22.04.1932
Efri deild: 57. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1857 í B-deild Alþingistíðinda. (1947)

404. mál, fasteignalánafélög

Frsm. (Jón Þorláksson):

Ég vil lýsa yfir því, að frv. er borið fram sem hreint skipulagsmál, án þess að nokkur félagsskapur liggi fyrir. Í grg. frv. er vikið að ástæðum fyrir því, að það er borið fram. En ég get bætt því við, að þar, sem er komið skipulag á fasteignalánastarfsemi, hefir alstaðar reynzt svo, að auk 1. veðréttar lána hefir reynzt óhjákvæmilegt að mynda félög til að koma skipulagi á 2. veðréttar lán. Ég hygg, að lagaheimild sem þessi ýti undir stofnun slíkra lánsfélaga hér. Ég ætla, að hér sé eins ástatt og í Danmörku, að hentugast sé, að þessi lánsfélög, sem þar eru kölluð „Hypotekforeninger“, nái ekki yfir mjög stór svæði, heldur t. d. einn kaupstað og umhverfi hans.

Í þessu frv. er ekki verið að tala um að útvega fjármagn. Hér er aðeins um heimild að ræða, sem er allt annars eðlis en heimild sú, sem veitt var lánsfélagi 1928. Það lánsfélag bættist inn á sama svið og veðdeild Landsbankans og Búnaðarbankinn. Á því sviði var fullkomin ástæða til að hafa gat á að gefa ekki heimild, nema fyrir lægi möguleikar um fjármagn. Hér er hins vegar um það að ræða að færa út verksvið skipulagsins eins og það þarf að vera til þess að fasteignalöggjöfin verði viðunandi. Ég hygg því, að engin ástæða sé til þess að áskilja það, að félagið verði stofnað áður.

Mér er nokkuð kunnugt um, hvernig ástandið er í þessum efnum hér í Rvík. Flestir hafa þurft 2. veðréttar lán til viðbótar við 1. veðréttar lánin úr veðdeild Landsbankans eða stofnunarsjóði. Menn hafa venjulega fengið þetta fé, af því að peningarnir eru til, en orðið að sæta okurkjörum, jafnvel gjalda 20% ársvexti gegn öðum veðrétti og fullri tryggingu. Ég álít, að löggjafarvaldið eigi að stuðla að því, að menn þurfi ekki að sæta slíkum kjörum. Hér er ekki verið að tala um að útvega fjármagn, heldur að búa svo um hnútana, að menn þurfi ekki að sæta okurkjörum, þegar nóg fjármagn er til í landinu til tryggra lána.

Þá talaði hv. 2. landsk. um nauðsyn þess að koma veðdeild Landsbankans í starfræksluhorf. Nú hefir aðalkaupandi veðdeildarbréfanna, Landsbankinn, dregið sig í hlé, svo að menn verða að selja þau sjálfir eftir því sem bezt gengur. Nú munu menn yfirleitt ekki fá meira en 75% fyrir bréfin, en ekki veit ég til, að þau hafi farið niður fyrir 70%. Má segja, að þetta sé óviðunandi, en þó vafasamt, hvort þetta verð er ekki í samræmi við þá þröng, sem kreppunni fylgir.

Ég álít, að af hálfu löggjafarvaldsins liggi fyrir allt, sem þarf til þess að koma starfsemi veðdeildarinnar í það horf, sem peningamarkaðurinn leyfir á hverjum tíma. Með lögum um ríkisveðbanka er allt það gert, sem löggjafarvaldið getur gert til þess að veðdeild Landsbankans og Búnaðarbankans geti útvegað sér lánsfé. Ef gera á eitthvað frekara í því efni, verður það að vera banka- og stjórnarframkvæmdir. Hitt sporið, að stofna 2. veðréttar lánafélög, er hinsvegar ekki hægt að stíga, fyrr en löggjafarvaldið hefir stigið fyrsta sporið, eins og til er ætlazt með þessu frv.

Við síðustu bæjarstjórnarkosningar fyrir tveim árum hélt einn góður borgari, sem var kosinn af Framsóknarflokknum, því fram, að hið fyrsta, sem fyrir lægi, væri að koma skipulagi á 2. veðréttar lán til húsabygginga. Síðan hefir ekkert verið gert í þessu efni, og fyrsta sporið er að fá slíka lagaheimild. Ég vil því vona, að hv. 2. landsk. setji sig ekki á móti frv., þótt enginn undirbúningur sé um öflun fjármagns.