30.03.1932
Efri deild: 38. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 1987 í B-deild Alþingistíðinda. (2234)

62. mál, kirkjugarðar

Frsm. (Jón Jónsson):

Ég vil segja nokkur orð út af aths. hv. 2. þm. Eyf.

Hv. þm. fannst það óeðlilegt, að sveitar- og bæjarfélög væru skylduð til að greiða kostnaðinn á framkvæmdum vegna kirkjugarðanna. Fæ ég ekki séð, að neitt sé við þetta að athuga, þegar litið er til þess, að fleiri eiga rétt til legs í kirkjugarði en þeir einir, sem í hlutaðeigandi söfnuði eru. Allir íbúar sveitar- og bæjarfélaga eiga jafnan rétt til legs í kirkjugarði, enda þótt þeir séu ekki í söfnuðinum, heldur utansafnaðarmenn, og er því eðlilegt í alla staði, að sveitar- og bæjarfélögum sé gert að greiða þetta, og enda um litið framlag að ræða, og auk þess í eitt skipti fyrir lengri tíma.

Þá drap hv. þm. á það, að það orkaði tvímælis, samkv. 5. gr. frv., hver ætti að setja klukku í sáluhlið kirkjugarðs, ef til slíks kæmi. Er þetta svo lítið atriði, að varla tekur því að vera að ræða það, en það ætti ekki að verða söfnuðinum dýrt að koma upp slíkri klukku, ekki veglegri en þessar klukkur eru venjulegast.

Hv. þm. þótti of miklar kvaðir lagðar á skógræktarstjórn og ræktunarstöðvar með 15. gr. frv. Sýnist mér það vera sjálfsagt að skylda skógræktarstjórnina til að láta sóknarn. í té ókeypis trjáplöntur til gróðursetningar meðfram girðingum kirkjugarðanna og kem ekki auga á neitt, sem á móti því gæti mælt, en að því er ræktunarstöðvarnar snertir, þá tekur þetta aðeins til þeirra ræktunarstöðva, sem njóta styrks af opinberu fé, og enda til þess ætlazt, að þær taki gjald fyrir þar blómplöntur, sem þær þannig láta af hendi, og aðeins settar skorður við því, að ræktunarstoðvarnar okri á þessu. Virðist mér þetta vera sanngjarnt í alla staði, og fjarri því, að hér sé um neinar þungbærar kvaðir að ræða. Ég vænti þess því, að hv. d. sjái sér fært að samþ. frv. engu að síður, þar sem ekki hafa komið fram veigameiri aths. við frv., enda hefir hv. 2. þm. Eyf. sjálfum ekki fundizt þessi atriði svo stórvægileg, að hann hafi fundið ástæðu til að bera fram brtt. við frv. í þessa átt.

Út af brtt. hæstv. dómsmrh. vil ég taka það fram, að einstakir nm. hafa óbundin atkv. um hana, en það er þó álit n., að ekki sé ástæða til að hlynna að slíkum heimagrafreitum og að rétt sé að setja svo ströng skilyrði nm. þá, að sæmileg trygging sé fyrir því, að þeim verði haldið vel við. Þykir mér sú upphæð, sem samkv. till. hæstv. dómsmrh. á að vera til tryggingar fyrir viðhaldi heimagrafreitanna, allt of lág, og sé mér því ekki fært að greiða henni atkv.

Ég hefi svo þessi orð ekki fleiri, og vil aðeins að lokum endurtaka þá ósk mína, að þær aths, sem fram hafa komið við frv., hafi ekki áhrif á framgang málsins, enda eru þær allar veigalitlar, eins og ég hefi ljóst.