17.05.1932
Neðri deild: 76. fundur, 45. löggjafarþing.
Sjá dálk 631 í B-deild Alþingistíðinda. (248)

2. mál, fjáraukalög 1930

Magnús Guðmundsson:

Ég man ekki til þess, að ég hafi sagt það, að ég ætlaði að greiða atkv. gegn frv., en það er eins og hv. 1. þm. N.-Múl. sé að vara mig við því fyrirfram að greiða nú ekki atkv. öðruvísi en hann í þessu máli. Ég skal lofa honum því, að taka þessa ráðleggingu til rækilegrar athugunar, en meira get ég ekki lofað honum.

Hv. þm. finnst ég hafa bundið mig til þess að samþ. fjáraukalagafrv. með því sem yfirskoðunarmaður að leggja til, að leitað verði aukafjárveitingar fyrir fjölda umframgreiðslna, sem svo er gert í þessu frv., en þetta er mesti misskilningur. Þegar yfirskoðunarmenn leggja til, að einhver upphæð sé sett í fjáraukalög, þá þýðir það, að upphæðin hafi verið greidd án heimildar þingsins, og því þurfi að leita greiðsluheimildar vegna þeirrar upphæðar. Það er svo annað mál, hvort þingið veitir þá heimild eða ekki. Þar hefir hver þm. óbundið atkv.

Út af því, sem hv. þm. minntist á afstöðu mína til fjáraukal. í fyrra, þá skal ég upplýsa það, að ég bar þá einmitt fram brtt. við LR. 1929, sem nam rúmlega 1 millj. kr., en hún var felld, og eftir það hafði ég auðvitað óbundið atkv. gagnvart fjáraukal., vegna þess að ég hafði sett það sem skilyrði fyrir atkv. mínu með frv., að brtt. mín við LR. yrði samþ.

Hv. þm. var að tala um, að fjáraukal. 1925 hefðu orðið 1,7 millj. kr., en hvað er það samanborið við það, sem nú er, þegar þau eru á sjöttu millj. kr., og þar fyrir utan eru aukaútgjöld ríkissjóðs á árinu, sem hvorki eru í fjárl. eða fjáraukal., ekki minni en 8 millj. kr. (HJ: Þetta er ekki rétt). Það er skrítið. Hljóða ekki fjárl. upp á 12 millj. kr., fjáraukalög 5 millj., en landsreikningur næstum 25,8 millj.? (HJ: Eru það allt útgjöld?). Nei ekki alveg, en á LR. eru t. d. engin útgjöld færð, hvorki vegna landssímastöðvarinnar eða útvarpsins. (HJ: Hver verður þá útkoman?). Eins og ég sagði. (HJ: Það er ósatt). Nei, það er satt.

Hv. frsm. meiri hl. sagði, að hækkunin á þeim fjáraukal., sem hér liggja fyrir, miðað við fjáraukalög fyrri ára, væri ekki nema stigmunur. Það má e. t. v. segja, að það sé ekki nema stigmunur að stela 1 eldspýtu og stela 1 millj. kr.; Það getur vel verið, að ráð sé ekki nema stigmunur, en það er þó sá munur, að á hinu fyrra mundi ekkert segjast, en hið síðara varðaði þungri hegningu. Hv. frsm. meiri hl. sagðist haga svo orðum sínum að sneiða hjá allri áreitni í garð andstæðinga sinna, en ég sagði heldur ekkert miskaorð í hans garð. Hann talaði um fjáraukalögin 1920 –1921. Ég hefi ekki ástæðu til að fara út í umr. um þau. Samanburður hans sýndi, að fjáraukalögin fyrir árið 1930 eru miklu hærri heldur en þau voru fyrir bæði árin 1920–21, og eins þó borin séu fyrri fjáraukalögin 1930 saman við fyrri fjáraukalögin 1920–21, þá, verða þau enn miklu hærri hlutfallslega 1930.

Ég skal ekki finna að því, þó hv. 1. þm. N.-Múl. þakki stj. fyrir allt fjárbruðlið 1930; hann sýnir aðeins með því sína miklu tryggð við hæstv. stj. Það er falleg dyggð að vera svona trúr, þó það sýnist mega líka dálítið um það hugsa, hvað er rétt eða rangt í fari stj. Hann áleit, að það hefði verið meining stj. með allri eyðslunni að gefa þjóðinni myndarlega afmælisgjöf árið 1930. Það getur vel verið, að sú hafi verið meiningin, en ég kann bara illa við það, að gjöfin skuli þá einmitt vera tekin frá þeim, sem á að fá hana. Hefði stj. gefið af sínu eigin fé, þá var það þakkarvert. En þegar hún er að gefa fé, sem hún hefir ekki heimild til að gefa, þegar hún með gjöfunum er beinlínis að brjóta lög, er að leggja undir sig vald Alþingis yfir fjármálum ríkisins, þá hljótum við andstæðingar stj. að átelja þá framkomu, að hrifsa til sín vald þingsins langtum stórkostlegar en nokkru sinni áður hefir þekkzt.

Hv. þm. V.-Húnv. þarf ég litlu að svara. Hann hélt mjög á lofti kostnaði, sem orðið hefði vegna byggingar landsspítalans. Ég hefi ekki átalið það, að landsspítalinn var reistur, en hitt vil ég átelja, að taldir eru til landsspítalans ýmsir háir kostnaðarliðir, sem ekkert koma landsspítalanum við, því það er ekkert annað en fölsuð reikningsfærsla. Annars var, ef ég man rétt, búið að koma landsspítalanum undir þak áður en núv. stj. tók við völdum, og þarf því ekki að gera svo mikið úr þeim þunga, sem hún hafði af þeirri stofnun.

Um Arnarhvál nenni ég ekki að ræða. Við byggingu hans voru brotnar tvær þær meginreglur, sem ákveðið var eftir að breyta í fyrstu.

Hv. þm. talaði um afmælisveizlu alþingishátíðarn., sem hann sagði, að aðeins hefði verið handa sjö manns. Ég held, að það sé misskilningur og að gestirnir hafi verið fleiri, en annars ætla ég ekki að taka það frá hv. frsm. minni hl. að svara þessari aths.