26.05.1932
Efri deild: 84. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 2084 í B-deild Alþingistíðinda. (2384)

645. mál, lántaka fyrir ríkissjóð

Dómsmrh. (Jónas Jónsson) [óyfirl.]:

Það skiptir ekki miklu máli í sambandi við það mál, sem hér liggur fyrir, sú fyndni, sem mér skilst hv. 2. landsk. vera með hér. Ég vildi segja nokkur orð um till. hv. 1. landsk., af því ég er eitt af þeim fáu vitnum, sem sáu og heyrðu á staðnum þá erfiðleika, sem það leiddi af sér, að lánsheimild var orðuð eins og hér er farið fram á. Mér finnst í sjálfu sér eðlilegt. þegar gerð er lánsheimild eins og sú, sem hér er um að ræða, að í henni standi ákvæði eins og þau, sem felast í brtt. hv. 1. landsk., og fyrst þegar ég sá hana, áður en ég fór að rifja upp eldri tilfelli, fannst mér ekki nema rétt að samþ. hana. Ég er alveg samdóma hv. 1. landsk. um það, að það væri algerlega óhafandi af stj. að taka lánið með fölskum forsendum og gera það að eyðsluláni. En ég held, að þau rök, sem hv. 2. landsk. bar hér fram fyrir því, að við slíku þurfi ekki að búast, séu tæmandi. Það gæti e. t. v. komið fyrir einu sinni á heilli öld, að menn í ráðherrastöðu misnotuðu þannig aðstoðu sína. (JónÞ: Og það hefir svo nýlega komið fyrir hér, að ekki er von á því strax aftur!). Ég veit ekki til, að hv. tillögumaður, sem helzt mundi freistast til slíkra hluta, hafi neitt brotið af sér á þann hatt.

En það, sem ég vildi sérstaklega benda á, er það, að einmitt sá banki í London, sem bráðabirgðalánið er hjá, Barclay's Bank, hafði nokkurn undirbúning með það árið 1930 að standa fyrir því láni, sem Hambro's Bank síðan tók fvrir íslendinga. Þeir, sem fyrir þeim banka standa, eru á meðal þeirra fjármálamanna í London, sem mest traust hafa. Og þeir töldu, að það mundi alltaf orka tvímælis um sölu skuldabréfanna, ef í lánsheimildinni væru skilyði, sem handhafar bréfanna hafa í raun og veru enga tryggingu fyrir, að yrðu uppfyllt. Lögunum um lánsheimildina var svo breytt, ekki af því, eins og hv. tillm. sagði, að fjármálastj. Íslands væri komin til London, heldur af því, að íslendingar urðu, eins og allir, sem viðskipti hafa við aðrar þjóðir, að taka sanngjarnt tillit til hins aðiljans. Í þessu tilfelli hafði hinn aðilinn enga ástæðu til þess að tortryggja það, að farið yrði með lánið eins og tilskilið var. Það er aðeins af formlegum ástæðum, að þeir stórbankar, sem venjulega annast slíkar lántökur, vilja ekki taka ábyrgð á skilyrðum, sem þá skortir kunnugleika og aðstöðu til þess að líta eftir, hvernig eru uppfyllt.

Sem sagt er ég öllu efni og innihaldi till. hv. 1. landsk, samþykkur, en tel samkv. þeirri reynslu, sem fengin er af slíkum hlutum, að það yrði til skaða að gera lánsheimildina úr garði eins og þar er gert ráð fyrir. (JónÞ: það yrði kannske ekki samþ. í London! ).