu en þær að senda reikninga og láta menn svo sjálfráða um að borga. Ég held, að þetta hljóti að breytast, ef taxti verður settur, breytast þannig, að læknar telji sig verða að ganga ríkara eftir við almenning en áður.

Ég geri ráð fyrir, að það sé rétt hjá hv. 2. þm. Eyf., að bæði hann og hans flokksmenn hér í hv. d. séu ráðnir í því, hvernig þeir greiða atkv. um 13. gr., en ég ætlast þó til, að eyrun á hv. þm. séu svo nærri réttum stað, að hann skilji það, að ef hann greiðir atkv. með þessari gr., er hann með því að leggja út á braut, sem ég tel vafasamt, að hann vilji fylgja áfram.