20.05.1932
Efri deild: 79. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1960 í B-deild Alþingistíðinda. (2178)

528. mál, reksrarlán fyrir Útvegsbanka Íslands h/f

Jakob Möller [óyfirl.]:

Hæstv. dómsmrh. segir aldrei hafa skuldað Íslandsbanka, og hafi bankinn því engu tapað á sér, eða hann orðið valdur að því, að svona er komið fyrir bankanum. Benti hæstv. ráðh. í þessu sambandi á það, að töp bankans hefðu numið yfir 20 millj. kr., og skal ég ekki deila um það, hvort þetta er sú nákvæmlega tala eða ekki, en ég hygg hinsvegar, að ef töp Íslandsbanka eru borin saman við töp Landsbankans á þessum sama tíma, mundi niðurstaðan verða sú, að töp Íslandsbanka væru ekki hlutfallslega miklu meiri en töp Landsbankans, samanborið við viðskiptaveltu þessara tveggja banka. Og þá er spurningin, hvernig á því stendur, að Íslandsbanki varið að hætta, en Landsbankinn hinsvegar gat haldið áfram. — Er þeirri spurningu auðsvarað. Hæstv. dómsmrh. veit ósköp vel, að þetta kom til af því, að jafnhliða því, sem Íslandsbanki varð fyrir töpum í viðskiptum sínum eins og Landsbankinn, var bankinn látinn tapa á öðru sviði fyrir forgöngu hæstv. ráðh. sjálfs, sem linnti ekki látum með að veikja traust bankans, unz svo fór, að menn tóku inneignir sínar út úr bankanum og fluttu þær yfir í Landsbankann. Með þessu starfi sínu tókst hæstv. ráðh. að veikja Íslandsbanka meira og meira með hverju ári, og niðurstaðan af þessu starfi hæstv. ráðh. varð að lokum sú, að bankinn gat ekki staðið undir töpum sínum, og færðust þau að nokkru leyti yfir á ríkið. Hæstv. fjmrh. hefir hér réttilega minnt á það, að í öðrum siðuðum löndum væri það talin skylda að vinna að því að halda uppi bankastofnunum, og er mönnum gott að hafa þetta í huga til samanburðar, þegar þeir minnast þess, að aðalstarf hæstv. dómsmrh. hefir verið í því fólgið að reyna að eyðileggja bankastofnanirnar í landinu.

Hæstv. dómsmrh. minntist enn á starf mitt sem eftirlitsmanns, og sannaði nú óvart, að rétt var það, sem ég hélt fram, að því er ekki þann veg háttað, að ætlazt hafi verið til, að ég bæri ábyrgð á lánveitingum bankans. Það var nefnilega rétt hjá hæstv. ráðh., að þetta embætti var stofnað upp af till., sem flutt var hér í þinginu á sínum tíma um að skipa n. til að rannsaka hag bankans, og geri ég ekki ráð fyrir því, að jafnvel hæstv. dómsmrh. hafi litið svo á, að þeirri hafi verið ætlað að bera ábyrgð á stj. bankans og lánveitingum hans.

Þá gat hæstv. dómsmrh. þess, að ekkert hefði vitnazt um ástæður Stefans Th. Jónssonar fyrr en sumarið 1929, er ég var forfallaður frá starfi mínu og annar maður var sendur í forföllum mínum til þess að skoða útibúið á Seyðisfirði. Þetta veit ég, að hæstv. dómsmrh. segir visvítandi ósatt, því að ég hafði áður átt tal við hann sjálfan um þetta efni, og ekki aðeins hann, heldur og einnig aðra ráðh. í þáv. stj.